DEILUAÐILAR?
Birtist í DV 23.11.12.
Nú heyrist sami söngurinn um Gaza og jafnan heyrist þegar Ísralear láta til skara skríða gegn Palestínumönnum. Vísað er í „deiluaðila" sem báðir hafi rétt til þess að verja sig. Þar er átt við að Ísrael sé í fullum rétti í árásarstríði sínu því að á þá hafi einnig verið skotið.
En mynstrið er alltaf það sama: Þegar stjórnvöld í Ísrael ætla að hefja hernaðaraðgerðir er aðdragandinn stigvaxandi áreitni - aukin „gæsla", handtökur og einstakar aftökur ‒ þar til að upp úr sýður og herskáustu samtök Palestínumanna svara fyrir sig. Við þetta ráða lögformleg stjórnvöld í Palestínu ekki. Þegar hér er komið sögu segjast Ísraelsmenn sjá sig knúna til að grípa til varna einsog það heitir. Skiptir þá engu þótt flaugar sem að þeim hefur verið beint séu heimasmíðaðar og valdi takmörkuðu tjóni, en þeirra eigin vopn tæknivæddustu vígatól sem fyrirfinnast enda eyðileggingin og manntjónið eftir því. Síðan hefjast umræður innan veggja þjóðþinga heimsins um að hefja þurfi samningaviðræður og komast að samkomulagi til frambúðar. Þegar vopnin eru síðan lögð niður - í bili - hverfur allt til „hins venjulega" að nýju, nema að hið venjulega er svo óvenjulegt að það ætti ekki að vera til.
Veruleikinn
Veruleikans vegna er nauðsynlegt að rifja upp söguna. Ísraelsríki var stofnað árið 1948 að undangengnum áratuga skipulegum flutningum til svæðisins. Land hafði verið tekið af Palestínumönnum, sumt keypt, og vopnavaldi beitt. Átök urðu viðvarandi og sú skipting sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu tillögu um 29. nóvember 1947 var í óþökk Palestínumanna og nágrannaþjóða. Ekki væri hægt að taka land frá einni þjóð og gefa annarri. Landamærin sem SÞ drógu upp gerðu ráð fyrir helmingaskiptum. En í stríðinu 1948-1949 lögðu Ísraelsmenn undir sig fjórðung landsins til viðbótar og voru þá komnir með 78% upphaflegrar Palestínu undir nýtt ríki, Ísrael. Í Sex daga stríðinu 1967 lögðu Ísraelar alla Palestínu undir sig. Síðan þá hafa Sameinuðu þjóðirnar samþykkt margar ályktanir um að Ísrael skili hertekna landinu, en þessar ályktanir hafa alltaf verið hunsaðar.
Kyngt nánast öllu
Nú hafa Palestínumenn samþykkt skiptinguna og tilvist Ísralesríkis. Og þeir hafa einnig kyngt hernáminu 1948. Þeir gera aðeins kröfu til sjálfstæðs og fullvalda ríkis innan landamæranna eins og þau voru fram til ársins 1967, að halda Gaza og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem. Út á þetta gekk Oslóar-samkomulagið sem Arafat og Rabin skrifaði undir. Nú eru þeir báðir horfnir af sjónarsviðinu, Rabin var myrtur af öfgamönnum í eigin herbúðum. Síðan hafa öfgamenn verið við völd í Ísrael sem engan frið vilja, nema þá „frið" undirgefni og kúgunar. Þeir settu Arafat líka á aftökulista og hafa sýnt í verki að þeir ætla ekki að skila neinu palestínsku landi. Þvert á móti heldur landrán þeirra áfram og nýlendur þeirra á Vesturbakkanum verða æ stærri og fjölmennari.
Palestína berst nú fyrir því að öðlast viðurkenningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta ætla Ísraelar að koma í veg fyrir og hóta eldi og brennisteini ef Palestínumenn halda þessu til streitu. Margir ætla að þar sé að hluta komin skýring á hernaðinum nú.
Stærstu fangabúðir heims
Um Gaza er það að segja að þar býr 1,7 milljón manns í því sem lýst hefur verið sem stærstu fangabúðum heims því svæðið hefur verið í herkví frá árinu 2007 og raunar mun lengur.
Þetta er það sem nú er vísað til sem „deiluaðila".Voru deiluaðilar í Auschwitz? Voru deiluaðilar í Suður-Afríku? Að sjálfsögðu voru engir deiluaðilar þar. Að sjálfsögðu voru ekki uppi tvö jafnrétthá sjónarmið. Aðeins kúgari og hinn kúgaði. Sama á við á Gaza. Þess vegna á ekki að krefjast samningaviðræðna nú. Krefjast á að ofbeldinu verði tafarlaust hætt. Þeir sem því ráða eru Bandaríkjamenn - þeir halda um pyngjuna og sjá Ísrael fyrir vopnum. Þess vegna var efnt til útifundar við bandaríska sendiráðið á mánudag.
Látum ekki sundra okkur
Í kjölfar útifundarins kom fram fólk sem gagnrýndi útifundinn og sérstaklega undirritaðan fyrir að tala tveim tungum. Annars vegar fordæma fjöldamorð á Gaza og hins vegar framfylgja Dyflinnarsáttmálanum um að senda hælisleitendur til þess lands sem þeir fyrst komu til inn á Schengen-svæðið. Rangar fullyrðingar hafa komið fram um þetta efni og þykir mér dapurlegt að horfa upp á fólk halda fram ósönnum staðhæfingum um hælisleitendur á Íslandi og leggja að jöfnu hlutskipti þeirra og fólks sem er verið að murka úr lífið á Gaza. Þetta grefur undan því sem ég hélt að væri sameiginlegur málstaður en er þegar allt kemur til alls eitthvað allt annað.
Ég hef ekki vikið mér undan því að eiga samtal um málefni flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi. Ég hef heldur ekki vikið mér undan því að ræða um ástæður þess að fólk leggst á flótta frá heimkynnum sínum. Á hinn bóginn á ég erfitt með að skilja hvað býr að baki því að blanda slíkri umræðu saman við baráttuna gegn viðbjóðslegu ofbeldi og fjöldamorðum í Palestíunu. Ég hef litið svo á að ekkert megi sundra okkur í þeirri baráttu.