DAUÐI DROTTNINGAR OG DUFT HINNA DÁNU
Dauðinn er oftast prívatmál. Þó ekki alveg því oftar en ekki er það svo að fleiri en nánasta fjölskylda vilja gjarnan fá tækifæri til að kveðja vin og samstarfsmann og svo er til í dæminu að samferðamenn vilji sýna hinum látna virðingu, starfi hans og framlagi, með því að mæta í útförina eða skrifa minningarorð. Það er góður siður.
Nú gerist það að Elísabet Englandsdrottning fellur frá hátt á tíræðisaldri. Fjölskyldan syrgir sem eðlilegt er svo og vinir og vandamenn. En þá hefst líka mikið sjónarspil sem nær langt út fyrir það sem prívat og hóflegt getur talist og á sér félagslegar víddir sem vert er að íhuga. Það er nefnilega svo að við andlát þjóðhöfðingja, þá ekki síst kónga og drottninga sem hafa trónað lengi, má bregða upp eins konar spegli á þá heimsmynd sem valdakerfi veraldarinnar vilja halda að okkur.
Bresk vinkona mín reyndi að hafa tölu á á útvarps- og sjónvarpsþáttum sem hafa verið á dagskrá hjá BBC og öðrum fjölmiðlum frá andláti drottningar um líf hennar og störf og allt það sem hún var táknmynd fyrir. Vinkona mín gafst fljótlega upp við talninguna því fátt annað hafði verið á dagskrá fjölmiðla frá andláti drottningar. Athygli fjölmiðla sneri að þessu einu.
Í allri þessari umfjöllun var viðkvæðið hið sama. Elísabet önnur Englandsdrottning væri okkar allra og líka nýi kóngurinn og allir hertogarnir og prinsessurnar sem nú var raðað upp í kringum kistu drottningar. Allt var þetta fólk að sligast undan medalíum og glingri sem á það hafði verið hengt, táknum um atgervi og vald. Og síðan mættu fulltrúar valdakerfa alls heimsins á vettvang, kostaðir af almenningi að sjálfsögðu, umboðsmenn fólksins!
Þarna vorum “við” með öðrum orðum mætt til leiks þótt óbeint væri, að votta breska Samveldinu virðingu okkar, því út á nákvæmlega það gengur þetta allt saman, að sýna virðingu veraldlegri umgjörð valds. Og það vald hefur ekki verið lítið í síðari tíma sögu þegar breska heimsveldið er annars vegar. Bretar stálu sem kunnugt er bróðurpartinum úr nokkrum heimsálfum fyrir fáeinum öldum og halda enn eignarhaldi á auðlindum í einhverjum þeirra þótt sálufélagar í auðvaldsheiminum hafi einnig tekið við keflinu.
Þetta er hin hliðin á málinu, sú hlið sem fyrrnefnd bresk vinkona mín benti á en hún á ættir að rekja til Indlands, þess lands sem lengi vel var stýrt af bresku auðfyrirtæki, the East India Company, stærsta sinnar tegundar á veraldarvísu á sinni tíð með eigin her en að sjálfsögðu í umboði konunga og drottninga Englands innan breska Samveldisins sem nýlenduveldi Breta var kallað. Sýn vinkonu minnar á það sem nú fór fram var úr þessari átt.
En fyrir þá sem hafa áhuga á þjóðfélagsrýni af þessu tagi hlýtur það að teljast merkilegt hve margir hérlendir karlar og konur líta á sig sem nákomna Elísabetu Englandsdrottningu og hafa fyrir vikið tjáð sig um hana í smáu og stóru, um lunderni hennar og allt háttalag. Kannski er þetta skiljanlegt í Bretlandi þar sem kynslóðirnar hafa verið aldar upp með kónga- og drottningar inni á gafli nánast frá vöggu til grafar. En torskildara er það hér norðurfrá þegar fréttafólk á ríkisfjölmiðli klæðist í svört sorgarklæði við fráfall enskrar drottningar og lækkar síðan róminn í fréttaskýringarþáttum til að sýna að það sé hluti af syrgjandi heild. Nú beri að sýna samstöðu með sínu fólki.
Metið held ég þó að hafi verið slegið í Englandi sjálfu. Fréttamenn hafa síðustu daga verið óþreytandi á götum Lundúnaborgar að spyrja fólk um hverjar tilfinningar það beri í brjósti á þessari sögulegu sorgarstund. Og þar kom að kona ein með duftker varð fyrir svörum. Hér hef ég hana móður mína, sagði konan og gjóaði augunum að duftkerinu, hér er aska hennar, hingað komin til að syrgja og verða vitni að útför okkar ástkæru drottningar. Þetta hefði mamma viljað, fá að taka þátt. Og það gerum við nú öll.
Ekki alveg öll.