Fara í efni

DJÚPVITUR BOÐSKAPUR FRÁ REYNIVÖLLUM Í KJÓS

"Hvað er á bak við hina bandarísku hersetu í Keflavík undanfarna áratugi, hvað er á bak við herþotur og herþyrlur, kafbáta og herskip, hvað er á bak við einkennisbúninga og heiðursmerki, kaskeiti og radarstöðvar? Hvaða hugarfar og heimsmynd er það sem við Íslendingar erum að kveðja – sumir með söknuði, aðrir fagnandi – þegar þoturnar fjórar hverfa í átt til hnígandi sólar?" Þannig spyr séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum í Kjós í útvarpsmessu 26. mars. Í predikun sinni veltir hann síðan vöngum yfir þessari spurningu og öðrum áleitnum spurningum okkar samtíðar, setur þær í sögulegt, pólitískt og heimspekilegt samhengi, auk hins trúarlega. Presti sem predikar í nafni Þjóðkirkju er mikill vandi á höndum. Hann þarf að geta talað til hins trúaða manns en einnig til hins sem ekki er trúaður eða hefur efasemdir í brjósti. Séra Gunnar Kristjánsson rís undir þessu erfiða hlutverki.
Ég birti hér að neðan predikun séra Gunnars. Ég er honum mjög sammála um ástæður þess að Múrinn féll og Kalda stríðunu lauk: "Sagan sýnir að grasrótin getur breytt miklu. Kalda stríðið var ekki til lykta leitt af talsmönnum stríðsins heldur þeim sem sögðu hingað og ekki lengra, svo mikið vitum við. Kalda stríðið var leitt til lykta í grasrót vestrænna samfélaga, af fólki sem vann markvisst að hugarfarsbreytingu beggja vegna járntjalds með friðargöngum, með fræðslu og upplýsingu."
Séra Gunnar Kristjánsson var í hópi guðfræðinga sem höfðu sig mjög í frammi í friðarbaráttunni í byrjun níunda áratugar síðustu aldar. Hann var einn af gerendunum í sköpun nýrra tíma. Þá, sem nú, talaði hann tæpitungulaust en jafnframt af innsæi og djúpum skilningi. Það var engin tilviljun að séra Gunnar Kristjánsson flutti útfararorðin yfir Halldóri Laxnes þegar hann var borinn til grafar, en um stórskáldið hefur séra Gunnar fjallað ítarlega.  Séra Gunnar Kristjánsson hefur fjallað talsvert um bókmenntir samtímans og minnist ég vekjandi fyrirlesturs hans um ljóð Matthíasar Jóhannessen í Hvalsneskirkju fyrir fáeinum misserum.
Ég hvet lesendur til þess að lesa predikun séra Gunnars sem hér er birt.     

Gunnar Kristjánsson: Prédikun í  Reynivallakirkju 26. mars. 2006. Útvarpsmessa

4. sunnudagur í föstu – miðfasta (lätare):

Textar: 5. Mós. 8. 2-3; 2.Kor. 9.6-11; Jóh. 6. 1-15;

Náð sé með yður og friður.

Hér á landi verða tímamót að áliðnu sumri þegar fjórar herþotur hefja sig til flugs í síðasta sinn og stefna í vesturátt. Þá lýkur áratuga dvöl bandaríska hersins á Íslandi sem margir munu fagna en aðrir sakna.

Hitt er víst að þeir eru vandfundnir sem leiða ekki hugann að dýpri rökum en hin pólitíska og hagsmunatengda umræða hefur snúist um í þessu máli. Tímamót vekja nýjar hugsanir og nýjar spurningar. Til hvers er vígbúnaður, til hvers eru herþotur?

Kannski spyrja einhverjir líkt og barnið á leiksýningunni um Ronju ræningjadóttur: hvað er á bak við leiktjöldin? Hvað er á bak við hina bandarísku hersetu í Keflavík undanfarna áratugi, hvað er á bak við herþotur og herþyrlur, kafbáta og herskip, hvað er á bak við einkennisbúninga og heiðursmerki, kaskeiti og radarstöðvar? Hvaða hugarfar og heimsmynd er það sem við Íslendingar erum að kveðja – sumir með söknuði, aðrir fagnandi – þegar þoturnar fjórar hverfa í átt til hnígandi sólar?

Hvert mannsbarn veit núna það sem það vissi ekki áður. Við vitum fyrir víst hvað stríð er. Svo er upplýsingamiðlun samtímans fyrir að þakka. Við förum nærri um hvað málið snýst, á hvaða gildum stríðið þrífst. En vel að merkja: aðeins að því marki sem fréttamenn hafa aðgang að vígvöllum og komast að tjaldabaki til að færa fréttir af raunveruleika hins lifaða lífs. Þar sem sannleikurinn og réttlætið eru fyrstu fórnarlömbin.

Við þekkjum myndir af óbreyttum borgurum sem liggja eins og hráviði um götur og stræti fjarlægra borga og bæja – fjörutíu þúsund manns hefur stríðið í Írak kostað til þessa. Við þekkjum tölurnar, við þekkjum ótta og skelfingu af afspurn. Og við skynjum skugga stríðsins sem leggst yfir lönd og álfur, í ár og áratugi með þjáningar sínar og eyðileggingu. Myndir stríðsins hafa prentast inn í hug okkar og sál, inn í vitund barna og brjóstmylkinga.

Við þekkjum fangabúðir líðandi stundar og pyntingar sem eru siðmenntuðum þjóðum ekki sæmandi. Einnig hér hljótum við að nema staðar og hugsa okkar gang og spyrja: Er þetta framtíðin?

Það eru tímamót.

Fögnum því að eiga ekki lengur samleið með þeim sem vinna skelfileg grimmdarverk undir fölsku flaggi fagurra hugsjóna. Afhjúpum heldur hið rétta andlit þeirra og höfnum því að flekkast enn frekar af blóðugum höndum þeirra.

Þá mun aftur birta í atvinnumálum og í menningarmálum þar sem atvinna og hermál hafa tvinnast saman í tímans rás.

Við Íslendingar mættum vera hugsi yfir því að hafa ekki sjálf haft meira eigið frumkvæði, að hafa ekki fundið okkar eigin leið í þessum heimi þar sem barist er um völd og yfirráð.

Sagan sýnir að grasrótin getur breytt miklu. Kalda stríðið var ekki til lykta leitt af talsmönnum stríðsins heldur þeim sem sögðu hingað og ekki lengra, svo mikið vitum við. Kalda stríðið var leitt til lykta í grasrót vestrænna samfélaga, af fólki sem vann markvisst að hugarfarsbreytingu beggja vegna járntjalds með friðargöngum, með fræðslu og upplýsingu. Og við skulum ekki gleyma þeim sem gerðu útslagið í þeirri þróun, þeim sem lögðu leið sína í kvöldbænir í austur-þýskum kirkjum, þeirra hugrekki og þrautseigja réði úrslitum og svo féll múrinn.

Það voru hugsjónir sem síðari heimsstyrjöldin fæddi af sér. Hugsjónir um frið og samvinnu þjóða. Á þeim grunni voru alþjóðlegar stofnanir settar á fót eftir síðari heimsstyrjöldina hver á fætur annarri. Þar er enn vaxtarbroddur friðsamlegrar samvinnu og réttlætis í samskiptum þjóða. Og þær stofnanir ber okkur að styðja. Við Íslendingar sækjumst nú eftir því að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, en þá mætti spyrja: með hvaða hugsjónir að leiðarljósi í heimi sem er ofurseldur vígbúnaðardýrkun?

Nýir tímar vekja ekki aðeins spurningar, þeir leita einnig nýrra svara: Hvernig verður framtíðin? Hvað blasir við? Þannig spurðu menn einnig í grasi vaxinni fjallshlíðinni við Galíleuvatnið í guðspjalli dagsins.

Í elli sinni er Jóhannes guðspjallamaður að rifja upp þennan eftirminnilega vordag rétt fyrir páskahátíðina, þegar fólkið heillaðist af Jesú og vildi gera hann að konungi. Í þeirra huga var enginn vafi: Hann var hinn fyrirheitni konungur sem mundi frelsa þjóðina undan hervaldi Rómverja sem var henni þungbært ok.

En Jesús vék sér undan kröfu fólksins, aftur upp til fjallsins, einn síns liðs. Jóhannes veltir ekki fyrir sér hvers vegna Jesús brást svo einkennilega við. En við spyrjum hvers vegna hann tók ekki fúslega við konungstigninni, og notaði tækifærið til að ganga til þjónustu við kúgaða þjóð sína?

Svarið þekkjum við reyndar: Það sem við nefnum Hans ríki var ekki ríki í venjulegum skilningi. Það var ólíkt ríkjum keisaranna og konungannna eða forsetanna og einræðisherranna. Það á sér engin landamæri eins og þeirra ríki, það er ekki varið með vopnum og herþotum, hvað þá þanið út í krafti þeirra. Eina valdið sem máli skiptir í ríki Jesú Krists er hin milda návist hans.

Fólkið sér greinilega fyrir sér sterkt veraldlegt ríki og það er tilbúið til að lúta sterkum foringja sem býður því brauð og leiki. En Jesús hefur ekki löngun til að ríkja yfir þessu fólki.

Í sumra augum hefur hann sjálfsagt verið huglaus á herskáum tímum, þegar hann vék sér undan ábyrgðinni og lét aðra sjá um verkin, að verjast yfirgangsmönnum og valdníðingum. Var það kjarkleysi að ganga ekki til liðs við þá hópa meðal þjóðarinnar sem reyndu að frelsa hana og fórnuðu miklu? Var hann ábyrgðarlaus í heimi sem var grár fyrir járnum líkt og nú?

Ríki hans er ekki veikt. Það er þvert á móti sterkt. Styrkur þess felst í því sem það er, í anda þess og krafti, í því frelsi sem það veitir manninum og þeim fögnuði sem það skapar í hjarta hans, í því sjálfstæði og þeirri sjálfsmynd sem það veitir manninum sem einstaklingi og sem samfélagi. Það er sterkasta ríki sem þessi heimur þekkir og þarfnast ekki konungs.

Hér er horft djúpt inn í veruleika mannsins því að sagan er tákn – eins og guðspjallamaðurinn segir. Og tákn er meira en sýnist, það vísar lengra en virðist í fyrstu, út fyrir sjálft sig á einhvern annan veruleika sem því er ætlað að koma til skila.

Sagan er tákn um draum sem hefur fylgt manninum frá elstu tímum. Við getum kallað hann drauminn um paradís. Hér er engin eyðimörk lengur heldur aðeins grasi gróin hlíðin. Hér nýtur fólks-fjöldinn lífsins í hlíðunum við vatnið, hér er smækkuð mynd af heimi þar sem allt er sem þarf. Enginn höggormur læðist inn í myndina. Hér er tákn um paradís í fortíð og ófyrirsjáanlegri framtíð: Þjórsárver við ána Jórdan.

Fagrir paradísarstaðir á okkar eigin landi koma upp í hugann: fegursti blómagarður landsins í jökulurðinni í suðurhlíðum Hofsjökuls, víðátta öræfanna, hrikalegir kraftar hafsins við klettabjörg og sendnar strendur.

Náttúran vekur þennan draum. Það vissi Jóhannes. Hann þekkti kraftinn sem bjó í þessu tákni sem á sér hljómgrunn í innstu vitund mannsins. Hér er um öflugasta draum mannsins að tefla, um hreyfiaflið sjálft í lífi hans, um það sem öllu varðar: lífshvötina sjálfa sem tekst sífellt á við tilhneigingu mannsins til uppgjafar. Drauminn sem allir hugsjónamenn og umbótamenn hafa höfðað til.

Í nýrri ævisögu Roberto Rosselinis, eins merkasta kvikmynda-leikstjóra tuttugustu aldar, sem er að koma út þessa dagana, segir dóttir hans, Isabella Rosselini að faðir sinn hafi haft afgerandi áhrif á þróun kvikmyndarinnar á tuttugustu öld. En hann hafi í reynd verið draumóramaður. Hún líkir honum við hinn sorglega riddara bókmenntanna, Don kíkóta. Hún segir að faðir sinn hafi reynt að fá fólk til að hugsa, taka afstöðu, hann vildi höfða til samvisku fólks, metnaður hans snerist ekki um skammvinn sýndargildi, ekki um tískusveiflur, heldur um það sem blífur, um það sem skiptir mestu máli í lífi mannsins. - Þetta sagði Isabella Rosselini í nýlegu viðtali.

Sagan um mettunina vísar í þennan draum: sameign allra manna á öllum tímum, draum þeirra um hið góða, fagra og fullkomna: sambland af öryggi og eftirvæntingu, sterkri þrá og tilhlökkun. Þetta er mynd af samfélagi þar sem öll þjáning er horfin, þar sem enginn líður hungur og enginn grætur, og enginn er beittur ofbeldi.

Draumurinn um paradís er bæði um hið liðna og um hið ókomna, hann umlykur líf mannsins frá vöggu til grafar. Hann er kraftur sem gefur manninum löngun til að bjóða hernaði og pyntingum byrginn, en standa vörð um mannúð og réttlæti.

Þessi draumur er sterkasta aflið, án hans væri heimurinn öðru vísi, án hans væri ekkert til að stefna að nema líðandi stund ein og skammvinnir hagmunir einstaklinga og þjóðar.

Jesús er þessi þrá mannsins holdi klædd.

En þetta er ekki sá heimur sem blasir við uppvaxandi kynslóð. Sá heimur er harðneskjulegur, miskunnarlaus og ósanngjarn, þar sem vopnin eru látin skera úr, sá sem hefur þau í hendi sér hefur allt vald í lofti, á láð og í legi og þar ríkir grimmdin ein, hinn sterki á allan rétt. Í þessari hryllingsbúð, eins og heimurinn lítur út í augum margra jarðarbúa, er spurt um hugrekki til að lifa, þar er spurt um forsendur til að skapa lífvænlegt samfélag. Í þeim spurningum býr vaxtarbrodd-ur vonarinnar. Með hinum þjáðu er hann í sinni hreinustu mynd.

Sagan um mettunina við vatnið er táknþrunginn atburður þar sem andstæðum er stillt upp. Annars vegar er ríki heimsins en hins vegar ríki Guðs. Kannski hafa þessar andstæður sjaldan verið skarpari en á okkar tímum. Kannski hefur paradís fjallshlíðarinnar aldrei verið fjarlægari en á okkar tímum þegar vígbúnaðardýrkunin hefur heltekið svo marga og fjallshlíðum paradísar fækkar, í það minnsta hér á landi.

Í þessum andstæðum hljóta kristnir menn að taka sér stöðu með Kristi og málstað hans sem er róttækt, endurskapandi lífsviðhorf, þar sem spyrnt er við öflum eyðileggingarinnar í hvaða mynd sem þau birtast, jafnvel þótt því fylgi áhætta.

Innsta eðli trúarinnar finnum við í fordæmi Jesú sjálfs, í hinni róttæku afneitun hans á leikreglum heimsins, hinni sterku tilvísun til þeirra gilda sem aðeins búa í huga mannsins og eru hafin yfir stund og stað, í trú mannsins á að þessi heimur þurfi ekki að vera ofurseldur vondum örlögum, í löngun til að veita viðnám í heimi sem svo oft virðist ofurseldur uppgjöf og leitar skjóls þar sem ekkert skjól er, í vígbúnaðarhyggju samtímans. 

Og vel að merkja í heimi sem er svo óendanlega auðugur að við þurfum ekkert meira. Heimi sem er ríkur af návist Guðs í stóru sem smáu, hvort sem er í fjöllum og fossum eða í lággróðrinum, í ævintýraheimi hryggleysingjanna, í vespum og maurum.

Heimi sem er þrunginn návist hans hvert sem litið er í smáu sem stóru: í birtu hækkandi sólar, í næturkyrrðinni. Í lífsnautninni sem er aldrei langt undan í hinu hversdagslega, sem bíður þín við morgunverðarborðið með börnum og barnabörnum, eða þegar þú leiðir litið barn og hlustar á djúphugsaðar spurningarnar eða einfalda brandarana. Í samneyti við hina öldruðu, í frásögnum móður þinnar, ömmu eða langafa. Í kaffipásu í vinnunni þar sem ekki er spurt um mínútur heldur vináttu. Í ástinni, umhyggjunni, samúðinni. Með því að lifa sig inn í heim þeirra sem eru í minnihluta og gera kjör þeirra að sínum. Hvað um samkynhneigða, hvað um fatlaða, hvað um ellihruma? Og í lífsviðhorfi þeirra sem játa aðra trú en maður sjálfur, hafa af annarri lífsreynslu að segja en eiga sér kannski sama draum í hjarta.

Heimurinn er óendanlega auðugur og getur brauðfætt alla jarðarbúa ríkulega, kræsingar eru á borð bornar hvern dag, þar sem fiskurinn verður að heilli torfu sem mettar þúsundir og brauðið skortir ekki.

Um þessa sýn snýst trúin. Hún snýst ekki um kenningar. Við trúum hvorki á kenningar né ritningarstaði. Fólkið umhverfis Jesúm hafði hvorugt, það hafði Jesúm sjálfan. Trúin er að vera snortinn í hjarta sínu af orðum hans og verkum, af fordæmi hans. Hann gekk ekki inn í ofbeldisferli samtímans heldur varði bersyndugu konuna fyrir steinkasti faríseanna.

Tákn hans er ekki hnígandi sól heldur rísandi sól páskadags, upprisunnar sem býður sérhverri dauðahvöt byrginn, hverri uppgjöf og undirgefni undir það vald sem hefur dauðann í för með sér. Þangað horfum við, kristin kirkja allra tíma, þangað sækjum við styrk og hugrekki til að lifa og þjóna þeim sem lifa.

Það er því engin tilviljun að yfirskrift þessa sunnudags hafi um aldir verið upphaf latneska textans úr Jesajaritinu: lätare, fagnið. Að trúa er að finna gleðina að nýju, hún er svar mannsins við lífsótta og lífsflótta. Það er ástæða til að gleðjast og fagna, dyr standa opnar, tækifærin eru óendanleg, lífið blasir við þar sem Jesús er nærri. Amen.