BSRB og réttindabaráttan
Birtist í Morgunblaðinu 29.09.2003
Magnús M. Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar ASÍ ritar grein í Morgunblaðið hinn 24. september til að færa rök fyrir þeirri ákvörðun ASÍ að skjóta kröfu sambandsins í lífeyrismálum til umboðsmanns Alþingis. Ótækt væri að ríkið mismunaði starfsmönnum í lífeyrismálum samkvæmt því hvernig þeim væri skipað í heildarsamtök. Tilefni greinarinnar er fyrst og fremst að svara orðum mínum frá 5. september, einnig í þessu blaði, þar sem varað var við þessari leið.
Rök mín voru á þessa leið: Það er skiljanlegt og fullkomlega réttmætt að berjast fyrir því að lífeyrisréttindi hjá sama atvinnurekenda verði samræmd – þó að því tilskildu að það verði gert upp á við. Ef hins vegar farin er dómstólaleið eða máli skotið til umboðsmanns Alþingis og byggt á jafnræðisreglu til þess að ná þessu marki, er hætt við því að grafið verði undan samningsrétti stéttarfélaganna. Í rauninni liggur þetta í augum uppi. Tiltekið félag semur um tiltekin kjör. Önnur félög reyna að ná sambærilegum kjörum í samningum en ef það ekki tekst er leitað til dómstóla. Ef dómstólar síðan úrskurða að hvers kyns mismunun standist ekki jafnræðisreglu myndi tilhneigingin að öllum líkinum verða sú að félög biðu eftir því að aðrir ríði á vaðið í kjarabaráttunni og reyni síðan að ná sínu fram með því að draga atvinnurekandann fyrir dómstóla.
Glaðst yfir árangri sem aðrir munu ná um síðir
Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga náðu samningum um breytt lífeyriskerfi á síðari hluta árs 1996. Þar með myndaðist bærilegur grunnur fyrir traust lífeyrisréttindi. Síðan gerist það fyrr á þessu ári að Landssamband lögreglumanna nær því í samningum að aldursmarkið fyrir töku lífeyris var lækkað umfram það sem gerist hjá öðrum. Þetta varð fólki innan BSRB fagnaðarefni. Eflaust eiga önnur félög eftir að reyna að sækja samsvarandi rétt í samningum og beita þar þrýstingi og fortölum eins og lögreglumenn höfðu áður gert um langan tíma bæði gagnvart viðsemjendum sínum en einnig gagnvart félögum sínum innan BSRB.
Ég gef mér að Magnús M. Norðdahl myndi skrifa upp á framangreind vinnubrögð. En hann myndi ekki láta þar við sitja. Kjarninn í máli hans, eins og ég skil hann, er sá að í því tilviki sem um ræðir séum við hreint ekki að tala um samninga stéttarfélaga. Orðrétt segir Magnús: "Hér nær misskilningur Ögmundar hæstum hæðum. Í fyrsta lagi er ekki kvartað til umboðsmanns vegna mismunandi ákvæða um lífeyrisréttindi í kjarasamningum. Í kjarasamningum þeirra samtaka sem hann veitir forystu er ekki að finna ákvæði um almenn lífeyrisréttindi. Þau réttindi eru ákveðin í lögum um Lífeyrisssjóð starfsmanna ríkisins." Með öðrum orðum, það sé löggjafinn sem mismuni þegnunum.
Munur á kjarasamningsbundnum og lögbundnum réttindum?
Þetta eru í sjálfu sér réttar staðhæfingar hjá Magnúsi en segja okkur aðeins hálfan sannleikann. Staðreyndin er sú að fram á þennan dag hafa kjör sem félagar í BSRB náðu að knýja fram við samningaborð jafnan verið færð í lög. Það er fyrst í seinni tíð að byrjað er að halda inn á nýjar brautir hvað þetta varðar. Þegar sagan er gaumgæfð kemur í ljós að nánast öll réttindi sem BSRB félagar búa við og eru lögbundin eiga sér sögulegan aðdraganda af þessu tagi. Iðulega reyndu stjórnvöld að kaupa sig frá launahækkunum til opinbera geirans með kjarabótum á sviði lífeyrismála eða í formi annarra réttinda.
Á fyrstu árunum sem ég starfaði innan BSRB minnist ég þess að umræðan snerist að verulegu leyti um það hjá okkur sem vorum í grasrót samtakanna hvort heppilegt væri að semja um félagsmálapakka, eins og þeir voru oft nefndir af takmarkaðri virðingu, í stað kauphækkana. Sitt sýndist hverjum á þessum tíma en þegar upp er staðið reyndist meira hald í „pökkunum“ en launagreiðslunum sem áttu eftir að sveiflast upp og niður í tímans rás.
Ekki var þetta fyrirkomulag einskorðað við opinbera starfsmenn. Nefna má mörg dæmi um ávinning ASÍ, eða aðildarfélaga sambandsins, við samningaborðið sem lögfestur var að samningum loknum. Því fór fjarri að slík lög tækju alltaf til alls vinnumarkaðarins.
Lífeyrisréttindin kostuðu mikla baráttu
Varðandi lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna sem lögfest voru 1996, sem eru upptök þessarar umræðu, vil ég segja það eitt að það kostaði mikla baráttu að knýja þau fram. Fyrst að fá stjórnarfrumvarp sem fram hafði komið á Alþingi dregið til baka út úr þinginu; frumvarp sem hefði rústað lífeyrisréttindakerfinu og síðan að ná samkomulagi í sumarlöngum samningum í kjölfarið.
Ekki nutu opinberir starfsmenn mikillar samúðar félaga sinna í öðrum geirum verkalýðshreyfingarinnar í þeirri baráttu. Auðvitað eigum við að sjá í gegnum fingur við slíku. En þetta segi ég til að skýra hvað ég átti við í grein minni þegar ég hnýtti í samstarfsaðila á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og kvartaði yfir þeim tóni sem iðulega hefði heyrst úr þeim herbúðum að opinberir starfsmenn væru oftryggðir. Þetta segir Magnús ekki vera rétt hjá mér. Velkomið væri að rifja upp blaðagreinar og ummæli á þessa lund. Það geri ég hins vegar ekki nema eftir því verði kallað. Það sem heldur okkur sem erum í varðhundshlutverkinu fyrir hönd okkar félagsmanna stöðugt á tánum er sú hætta sem við blasir þegar fram kemur blanda ásakana um oftryggingu annars vegar og krafa um jafnræði hins vegar. Þetta er kokteill sem stjórnvöldum hefur oft þótt girnilegur. Við samningaborð hafa fulltrúar launafólks iðulega fundið fyrir viljanum til að taka almannaróm á orðinu og jafna kjörin – niður á við. Ef það yrði ofan á væri illa komið. Samtök launafólks eiga að bindast jákvæðu bandalagi, fagna ávinningi hvers annars og þoka þannig öllum upp á við.