Drápu Íslendingar leiðtoga Hamas?
Í magnaðri predikun séra Arnar Bárðar Jónssonar, sem útvarpað var úr Neskirkju í Reykjavík í Ríkisútvarpinu í dag, var spurningu á þessa lund varpað fram og brá prestur þar út af skrifuðum texta. Með spurningunni vildi séra Örn Bárður minna okkur á að við erum hluti af alþjóðasamfélaginu, látum þar til okkar taka og að því fylgi ábyrgð. Hann minnti á siðferðilega ábyrgð mannsins gagnvart meðbræðrum sínum, óháð trúarbrögðum. Hann kom víða við, fjallaði þó fyrst og fremst um alþjóðamál en vék einnig að öðrum málum, m.a. frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um málefni útlendinga. Tilvísanir í bókmenntir voru ríkulegar, sannkölluð veisla!
Það sem einkennir predikanir séra Arnar Bárðar er hve sterka skírskotun þær hafa jafnan til þess sem er að gerast í samtímanum og hve umbúðalaust tekið er á málum. Ekki hef ég hlustað á allar útvarpsmessur síðan séra Gunnar
Kirkjan hefur á að skipa nokkrum mjög öflugum kennimönnum, sannkölluðum eldklerkum og eru þessir tveir fyrrnefndu, þar framarlega í flokki. Ekki er ég kirkjurækinn maður nema síður sé. Ég held það hins vegar eigi við um marga, hverrar trúar sem þeir eru, ef þá yfirleitt nokkurrar, að kraftmikill málflutningur sem byggir á djúpri siðferðislegri vitund og tekur jafnframt á brennandi málefnum samtíðarinnar af visku, höfðar sterkt til allra. Ég minnist þess að ég stóð við hliðina á ungri stúlku þegar séra Örn Bárður flutti ræðu á útifundi sem boðað hafði verið til á Lækjartorgi gegn árásinni á Írak. Að lokinni ræðunni sagði hún, að hún sæi ekki annað en hún þyrfti að fara að sækja messur í Neskirkju!
Þegar ég fór inn á vefsíðu Neskirkju eftir að útvarpsmessunni lauk sá ég að þar á bæ láta menn ekki að sér hæða þegar tæknin er annars vegar. Þar er nú hægt að fylgjast með útvarpsmessum í beinni útsendingu á netinu!
Hér er tengillinn inn á predikun séra Arnar Bárðar í dag.
Og hér er tengillinn yfir á vefsíðu Neskirkju.