BSRB og Evrópuumræðan
Birtist í Morgunblaðinu 28.10.04.
Innan BSRB eru uppi mismunandi sjónarmið um hvaða stefnu Íslendingar eigi að taka gagnvart Evrópusambandinu, hvort sækja beri um aðild, freista þess að treysta EES samninginn eða jafnvel losa sig undan þeim samningi. Um hitt eru menn einhuga að nauðsynlegt sé að halda Evrópuumræðunni lifandi og var á síðasta þingi BSRB samþykkt að efna til “skipulegrar umræðu um EES samninginn, kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu og aðra valkosti sem Íslendingar kunna að standa frammi fyrir á vettvangi Evrópusamvinnunnar.” BSRB hefur beitt sér fyrir upplýstri umræðu af þessu tagi um Evrópumálin innávið og útávið og á samstarfsvettvangi samtakanna í evrópskri verkalýðshreyfingu hafa samtökin tekið mjög virkan þátt.
Þjónustutilskipunin hreyfir við tveimur grundvallaratriðum
Sjaldan hefur verið eins mikil ástæða til að halda umræðunni lifandi og einmitt nú því örlagaríkar ákvarðanir eru á döfinni. Lúta þær að svonefndri Þjónustutilskipun (Service directive).
Þessi tilskipun er sprottin upp úr svokölluðu Lissabonferli, en á stefnumótunarfundi ESB í höfuðborg Portúgals árið 2000 var stefnan sett á að gera Evrópusambandið að kröftugasta markaðssvæði heimsins, eins og það var orðað, fyrir árið 2010. Þjónustutilskipuninni er ætlað að vera liður í þessari viðleitni.
Frá því fyrstu drög þessarar tilskipunar litu dagsins ljós hófst mikið tog um innihald, orðalag og túlkun. Flestir gerðu sér fljótlega grein fyrir því að um grundvallaratriði var að tefla.
Í fyrsta lagi var tekist á um skilgreiningar; hvaða þjónustu tilskipunin ætti að taka til; hvaða þjónustuþættir ættu heima á markaðstorginu. Á heilbrigðisþjónusta og menntakerfi ef til vill heima þar? Samkvæmt þeim skilningi sem framkvæmdastjórnin leggur í tilskipunina virðist þetta jafnvel uppi á teningnum. Bolkenstein heitir sá maður sem stýrt hefur þessari vinnu fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar og er hann og hans samverkamenn greinilega mjög hallir undir þessa víðu markaðstúlkun. Ef þessi skilningur verður ofan á yrði það rothögg fyrir velferðarþjónustuna eins og Evrópa nánast öll hefur skipulagt hana.
Hitt stóra ágreiningsefnið varðandi þessa tilskipun er síðan svokölluð Upprunalandsregla, Country of origin principle. Hún gengur út á það að samningar og reglur sem gilda um vinnumarkaðinn skuli vera þær sömu og gilda í upprunalandi fyrirtækis. Það kæmi síðan í hlut upprunalandsins að fylgjast með því að samningar séu haldnir. Fyrirtæki sem skráð er í Slóvakíu svo dæmi sé tekið, og tekur að sér starfsemi í Þýskalandi eða á Íslandi, myndi starfa samkvæmt kjarasamningum, vinnuverndarreglum og öryggisstöðlum sem gilda í Slóvakíu en ekki í Þýskalandi og á Íslandi. Hættan sem launafólki stafar af þessu er augljós: Fyrirtæki koma til með skrá sig í þeim ríkjum þar sem reglur um vinnumarkaðinn og samningar eru lakastir.
Fulltrúar evrópsku verkalýshreyfingarinnar á Íslandi
Í síðustu viku var hér á landi staddur John Monks, forsvarsmaður breska Alþýðusambandsins en hann er jafnframt forseti ETUC (European Trade Union Confederation), Evrópusambands verkalýðsfélaga. Ég átti ásamt félögum mínum í BSRB og ASÍ góðan viðræðufund með honum. Þar sagði hann að sitt mat á þessari tilskipun væri að hún væri grafalvarleg fyrir velferðarsamfélagið og verkalýðshreyfinguna. Hann sagði að sér hefði komið á óvart hve fljótt tilskipunin hefði runnið í gegnum framkvæmdastjórn ESB. Framundan væri umræða í Evrópuþinginu í nóvember og síðan kæmi málið til kasta Ráðherraráðsins í vor, í mars eða apríl. Hvatti hann til kröftugrar umræðu um málið.
Evrópusamband starfsfólks í almannaþjónustu (EPSU: European Public Service Union) hefur látið málið mjög til sín taka og ályktaði af mikilli einurð gegn tilskipuninni á þingi sínu í Stokkhólmi í júní síðastliðnum og hefur auk þess haldið uppi stöðugri málafylgju gagnvart ráðafólki í ESB frá því fyrstu drögin komu fram. Binda menn helst vonir við verkalýðshreyfinguna í þessum slag enda er það fyrst og fremst úr þeirri átt sem andstaðan gegn Þjónustutilskipuninni kemur.
Í lok vikunnar efnir BSRB til opins fundar með tveimur fulltrúum EPSU, annars vegar varaformanni samtakanna, Anne-Marie Perret og hins vegar framkvæmdastjóranum Carola Fischbach-Pyttel. Þær munu segja frá tilskipuninni og hvað þær telja vera í húfi.