BSRB OG ASÍ VILJA GEFA MAMMON FRÍ
Fréttablaðið greindi frá því fyrir fáeinum dögum að ASÍ og BSRB leggist gegn frumvarpi um breytingar á lögum um helgidagafrið. Frumvarpið er þrengjandi. Þrengir að launafólki og þeirri viðleitni að halda alla vega nokkrum andartökum á árinu þar sem fjölskyldur geta verið saman án þess að einhverjir séu að vinna.
Eins og alltaf eru einhver sem þurfa að vinna, einfaldlega vegna þess að þau gegna slíkum störfum að án þeirra gætum við varla verið, heilbrgðisþjónustan og löggæslan eru dæmi þar um og vissulega hefur ferðamennskan fært þessi landamæri út og við því er lítið að gera en framhjá því verður á hinn bóginn ekki horft að helgidagafriðurinn hefur varið okkur gegn því að Mammon heimti alla daga. Þetta á við almennt um hina vinnandi þjóð.
Á þá leið komst Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, að orði í viðtali við Fréttablaðið. Hér er glefsa úr fréttinni þar sem meðal annars er vitnað í Magnús: „Frumvarpið er sett fram í nafni einhvers frelsis, verslunarfrelsis og frelsis til að hafa búðir opnar. Allt gott og blessað. En samkvæmt okkar hefðum og venjum þá tökum við okkur góð frí þar sem við þurfum ekki að sinna Mammon. Fáum borguð laun fyrir það, erum búin að semja um það,“ segir Magnús. BSRB tekur undir með ASÍ í umsögn sinni um frumvarpið og bætir við að upptalning á helgidögum þjóni mikilvægum tilgangi þrátt fyrir að kjarasamningar hafi almennt einnig að geyma slíka upptalningu.”
Gott fyrir Alþingi að finna fyrir þessari gamalkunnu en sífersku vindhviðu frá Magnúsi M. Norðdahl fyrir hönd ASÍ og BSRB. Fyrir páska erum við vön vindum úr annarri átt, frá Viðskiptaráði og þeirra nótum og svo á síðari tímum frá félaginu Vantrú sem hefur gert það að baráttumáli sínu að fá að spila bingó á föstudaginn langa, og hefur fólk safnast saman á Austurvelli til að skemmta sér með þessum hætti.
Varla snýst málið um ást á bingó heldur að beina spjótum að kirkjunni og kristinni trú.
Spurning er hins vegar hvort hægt sé að sættast á að hlífa föstudeginum langa og öðrum dögum, þar sem enn er vottur af friðhelgi, við yfirgangi Mammons eins og ASÍ og BSRB leggja til.