Fara í efni

EF ALLUR HEIMURINN HEIMTAR AUGA FYRIR AUGA


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 10/11.08.22.
Biden forseti BNA nefndi hvorki auga fyrir auga tönn fyrir tönn en það var þó inntakið í ávarpi hans frá Hvíta húsinu hinn fyrsta ágúst síðastliðinn þar sem hann sagði: “Bandaríkin munu tortíma hverjum þeim sem þjóð okkar stafar ógn af.” Og svo bætti hann því við að vafalaust muni nýafstaðin aftaka sefa sorg margra: “Ég ber þá von í brjósti að þessi markvissa aðgerð verði til þess að þau sem misstu feður og mæður, eiginmenn og eiginkonur, syni og dætur, bræður og systur, vini og samstarfsmenn þennan nístandi septemberdag komist nú nær því að öðlast hugarró.” 

Hinn sári septemberdagur var ellefti september árið 2001 þegar Tvíburaturnarnir í New York voru jafnaðir við jörðu með þeim afleiðingum að þrjú þúsund manns létu lífið. Og hin “markvissa aðgerð” sem forseti Bandaríkjanna gladdist nú yfir var aftaka æðsta foringja Al Queda, Aymans al-Zawahiri, sem forsetinn sagði að hefði ásamt Osama bin Laden skipulagt þetta hryðjuverk og fleiri slík. Fyrir ellefu árum hafi “réttlætið náð” til Osamas og nú hefði réttlæti bandarísku leyniþjónustunnar náð til þessa manns einnig. Fram kom í fréttum að það hefði gerst með hárnákvæmri drónaárás með skurðarhnífum sem skorið hafi manninn í sneiðar. Hann væri nú endanlega úr sögunni sagði Jo Biden Bandaríkjaforseti og að þar með væri réttlætinu fullnægt.

Sitthvað fleira sagði hann í ávarpi sínu svo sem að nú þyrfti ekki lengur “þúsundir hermannaklossa” á afganskri grund. Bandarískur her hefði verið kallaður heim frá Afganistan enda Bandaríkjunum ekki ógnað lengur úr þeirri átt. Með öðrum orðum, refsivöndurinn hefði haft sitt að segja, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.

En hverjar skyldu vera afleiðingar þessarar aðferðafræði í mannslífum og dollurum talið? Brownháskólinn í Bandaríkjunum hefur unnið ítarlegar skýrslur um “the cost of the post 9/11 wars” þar sem afleiðingar stríðsreksturs Bandaríkjanna gegn “ógn við bandaríska hagsmuni” frá þessum tíma eru tíundaðar. Mannslífin eru að mati rannsakenda rúmlega 900 þúsund og er þá ekki talið allt það fólk sem dáið hefur af afleiddum orsökum beinna stríðsátaka; 37 milljónir hraktar á flótta og kostnaðurinn í óskiljanlegum upphæðum, átta þúsund milljarðar dollara.

Hagsmunir auðvaldsheimsins kunna að hafa verið tryggðir með þessari aðferð. En skyldi heimurinn og við öll sem hann byggjum vera öruggari fyrir vikið?

Ekki hefði Jesús Kristur talið svo vera.Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.”  Þessi orð úr Mattheusarguðspjalli hafa löngum orðið mönnum umhugsunarefni. Sjálfur hef ég átt erfitt með að kyngja þeim enda heitfengari en svo og auk þess ekki mikið fyrir það gefinn að bjóða hinn vangann. Í mér, sem sennilega okkur öllum, hefur þó blundað sá skilningur að hefnigirni sé aldrei til góðs. Eflaust er þetta hluti af uppeldi okkar og hver veit nema þessi boðskapur úr guðspjallinu og þær grundvallarspurningar sem hann vekur hafi haft sín áhrif.

Kristnir menn tala annars vegar um lögmálið og hins vegar fagnaðarerindið. Lögmálið sé að finna í gömlum trúar- og siðaboðskap en fagnaðarerindið í hinu Nýja testamenti. Lögmálið segir eitthvað á þessa leið: Við erum af jörðinni komin og við verðum að hlíta lögmálum hennar til að halda reglu í samfélagi mannanna. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn er réttlætisyfirlýsing lögmálsins. Handhafi valdsins hefur rétt fyrir sér. Valdið hefur rétt fyrir sér. Hefndin er réttlæti og hefndin er réttlát.

En hvað er þá fagnaðarerindið? Það segir að maðurinn þurfi ekki að láta lögmálið kúga sig að eilífu, hann geti hafið sig upp yfir hlutskipti sitt og sigrast á kringumstæðum sínum, náð valdi á sjálfum sér, á samfélaginu og á heiminum. Það gerist þegar lögð er rækt við þá samkennd þar sem hver og einn sér sig í öðrum: “Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra.” Viðbragðið verður þá með öðrum orðum ekki að beita vopni sem tortímir og deyðir heldur verður það kærleikurinn og traust á honum.
Kristnir menn segja að Jesús hafi verið sendur á vettvang til að færa okkur þessar fréttir. Þetta er boðskapur sem ekki er auðvelt að meðtaka.
Þó hef ég grun um að flestir muni skilja, í það minnsta innst inni, hve varasamt það er þegar hið gagnstæða er sagt; hve hættuleg réttlæting hefndarinnar gæti reynst okkur mönnunum ef heimurinn allur gerði hana að sinni: Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.