Busharon
Ísraelski baráttumaðurinn fyrir mannréttindum, Uri Avnery, segir í blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 29. maí, að "sú undarlega skepna Busharon" sé í kreppu. Það eigi bæði við um framenda skepnunnar, George W. Bush, Bandaríkjaforseta og afturendann, Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels. Myndbirtingarnar úr íröskum fangelsum af nöktum föngum hafi opinberað nekt Bandaríkjaforseta. Kreppa Ísraela felist í því að ofbeldið sem þau beiti Palestínumenn færi þeim ekki árangur. Um vandræði Sharons segir Uri Avenry: "Ísrael getur ekki unnið sigur í svona átökum. Það má brytja niður Palestínumenn og þurrka út heilu hverfin, eins og nú er gert, en það er ekki hægt að hafa sigur. Ísraelskur almennningur er farinn að skilja það. Svonefndir "vinstri-zíonistar" virðast einnig vera að vakna af fjögurra ára dái....Niðurtalningin að endalokum Ariels Sharons er hafin".
Hvað getum við gert?
Ariel Sharon er einhver harðdrægasti forsvarsmaður Ísraela sem setið hefur á valdastóli í Ísrael og ábyrgur fyrir mörgum hryllilegum stríðsglæpum fyrr og síðar. Sú spurning sem vaknar við þessar vangaveltur er hvað svo? Hverju breytir það að losna við Sharon? Hvað tekur við? Og kannski fyrst, hvernig er hægt að leggja lóð á þær vogarskálar að ofbeldinu linni? Með öðrum orðum, hvað getum við gert? Þetta er sú spurning sem okkur bera að spyrja á degi hverjum á meðan ofbeldinu linnir ekki.
Í grein, sem einnig birtist í Morgunblaðinu í upphafi árs (24. jan.sl) eftir Mustafa Barghouti einn ötulasta baráttumann Palestínumanna, kvað við svartsýnan tón. Í þessari grein er að finna mjög fróðlegt yfirlit yfir þá þróun, sem átt hefur sér stað á síðustu árum og vangaveltur um hvert stefni. Bent er á að frá Oslóarsamkomulaginu, 1993, hafi landtökubyggðir Ísraela vaxið um 200%, "aðeins við takmörkuð mótmæli erlendis frá".
Í greininni segir Mustafa Barghouti: "Palestínumenn eru í stöðu sem á sér engan líka í nútímastjórnmálum: Sem hernumin þjóð eru þeir gerðir ábyrgir fyrir öryggi hernámsþjóðarinnar. Lögbundnum rétti Palestínumanna til að til að streitast gegn drottnun Ísraela hefur verið snúið gegn þeim sjálfum með því að Sharon talar um átökin eins og þau væru háð af tveim herjum af sambærilegum styrk..." Barghouti fjallar um það sem hann kallar "fjölmiðlaherkænsku" Sharons. Sem dæmi tekur hann síendurteknar yfirlýsingar um að "ef Palestínumenn stigju ekki brátt marktækt skref í þá átt að brjóta "ofbeldi" á bak aftur mundi hann hrinda af stað einhliða "aðskilnaðaráætlun" um að hætta alfarið öllum viðræðum við palestínsku heimastjórnina."
Frá því janúargrein Mustafa Barghouti var skrifuð hefur ofbeldið enn magnast og hefur verið bent á, að sú kreppa sem Sharon er kominn í hafi gert hann enn hættulegri og ofbeldisfyllri en nokkru sinni. Hefur honum verið líkt við aðþrengt villidýr.
En aftur skal spurt hvað er til ráða? Í grein sinni í janúar ásakar Barghouti umheiminn um að sýna sinnuleysi. Hann segir: "Hin bældu viðbrögð alþjóðasamfélagsins við tilkynningu (um að ef ofbeldið ekki stöðvað fari Ísraelar sinu fram einhliða) Sharons gera ekki annað en að brýna forsætisráðherrann."
Vakning í umræðu um nýjar baráttuleiðir
Svo er að skilja að nú sé að eiga sér stað vakning í röðum mannréttindahreyfinganna; að innan þeirra raða fari nú fram mikil umræða um nýjar leiðir til að stöðva ofbeldið í Palestínu og tryggja sjálfsforræði palestínsku þjóðarinnar. Bæði Mustafa Barghouti (sem er aðalritari Palestinian National Initiative og forgöngumaður Union of Palestinian Medical Relief Committees auk þess sem hann talar í nafni GIPP (Grassroots International Protection For The Palestinian People) og Uri Avnery, sem er einn helsti talsmaður mannréttindasamtaknnna Gush Shalom, hafa sent frá sér tilmæli um aðgerðir. ( Sjá nánar hér og hér).