DRAUMUR JÓNS, MARTRÖÐ OKKAR!
Á vegunum er ýmislegt sem þarf að bæta, laga holur, breikka vegi og gera þá öruggari. Að ógleymdum salernunum náttúrlega. Þeim þarf að koma upp víða um landið.
Allt þetta er SMÁMÁL að leysa miðað við hagnaðinn sem við höfum af ferðmennskunni. Og gráturinn og kveinstafirnir sem við verðum vitni að í sambandi við þann vanda sem okkur er sagt að stafi af ferðamönnum, vekur furðu þeirra sem þekkja til, hafa gengið niður fallegan stíginn að Gullfossi og orðið vitni að áþekku starfi annars staðar. Það þarf að gera meira, talsvert meira, en ekki svo að við eyðileggjum það sem fegurst er við Ísland, víðáttuna og tilfinninguna fyrir frelsinu. Látum ekki ýkjufulla bisnissmenn villa okkur sýn.
Erlenda ferðamenn ætlar ríkisstjórnin nú að nota sem átyllu til að uppfylla gamlan draum um gjaldtöku á vegum. Þessi draumur er nefnilega ekki nýr af nálinni og hefur ekkert með ferðamannastrauminn að gera. Það þarf ekki mikinn draumráðningamann til að skilja hann. Þessi draumur skýrist fyrst og fremst af frekju og yfirgangi nokkurra verktaka sem vilja komast ofan í vasana okkar til þess að hafa af okkur pening. Þetta er sáraeinfalt mál öllum þeim sem vilja vita.
Nú hafa þessir aðilar fengið ríkisstjórn sem er reiðubúin að ganga erinda þeirra og rukka okkur. Og er ráðherra samgöngumála, Jón Gunnarsson, ákafastur allra.
Ef ferðamennirnir eru vandamálið, hvers vegna ekki rukka þá við komuna til landsins í stað þess að nota þá sem skálkaskjól til að láta okkur borga verktakafyrirtækjum fyrir að fá keyra um vegi landsins?
Þetta er ekki nógu gott Jón Gunnarsson! Ég er hræddur um að draumur þinn muni reynast martröð vegfarenda.