BURT MEÐ FLOKKSPÓLITÍSKAR SKJALDBORGIR
Í gær fór fram umræða á Alþingi um Lekamálið, svonefnda og hefur Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis þar með lokið afskiptum af því máli. Nefndin kannaði málið á grundvelli þingskaparlaga einsog henni ber að gera, en á þeim lögum voru gerðar grundvallarabreytingar árið 2011 til að stórefla eftirlits- og aðhaldshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu auk þess sem fest voru í lögin ákvæöi um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra.
Þessar lagabreytingar voru gerðar í kjölfar Hrunsins og hefur almennt verið litið á þær sem mikilvæga tilraun til siðbótar í íslenskum stjórnmálum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis var sett á laggirnar með þessum lagabreytingum og var hugsunin hin sama, nefnilega að skapa forsendur fyrir meira gagnsæi og aukið aðhald.
Það fór vel á því að núverandi ríkisstjórnarmeirihluti var samþykkur því að formennska í þessari nefnd yrði á hendi þingmanns úr stjórnarandstöðunni og er það til marks um að nefndin eigi ekki að starfa í krafti meirihlutavalds. Fram til þessa hefur nefndinni tekist bærilega að sigla í gegnum pólitíska brimgarða og fram undir hið síðasta hefur tekist að varðveita góðan vinnuanda þrátt fyrir málefnalegan ágreining um ýmis álitamál.
Þessi nefnd öðrum fremur á að mínu mati að hefja sig upp úr pólitískum flokks-hjólförum þegar kemur að því að rækja aðhaldshlutverk sitt gagnvart stjórnvöldum og tryggja að allir njóti réttar síns, ráðherrar sem bornir eru sökum, einstaklingar og hópar sem eiga í samskiptum við stjórnsýsluna og hallað er ranglega á - og að sjálfsögðu einnig alþingismenn sem sinna aðhaldshlutverki sínu samkvæmt stjórnarskrá og lögum.
Lekamálið var unnið í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis án merkjanlegs ágreinings fram undir hið síðasta þegar nefndarmenn úr stjórnarmeirihlutanum ákváðu að verða nákvæmlega þetta: Ríkisstjórnarmeirihluti.
Vigdíds Hauksdóttir, Framsóknarflokki, lýsti því yfir á fundi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við afgreiðslu skýrslu nefndarinnar um lekamálið að hún talaði fyrir hönd Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þingmenn þessara flokka í Stjórnskipunar- og eftirlitsnenfnd, þegar hún lýsti því yfir fyrir þeirra hönd að þeir segðu sig frá skýrslunni enda málið afgreitt með áliti Umboðsmanns Alþingis í janúar og afsögn ráðherra sem þar með hefði axlað pólitíska ábyrgð. Hvoru tveggja er rangt einsog ég útskýrði í ræðu minni.
Þetta er hins vegar ekki ný afstaða Vigdísar Hauksdóttur. Hún kom fram þegar Vigdís nýlega varð fulltrúi í nefndinni í stað Sigrúnar Magnúsdóttur er hún tók við ráðherraembætti. Það sem hins vegar var nýtt var að þingmenn stjórnarmeirihlutans skyldu lúta leiðsögn samkvæmt flokkspólitískri forskrift. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að þannig var málið skýrt í nefndinni, samanber það sem fyrr segir.
Við umræðu um málið í þingsal í gær komu fram efasemdir um að á hendi þessarar nefndar ætti að vera að skera úr um hvað væri satt og hvað ósatt sem sagt hefði verið í þingsal í þessu máli frá því það kom upp í árslok 2013. Auðvitað á að skera úr um slíkt þegar unnt er og svo er í þessu máli! Það er óvéfengjanlegt.
Þeir sem bornir eru röngum sökum, hvort sem eru ráðherra, almennir borgarar, starfsmenn stjórnsýslunnar eða stofnanir og félagasamtök og að sjálfsögðu alþingismenn eiga sinn rétt sem áður segir og flokkspólitískar skjaldborgir mega aldrei koma í veg fyrir að allir hlutaðeigandi fái notið hans.
Þá hefði ég haldið að hægt hefði verið að taka undir með okkur, sem enduðum í minnihluta með skýrslu okkar til Alþingis, að embætti Umboðsmanns Alþingis eigi alltaf að virða svars og svara aðeins sannleikanum samkvæmt, að ófært sé að ráðherra hafi afskipti af lögreglurannsókn og að ámælisvert sé þegar látið er að því liggja að farið hafi verið í einu og öllu að ráðleggingum ráðuneytis þegar sú hafi alls ekki verið raunin! Út á þetta gekk skýrsla minnihlutans.
http://www.althingi.is/altext/144/s/1255.html
http://www.althingi.is/altext/144/s/1254.html