Fara í efni

DRENGURINN OG STEÐJINN

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23/24.07.16.
Tuttugasta öldin var mesta framfaraskeið mannkynssögunnar. Framfarirnar náðu vissulega ekki til allra jarðarbúa, fjarri því. Og hvergi var öldin gallalaus. Þetta var öld styrjalda, alræðiskerfa, yfirgangs fjármagns og ofbeldis í margvíslegri mynd. En aðgangur að síbatnandi heilbrigðisþjónustu, menntun, húsnæði, vatni og rafmagni, sem og framfarir í samgöngum tryggðu almenningi stórbætt lífskjör. Sama gildir um framfarir í framleiðslutækni sem gerði erfiðsvinnu auðveldari.

Tilfinningin var sú að mannkynið væri á framfarabraut. Þetta var hið almenna viðhorf í okkar heimshluta eftir miðbik tuttugustu aldar og fram á þennan dag; að mannkynið væri í sókn. Morgundagurinn yrði örugglega betri en gærdagurinn. Ekki bara meiri lífsgæði, heldur líka meira lýðræði og meira frelsi.

Nú læðast, hygg ég, efasemdir að okkur mörgum, um að leiðin liggi öll til framfara enda víkur umburðarlyndi fyrir þröngsýni, jöfnuður fyrir ójöfnuði og öryggi fyrir óöryggi.

Þarna er rétt að staldra við. Fátt þráir fólk eins heitt og að búa við öryggi. Trygga lífsafkomu og sprengjulausar borgir.

Stjórnmálamenn sem segjast geta losað okkur við allar ógnir - á hnefanum - eru farnir að ná eyrum fólks beggja vegna Atlantsála. Með illu skal illt út reka, er viðkvæðið, og að tilgangurinn helgi meðalið. Við þetta ættu að klingja viðvörunarbjöllur því nákvæmlega svona er uppskriftin að alræðisstjórnarfari.

Frelsisbarátta mannsandans hefur tekið þúsund ár. Og var enn önnur þúsund ár í undirbúningi. Og þau ár áttu líka sinn aðdraganda. Við erum að tala um langa þrautagöngu sem má aldrei láta lokið. Því frelsið mun aldrei koma áreynslulaust.

Og þá aftur að örygginu; hvernig veitum við fólki öryggi? Kannski getum við lært af okkar eigin sögu; hversu mikilvægt það var fyrir íslensku vesturfarana hve vel þeim var tekið í Kanada og Bandaríkjum Norður-Ameríku þegar þeir komu þangað hraktir og allslausir. Þeirra beið flestra erfitt líf en það sem mest var um vert, fordómalaust samfélag sem tók þeim opnum örmum.

Fordómaleysi og vinsemd gerðu Vestur-Íslendingana að góðum Kanadamönnum og Bandaríkjamönnum.

Íslendingarnir héldu lengi tryggð við sína gömlu heimahaga, lögðu rækt við meningararf sinn og tungu, jafnframt því sem þeir löguðu sig að nýju samfélagi. Tengingin við gamla landið var þeim styrkur þegar þeir stigu inn í nýja heiminn.

Þetta er ekkert séríslenskt. Þetta er sammannlegt. Kunningi minn, smíðakennari, sagði mér hjartnæma en um leið lærdómsríka sögu. Í einum barnaskólabekknum, sem hann kenndi, veitti hann því athygli að einn nemandinn hafði á fyrsta degi kennslunnar litast um í smíðastofunni svolítið ráðvilltur en gengið síðan að steðja einum miklum í einu horni hennar, strokið honum varfærnislega, gott ef ekki faðmað hann að sér. Þetta átti eftir að margendurtaka sig.

Kunningi minn sagði að þetta hefði vakið forvitni sína og hefði hann grandskoðað steðjann, sem naut svo mikillar ástúðar hins unga drengs. Um síðir rann skýringin upp fyrir kennaranum. Steðjinn var framleiddur i Póllandi og í hann var greypt letur á pólsku. Þarna var fundinn samnefnarinn. Báðir voru frá Póllandi, drengurinn og steðjinn.
Og það fylgdi sögunni að báðum líði nú vel á Íslandi, orðnir rammíslenskir, bæði drengurinn og steðjinn.