Fara í efni

DAGUR SEM Á AÐ HAFA LIT


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.09.21.
Hjá sumum hefur það tíðkast að klæða sig uppá í tilefni kosningadags. Ekki endilega vegna þess að kosningar séu þeirra ær og kýr. Jafnvel fullkomnir skoðanaleysingjar mæta stífpressaðir á kjörstað. Það gera þeir til að taka þátt í stemningunni, tækifærinu til að gera sér dagamun.

Ég hef alltaf verið svoldið veikur fyrir þessu. Haft gaman af því að gera mér dagamun. Við sem haldin erum þeirri áráttu gerum okkur grein fyrir því að þetta getur kostað umstang.

Sú var tíðin þegar ég var barn að því aðeins stigu menn inn í leikhús eða tónleikasal að þeir væru vel uppábúnir. Því fylgdi mikil lotning að koma spariklæddur í Þjóðleikhúsið. Annað hreinlega gekk ekki en að vera vel til fara. Enda væru menn þá ekki að sýna tilhlýðilega virðingu og jafnframt verða af tækifæri til að gera sér dagamun.

Svo kom hippauppreisnin. Síðan er liðin hálf öld en fyrir mína kynslóð er þetta eins og dagurinn í gær. Þegar hippar voru upp á sitt besta áttu allir helst að vera svoldið sjúskaðir, ekki endilega í rifnum fötum eins og nú gerist fínast heldur þannig til fara að allir mættu skilja að fötin skiptu nákvæmlega engu máli!

Og í Tívolí í Kaupmannahöfn þar sem músíkantar í heimsklassa höfðu til þessa leikið á selló og fiðlur á opnu sviði í síðkjólum og smóking varð mikil kúvending. Nú voru tónlistarsnillingarnir komnir í gallabuxtur og stuttermaboli. Og spurt var í umvöndunartón hvaða máli það gæti skipt hvernig listamenn væru klæddir; vissu menn ekki að listsköpun kæmi klæðaburði nákvæmlega ekkert við? Hvílíkur smáborgarskapur væri að ímynda sér annað!

En það gerði ég nú samt. Ég vildi halda í gömlu þjóðleikhússtemninguna úr barnæskunni. Sú stemning mætti gjarnan halda áfram að svífa yfir vötnunum. Ef til vill var þetta spurning um virðingu og þá gagnkvæma virðingu þess sem hafði listina á valdi sínu og okkar hinna sem komu til að njóta hennar.

Og þannig er því líka farið með sameiginlega hátíðisdaga, jóladag og nýársdag og einnig hina ögn lægra settu daga, sumardaginn fyrsta og 17. júní. Þeir eru allir dagar mikilla lita, jólakúlur í fegurstu litum og fánalitir.
En hvað með kosningadaginn, varla er kosningadagurinn litlaus dagur? Honum er beinlínis ætlað að vera dagur litadýrðar. Pólitískum stefnum, sem kosið er um á kosningadegi, hafa nefnilega verið valdir litir til að kenna þær við, allt frá bláu yfir í rautt. Og inn á milli er bleikt og gult og fjólublátt, já og svo er svart.

Með árunum daprast mönnum sjón. Þannig reynist mér erfiðara með aldrinum að greina tilbrigðin í hinu pólitíska litrófi. Ég er heldur ekki frá því að millillitum fari fjölgandi sem aftur veldur því að litrófið rennur út í eitt.

Litasmekkur manna er mismunandi, líka í pólitíkinni. Sjálfur er ég gefinn fyrir sterka liti. Grænn má vera grænn og blár má vera blár mín vegna en rauður á að vera rauður og það alveg í gegn.

Ef pólitísku litirnir dofna þá mun líka dofna yfir deginum sem við mörg hver viljum gjarnan halda sem degi til að gera okkur dagamun á.

Kosningadagurinn verður að hafa lit. Það hefði ekki verið nóg að vera í síðkjól og smóking á konsertpallinum í Tívólí. Menn urðu að kunna að leika á selló. Annars væri síðkjóllinn og smókingurinn bara til sýnis. Þá væri nánast betra að vera í einhverju litlausu.
Saman þurfa að fara umbúðir og innihald.