Fara í efni

EFLUM ALMANNAÞJÓNUSTUNA - EFLUM LÝÐRÆÐIÐ


Setningarræða 41. þings BSRB: Kjörorð þingsins er:
Eflum almannaþjónustuna – eflum lýðræðið.
Hvers vegna þetta kjörorð? Innan BSRB – starfar launafólk sem á það sammerkt að vinna við þá atvinnustarfsemi sem við höfum kallað almannaþjónustu – þar er um að ræða grunnþjónustu samfélagsins – þjónustu sem ekkert samfélag getur án verið, hvort sem það er á sviði heilbrigðismála og menntamála eða löggæslu, vinnueftirlits og rannsókna, póstþjónustu eða annarra þátta sem nútímaþjóðfélag byggir á.

Innan almannaþjónustunnar starfa félagsmenn BSRB. Þess vegna skiptir hún okkar samtök miklu máli. Þess vegna viljum við efla hana og bæta. Við viljum að þeir vinnustaðir sem sinna almannaþjónustunni séu starfsmannavænir -  þar sé vel búið að starfsfólki hvað varðar aðstöðu, starfs- og launakjör.

En almannaþjónustan skiptir okkur einnig máli sem þjóðfélagsþegna. Hún er sá grunnur sem önnur starfsemi samfélagsins er reist á. Þjóðfélag sem ekki býður þegnunum upp á góða heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngur, hvort sem er á þjóðvegum landsins eða með pósti og fjarskiptum, trausta löggæslu, aðhlynningu á ævikvöldi – þjóðfélag sem ekki sinnir þessum þáttum sem skyldi, reisir aldrei aðra efnahagsstarfsemi á traustum grunni. Velferðarþjónustan – hin breiða almannaþjónusta - er þannig forsenda blómlegs mannlífs og efnahagslegra framfara. Hún er bæði eggið og hænan – allt annað er henni háð. Lýsandi dæmi um þetta er vitinn sem vísar fiskibátnum í örugga höfn.

Öryggi og jöfnuður; - sænski fræðimaðurinn Göran Dahlgren, handhafi lýðheilsuverðlauna Norðurlanda, sem hingað kom til lands vorið 2004 og flutti fyrirlestur á vegum BSRB um kerfisbreytingar innan heilbrigðisþjónustunnar, sagði að það væri ekki aðeins svo að rannsóknir hefðu sýnt að markaðsvæðing heilbrigðiskerfisins hefði reynst greiðandanum dýrari – hefði haft aukinn kostnað í för með sér og minni framleiðni – hún hefði einnig dregið úr jöfnuði í þjóðfélaginu. Íslendingar hafa alla tíð – og þar hefur verkalýðshreyfingin staðið fremst í flokki, lagt áherslu á mikilvægi jafnaðar – mikilvægi þess að við værum öll á sama bátnum – enda kunn staðreynd og aldrei of oft á henni hamrað, að því aðeins getum við lagst saman á árarnar að við séum yfirhöfuð á sama bátnum. Í jöfnuðinum er þess vegna að finna sprengikraft til framfara! 

Oft hafa Íslendingar þurft að leggjast saman á árarnar. Það vill stundum gleymast hve mikla baráttu það hefur kostað þjóðina að komast þangað sem við nú erum stödd. Það tók okkur meira en hundrað ár, því fyrir um hundrað árum kvað Þorsteinn Erlingsson, skáld, um þá áfanga sem þá höfðu náðst eftir langt og strangt erfiði:

Og munið að ekki var urðin sú greið
til áfangans, þar sem við stöndum,
því mörgum á förinni fóturinn sveið,
er frumherjar mannskynsins ruddu þá leið
af alheimsins öldum og löndum.

 Í sama kvæði, Brautinni, kvartar Þorsteinn yfir því hve seint gangi í framfarasókninni – Vort ferðalag gengur svo grátlega seint, segir skáldið, en minnir jafnframt á þau skínandi sigurlaun, sem þrautseigjan færi baráttufólki – að afloknu erfiðinu- - að entum þeim klúngróttu leiðum-,  - að baki blágrýtis heiðum.

BSRB verður ekki sakað um að hafa ekki staðið vaktina og haldið uppi vörn þegar á hefur þurft að halda en ekki síður hafa samtökin beitt sér af alefli í sókn til framfara. Við vörðum lífeyriskerfið þegar að því var gerð alvarleg atlaga um miðjan síðasta áratug en við vorum jafnframt reiðubúin að ganga til samninga um kerfi á breyttum forsendum. Þegar nýtt fyrirkomulag var boðað um rétt í fæðingarorlofi – grundvallað að verulegu leyti á hugmyndum frá BSRB – þá tókum við því fagnandi, jafnframt því sem við hlúðum að því sem fyrir var.

Þegar við lesum skýrslu stjórnar BSRB frá því við síðast komum saman til þings í októbermánuði árið 2003 sjáum við kröftugan og dafnandi félagsskap.
Hér vísa ég til ávinnings sem beint má rekja til baráttu BSRB á sviði starfsmenntunar, stuðnings í veikindum, og réttarbætur fyrir aðstandendur langveikra barna en þar sjáum við árangur af áralangri baráttu. Um árangurinn vísa ég einnig til þeirrar áherslu okkar að styrkja stöðu eldra starfsfólks á vinnumarkaði, þar er nú komið í gang verkefni á vegum félagsmálaráðuneytis í anda þess sem þing BSRB hafa óskað eftir. Á öllum þessum sviðum þarf vissulega að gera enn betur, en við fögnum hverju skrefi fram á við, einnig því sem nýlega hefur áunnist í réttindum atvinnulausra; öll þessi mál eru stöðugt í vinnslu, alltaf í deiglunni á félagsmálaverkstæði verkalýðshreyfingarinnar.
Nú um stundir vísa ég sérstaklega í áherslur okkar um að bæta réttarstöðu trúnaðarmanna. Þá er ekki síður ástæða til að vekja athygli á þeirri vinnu sem fram fer í samvinnu við BHM og viðsemjendur okkar til þess að bæta stöðu vaktavinnufólks. Þannig mætti áfram telja mikilvæg verkefni á okkar borði. Enda þótt samningar um laun og kjör séu hjá einstökum aðildarfélögum BSRB þá er það svo þegar upp er staðið, að allt hvílir endanlega á þeim ramma réttinda og almennrar félagslegrar aðkomu að samningum sem heildarsamtökin hafa skapað.

Í síðustu samningum náðum við vissulega ýmsu fram á sameiginlegum vettvangi en engu að síður skorti þar talsvert á, og nýttu viðsemjendur okkar sér að við komum ekki sem skyldi sameiginlega að verki og varð það til þess að veikja aðkomu heildarsamtakanna á síðari stigum. Við endurskoðun samninga í sumar varð BSRB afgangsstærð og gagnrýndi ég það harðlega á opinberum vettvangi. Það er slæmt fyrir starfsmenn almannaþjónustunnar og það er slæmt fyrir almannahag þegar BSRB er haldið utan gátta. Ef gera á samninga sem varða þjóðarhag – þá verður BSRB að koma þar að borði. Það er engin þjóðarsátt án þjóðarinnar allrar og BSRB er afgerandi hluti launaþjóðarinnar. Þess vegna endurtek ég nú að það megi aldrei aftur henda að BSRB verði haldið utan samningaborðs þegar hin breiðu þjóðfélagsmál eru annars vegar! Við segjum eins og fleiri: Ekkert um okkur án okkar. Þetta er hin lýðræðislega krafa samtímans. Hún kemur frá verkalýðshreyfingunni. Hún kemur frá eldri borgurum og hún kemur frá öryrkjum og undir hana skal tekið.

Ég hef vísað í árangur sem við höfum náð á ýmsum sviðum. Augljósasta dæmið eru lífeyrissjóðirnir, sem bjóða upp á sífellt tryggari afkomu á ævikvöldi. Við sýndum fyrirhyggju með því að beita okkur fyrir samningum um kerfi sem vísar inn í framtíðina og viðsemjendum okkar ber að sjálfsögðu einnig að þakka fyrir að hafa reynst reiðubúnir að gera slíkt hið sama, auk þess sem það ber vott um fyrirhyggju og framsýni af þeirra hálfu að greiða, á ári hverju, eins og fjármálaráðuneytið hefur gert til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, umtalsverðar upphæðir og tryggja þannig viðgang kerfisins inn í sólarlagið. Í ljós hefur komið að þær breytingar, sem samningar náðust um á gamla lífeyriskerfinu fyrir réttum áratug, á árinu 1996, byggðu á raunsæi. Um gamla kerfið var hreinlega ekki lengur fyrir hendi samfélagsleg samstaða. Þess vegna var það raunsætt af okkar hálfu að leita nýrra lausna.
Og enn erum við að reyna að höndla raunsæið á þeim bænum: Við glímum nú við þá spurningu hvort við eigum að halda með alla okkar sjóði inn á þá braut að lífaldurstengja réttindaávinnslu eins og fjölmargir lífeyrissjóðir hafa nú tekið ákvörðun um, þar á meðal Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, sem okkar félagsmenn eiga m.a. aðild að. Sá hængur er á að lífaldurstengingin er að mati okkar margra, óhagstæð fyrir konur sérstaklega, sem þrátt fyrir aukið jafnrétti eru lengur frá launavinnu en karlar á yngri árum – barneignaárunum - þeim árum sem réttindaávinnslan í lífaldurstengdum sjóðum er mest, og hinir lífaldurstengdu sjóðir eru einnig óhagstæðir þeim sem leggja fyrir sig langskólanám af sömu ástæðum og síðast en ekki síst gengur lífaldurstengingin í berhögg við þá hugsun að hvetja fólk til að vera sem lengst á vinnumarkaði. Það er orðið keppikefli allra okkar grannþjóða að halda fólki sem lengst í vinnu. Ef dregið er úr ávinningi af þessu – eins og óneitanlega er gert með lífaldurstengingu lífeyrisréttinda -  þar sem verðgildi iðgjaldsins ræðst af því hve lengi það stendur á vöxtum í lífeyrissjóðnum – þá segir það sig sjálft að fjárhagshvatinn verður minni en ella fyrir hinn fullorðna einstakling að halda áfram launavinnu sinni og uppsöfnun lífeyrisréttinda. Síðan er svo aftur hitt, hvað við gerum þegar á hólminn kemur því það kann vel svo að fara að við teljum okkur ekki eiga annarra kosta völ en halda inn á þessa braut því lífeyriskerfið í landinu þyrfti - ef vel ætti að vera - að byggja á kerfi sem er reist á svipuðum forsendum. Það er mikilvægt til þess að tryggja að réttindi fólks skerðist ekki við flutning á milli sjóða. Þetta var fyrst og fremst ástæðan fyrir því að haldið var með Söfnunarsjóðinn inn í lífaldurstengt kerfi auk þess sem sjóðurinn var í samfloti með lífeyrissjóðum sem tekið höfðu þessa ákvörðun.

Ég vil nota þetta tækifæri og beina orðum mínum til formanns Sambands lífeyrissjóða og koma á framfæri þökkum til lífeyrissjóðanna fyrir að taka ákvörðun um að fresta skerðingu á greiðslum til öryrkja úr lífeyrissjóðum eins og til hafði staðið að gera nú um mánaðamótin. Með þessu eru lífeyrissjóðirnir að koma til móts við réttmætar kröfur Öryrkjabandalags Íslands. Vissulega hefði verið betra að fresturinn hefði verið til lengri tíma en þriggja mánaða en við hljótum engu að síður að fagna því að lífeyrissjóðirnir skuli hafa ákveðið að verða við óskum Öryrkjabandalagsins um að fresta framkvæmdinni.
Nú skiptir öllu að nota tímann vel, stíga upp úr skotgröfum og freista þess að ná samkomulagi um framhaldið. Það ríður á að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og öryrkja setjist yfir málið svo og ríkisvaldið sem ber mesta ábyrgð á bágri stöðu öryrkja á Íslandi í dag. Að þessu sögðu vil ég þó leggja áherslu á að næstu mánuðir eiga ekki að vera tími ásakana heldur lausna.
BSRB hefur skýra stefnu í þessu máli. Við höfum talað fyrir launavísitölu við útreikning örorkubóta og við viljum sértækar lausnir fyrir þá  lífeyrissjóði sem axla þyngstu byrðarnar.
Ég vil hér og nú vekja athygli á því að í bráðabirgðaráðstöfunum sem ákveðnar voru af hálfu ríkisvaldsins í sumar í kjölfar þríhliða viðræðna ríkisvalds, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins gagnvart sjóðum sem hafa mikla örorkubyrði var Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda undanskilinn en örorkugreiðslur úr þeim sjóði er tæpur þriðjungur allra útborgana úr sjóðnum og því fráleitt að hann njóti ekki sömu fyrirgreiðslu og aðrir lífeyrissjóðir með sambærilegt hlutfall örorkugreiðslna. BSRB mun skoða þetta mál sérstaklega á næstu dögum og óska eftir viðræðum við fjármálaráðherra af þessu tilefni.

Ég nefndi Fjölskyldu- og styrktarsjóð BSRB, BHM og Kennarasambands Ísands sem nú styrkist með hverju árinu sem líður. Því er þó ekki að neita að fjölskylduhlutinn á nokkuð undir högg að sækja af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi reyndist það sjóðnum erfitt þegar löggjöf um Fæðingarorlofssjóð Tryggingastofnunar var breytt á þá lund að viðmiðunartímabilið sem stuðst var við til að ákvarða greiðslur í fæðingarorlofi var lengt verulega. Það þýddi að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði Tryggingastofnunar lækkuðu en greiðslur úr fæðingarorlofssjóði okkar hækkuðu á hinn bóginn því þeim sjóði er ætlað að brúa bilið á milli Fæðingarorlofssjóðs og greiðslna sem félagskonur okkar áður bjuggu við samkvæmt samningum.
Síðan er hitt að við höfum orðið vör við það að einstaka feður sætta sig ekki við það sem þeir kalla kynjamismunun, þeir fái ekki greiðslur úr okkar sjóði, aðeins mæður. Þetta má vissulega til sanns vegar færa en þá er því til að svara að Fjölskyldu- og styrktarsjóður BSRB, BHM og KÍ var settur á laggirnar til að verja kjör sem mæður bjuggu við sem áður segir. Með tilkomu Fæðingarorlofssjóðs með fæðingarorlofslögunum sem tóku gildi 1. janúar 2001 fengu mæður og einnig feður, foreldrarnir báðir, hins vegar mikilvæga réttarbót. Fari svo að fyrirkomulag og rekstrarforsendur Fjölskyldusjóðs bresti af einhverjum ástæðum, félagslegum eða fjárhagslegum, hlýtur það að koma til skoðunar að hverfa frá launatengdum greiðslum í fæðingarorlofi og taka upp fæðingarstyrki óháða tekjum viðkomandi. Þessi leið hefur verið rædd í stjórn Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins en á þessu stigi eru þetta aðeins vangaveltur á og of snemmt að fullyrða um hvað hugsanlega gæti gerst í framtíðnni. Það sem nú blasir við eru hátt á sjöunda hundrað umsóknir sem árlega fá jákvæða afgreiðslu með verulegum kjarabótum fyrir félagsmenn okkar. Og á þessu þingi BSRB er verkefnið að ræða hvaða leiðir við viljum fara til að bæta fæðingarorlofið – styrkja og bæta rétt barna til að vera samvistum við foreldra sína, bæði mæður sínar og feður.
Áður en ég skil við Fjölskyldu- og styrktarsjóð vil ég nefna þá mikilvægu kröfu okkar að greiðslur úr sjúkra- og styrktarsjóðum verkalýðshreyfingarinnar verði undanþegnar skatti. Rökin þykja mér liggja í augum uppi.

Á síðasta þingi BSRB fögnuðum við því hve vel okkur hefði orðið ágengt á sviði starfsmenntunar og símenntunar. Á því sviði hefur okkur enn miðað fram á við þegar litið er til undangenginna ára. Þær stofnanir okkar sem sinna þessu hlutverki eru nú að styrkjast og í stöðugri endurmótun. Á þessu þingi verður um þær fjallað og þau framtíðaráform sem uppi eru á vegum BSRB.

Það leikur ekki vafi á því að geysileg gerjun er í mennta- og fræðslulífi þjóðarinnar. Fram að þessu hafa menn verið uppteknir af prófum og gráðum að „afloknu“ námi. Þessi hugsun hefur reyndar um nokkurt skeið verið víkjandi. Sá skilningur hefur smám saman verið að glæðast að námi ljúki aldrei; að alla ævina séum við að afla gleggri skilnings og nýrrar þekkingar. Þetta eigi ekki síst við í starfi. Svo örum breytingum taki starfsumhverfið að sá sem ekki hefur sig allan við í því að afla sér nýrrar þekkingar dagi hreinlega uppi. Þetta hefur það í för með sér að þeir sem á annað borð ætla að ganga inn í veröld morgundagsins verða að líta á starfsævi sína sem samfellt nám.

Fyrir fáeinum dögum skýrði ríkisstjórnin frá því hvernig hún hyggðist beita sér fyrir lækkun matvælaverðs og hefur stjórn BSRB fagnað þeim áformum. BSRB hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að létta álögur á einstaklinga og fjölskyldur með lágar og millitekjur og er lækkun matarverðs mikilvægt skref í þá átt að skila almenningi kjarabótum. En BSRB hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að virða beri hagsmuni íslensks landbúnaðar og innlendrar afurðavinnslu við allar þær kerfisbreytingar sem kann að verða ráðist í. Við skulum ekki gleyma því að verðlagið eitt er ekki eini mælikvarðinn á matvöru heldur matvælaöryggi og gæði vörunnar auk þess sem hyggja þarf að afkomu þeirra sem þessari framleiðslu sinna. Í þessu efni hefur BSRB lýst stuðningi við afstöðu Bændasamtaka Íslands.

 Í ályktun sem stjórn BSRB samþykkti í byrjun vikunnar er minnt á að stórefla þurfi eftirlit með verðmyndun og verðlagningu matvara og tryggja þannig að ávinningur þeirra skattalækkana og annarra aðgerða, sem gripið verður til, skili sér til almennings í landinu.
Um þetta vill BSRB eiga samstarf við Bændasamtökin sem áður segir en það samstarf hefur verið afar gott og ber að þakka það en einnig viljum við á þessu sviði sem öðrum vinna með félögum okkar í verkalýðshreyfingunni. Hvað verðlagseftirlit snertir hefur Alþýðusamband Íslands tekið afgerandi frumkvæði sem ber að styðja af alefli. 

BSRB hefur átt afar gott samstarf við Alþýðusambandið um aðskiljanleg efni sem varðar grundvallarréttindi launafólks. Þegar um er að tefla hagsmuni leigjenda, íbúðakaupenda, ekki síst þeirra sem hafa bágborin fjárhag, réttarstöðu og kjör atvinnulausra, eftirlaunafólks, almenn réttindi launafólks þá vitum við að hægt er að ganga að því vísu að hjörtun slá í takt við félaga okkar í Alþýðusambandinu. Ég vil sérstaklega þakka okkar góða félaga, forseta Alþýðusambands Íslands og samstarfsfólki hans innan ASÍ fyrir samvinnu á liðnum árum og ég hvet til að þar verði framhald á og böndin enn treyst. Það yrði allri hreyfingu launafólks til góðs. Ég beini einnig orðum mínum til forystumanna í BHM, Kennarasambandi Íslands og Sambandi bankamanna. Með hinum síðarnefndu höfum við myndað sameiginlegan vettvang á sviði kjararannsókna, HASLA, Hagrannóknarstofnun launafólks í almannaþjónustu, og stefnum við nú að frekara samstarfi um lögfræðileg málefni. Ég vil þakka þeim fyrir frábærlega gott samstarf.
 
Það er ástæða til þess að þakka fleiri aðilum fyrir gott samstarf við BSRB. Í fyrra og á þessu ári skapaðist einstök þverfagleg samstaða á milli 14 samtaka og stofnana um að hefja til vegs og virðingar kröfu um að líta beri á vatn sem grundvallarmannréttindi en ekki hverja aðra söluvöru og því nauðsynlegt að vatnsveitur væru á hendi opinberra aðila. Undir þessar áherslur sem og aðrar sem birtust í yfirlýsingunni Vatn fyrir alla, skrifuðu öll helstu samtök launafólks, umhverfissamtök, mannréttindaskrifstofa og Þjóðkirkjan, svo nokkrir séu nefndir.
Þetta ættum við að láta okkur að kenningu verða og í sameiningu ætti samfélagið allt, öll helstu samtök sem þar er að finna að sameinast um það  brýna verkefni að slá skjaldborg um almannaþjónustuna – að gleyma því ekki í önnum hversdagsins, í baráttunni um krónur og aura, að við megum aldrei gleyma sjálfum grundvellinum, velferðarkerfinu sem verkalýðshreyfingin átti svo stóran þátt í að byggja upp, sameiginlegu kerfi okkar allra til aukins jöfnuðar – það þarf ekki einvörðungu að verja – það þarf þvert á móti að efla svo um munar.

Þetta á sér fyrirmyndir erlendis og vert að minna á mikilvægi samstarfs launafólks á alþjóðavettvangi. Upp úr slíku samstarfi höfum við lagt mikið og náð árangri í ýmsum efnum. Ég vil nefna aðkomu okkar að GATS-samningunum þar sem ábendingar okkar og áherslur hafa náð eyrum ráðamanna sem hafa orðið varfærnari, nokkuð sem má m.a. greina í síðasta tilboði íslenskra stjórnvalda. Þar hafa þau sett þann merka fyrirvara að Ísland áskilji sér rétt til að setja, viðhalda og útfæra að fullu innlend lög í því augnamiði að geta framfylgt stefnumálum stjórnvalda – þrátt fyrir ákvæði GATS-samninganna.

 Samfélagið tekur örum breytingum og breytinganna gætir í öllu atvinnulífinu, ekki síst innan almannaþjónustunnar. Það er mikilvægt fyrir samtök eins og okkar að fylgja breytingunum eftir og beina þeim í æskilegan farveg. Mér verður hugsað til þeirrar byltingar sem upplýsingatæknin hefur leitt til. Netið hefur opnað nýja veröld. Fullorðinn maður – félagi í BSRB, sem sótt hafði námskeið skipulagt á vegum fræðslunefndar BSRB í tölvutækni – sagði frá því hvernig sér fyndist að hann hefði orðið læs á nýjan leik. Öll samskipti einstaklinga og stofnana eru nú auðveldari og greiðfærari. En þessu hafa einnig fylgt erfiðleikar og vandkvæði. Hvernig á að fara með rétt einstaklinganna á vinnustaðnum sem fá til sín prívatpóstinn á tölvunni sem heyrir atvinnurekandanum til. Hvað skal vera hvers? Hvar á að draga markalínur – hversu langt nær landhelgi vinnustaðarins og hvar tekur mannhelgi starfsmannsins við. Hjá BSRB höfum við varið miklum tíma til að efna til umræðu um álitamál sem þessu tengjast. Hér verða lausnirnar ekki fundnar í svarthvítum litum heldur í samkomulagi og sátt sem skapast smám saman. Á þessu þingi mun framkvæmdastjóri Persónuverndar fjalla um álitamál sem þessu tengjast. Ég lít svo á að þessi umræða snerti viðfangsefni sem er eitt hið mikilvægasta okkar samtíðar og snertir ýmis þau mál sem nú eru til umfjöllunar í þjóðfélaginu.

Í gær var alþjóðabaráttudagur kvenna. Í tengslum við hann hefur orðið nokkur umræða um launamun kynjanna enda hefur nú verið birt enn ein könnunin sem staðfestir að þessi munur er að minnsta kosti um 16%. Í því sambandi má minna á að í könnun sem Hasla gekkst fyrir á árinu 2004 komu í ljós vísbendingar um kynbundið launabil af þessari stærðargráðu. Það óhugnanlega er hve lítið hreyfist hér í framfaraátt og er það nokkuð sem hvorki verkalýðshreyfing né viðsemjendur hennar eiga að sætta sig við. En hvað skal gera, spyrja menn? Ég legg áherslu á vilja BSRB í þessu efni og bendi á fyrrnefnda könnun og í kjölfarið ákvörðun aðildarfélaga BSRB um markvisst átak í þessum efnum. Ég vísa í því sambandi til greinar sem í dag birtist í Morgunblaðinu eftir formann SFR þar sem segir frá tilraunum félagsins til þess að rétta þennan mun af. Þetta vil ég nefna til að árétta að við sitjum ekki auðum höndum þótt miklu meira þurfi til að koma svo dugi. Varðandi yfirlýsingar stjórnvalda um launamisréttið vil ég segja þetta: Það besta sem þið getið gert þessum málstað til framdráttar er að aflétta launaleyndinni. Í skjóli myrkurs þrífst misréttið og sérhyggjan, sundrungarafl sem brýtur niður samstöðu og samtakamátt. Því mega samtök launafólks heldur aldrei gleyma.

Staða á íslenskum vinnumarkaði er um margt sérkennileg. Markaðurinn er nú opnari en dæmi eru um frá fyrri tíð. Þegar saman fer opinn vinnumarkaður og gífurleg þensla sem haldið er uppi með gríðarlegum framkvæmdum af hálfu einkaaðila og einnig á vegum hins opinbera þá er ekki að sökum að spyrja - hingað streymir fólk án afláts. Á þessu ári hafa sjö þúsund manns komið inn á vinnumarkaðinn erlendis frá; í september mánuði einum um tólf hundruð einstaklingar. Er þetta heppilegt þróun? Ég segi nei. Á þenslutímum ber hinu opinbera að sýna aðhald í framkvæmdum – ekki í rekstri. Það er einfaldlega ekki hægt að spara í rekstrarkostnaði geðdeildar en það er hægt að fresta ýmsum framkvæmdum sem ekki eru bráðnauðsynlegar. Þenslunni er að hluta haldið uppi með viðskiptahalla og gífurlegri skuldsetningu. Þegar þessu skeiði sleppir og þrengist að, þá skulum við hafa það í huga að hinu aðkomna vinnuafli verður ekki hent á haugana. Þetta er lifandi fólk, iðulega með sínar fjölskyldur og að sjálfsögðu allar sínar mannnlegu þarfir.

Við verðum að gæta okkar á því að fara ekki of geyst í sakirnar. Við verðum að geta búið fólki mannsæmandi kjör og réttindi eins og þau gerast best hjá íslenskum þegnum. Að öðrum kosti verður hér klofið samfélag.
BSRB tekur þátt í vinnu á vegum félagsmálaráðuneytisins um þessi efni. En ég vil nota þetta tækfæri til þess að lýsa þungum áhyggjum af því sem nú er að gerast á íslenskum vinnumarkaði.

Í láglaunastörf víða í atvinnulífinu og innan velferðarþjónustunnar hópast nú aðkomufólk sem boðið er upp á kjör sem Íslendingar sætta sig ekki við; kjör sem þetta fólk þiggur oft og tíðum fegins hendi vegna neyðar og skorts í heimahögunum. Það er rangt sem stundum er sagt að Íslendingar sætti sig ekki við sum störf og flýi þau af þeim sökum. Hið rétta er að þeir sætta sig ekki við þau kjör sem í boði eru og flýja þau þess vegna. Þetta er nú að gerast á sjúkra- og hjúkrunarstofnunum. Fólk sættir sig ekki við vinnuálag, aðbúnað og launakjör, hugsanlega í þessari forgangsröð; neitar að vinna störfin. Við glímum nú við það í samstarfi við viðsemjendur okkar að bæta vaktafyrirkomulagið innan grunnþjónustunnar með það fyrir augum að gera það meira aðlaðandi. Við höfum ráðist í umfangsmiklar kannanir í þessu augnamiði og sú niðurstaða sem ég hef komist að fyrir mitt leyti er að manneklan veldur því, ekki síst á sjúkrastofnunum, að ekkert kerfi getur gengið upp. Ef ekki eru settir umtalsverðir fjármunir inn í heilbrigðiskerfið núna þá verður þar stórslys. Þetta leyfi ég mér að fullyrða.

Góðir félagar. Fyrir nokkrum árum efndi BSRB til átaks undir kjörorðinu, Eflum almannaþjónustuna. Við gáfum út bæklinga og upplýsingarit – við buðum stjórnvöldum hjá ríki og sveitarfélögum og öðrum atvinnurekendum á sviði almannaþjónustunnar til samstarfs og efndum til fundahalda á vinnustöðum vítt og breitt um landið til þess að hvetja fólk til að leita leiða til að efla og bæta þá þjónustu sem hver og einn sinnti. Það er samdóma álit allra sem til þekkja að vel hafi tekist til. Þessa vitundarvakningu nefni ég sem dæmi um þá viðleitni BSRB að stefna jafnan fram á við, svara kalli tímans hvort sem er með breyttu fyrirkomulagi, betri vinnutilhögun eða skipulagi.

Við höfum í áranna rás átt samstarf – oftar en ekki ágætt – við stjórnvöld um að bæta stjórnsýsluna, gera hana markvissari, opnari og rétttlátari enda eðlilegt að gera slíka kröfu til starfsemi sem almenningur fjármagnar með sköttum sínum. Þess vegna fengum við upplýsingalög, þess vegna fengum við stjórnsýslulög og þess vegna gerum við sérstakar  kröfur til heilbrigðisstétta og löggæslumanna um starfsramma og menntun.

Nú er það hins vegar að gerast að tiltekin stjórnmálaöfl sem vilja opinberan rekstur feigan vilja öll þessi lög á brott. Þau vilja þvinga markaðshyggju inn í sjúkrahúsin og skólana, inn í löggæsluna eins og dæmin úr Leifsstöð sanna og í Ríkisútvarpinu stendur til að nema mikilvæg réttindi starfsmanna á brott og færa yfirráð yfir öllu mannahaldi og allri dagskrárgerð í hendur eins alvalda forstjóra sem settur er í embætti af stjórnarmeirihlutanum hverju sinni sem auk þess hefur vald til þess að reka hann.

Þetta er nútíminn segja menn. Hlutafélagaformið er svo gott og það er svo þekkt. Undir það vil ég taka. Það var framför þegar hlutafélög ruddu sér til rúms á Íslandi – það gat verið erfitt að selja stór fyrirtæki heildstætt en auðveldara að selja minni hluti. Hlutafélagaformið opnaði þannig á sveigjanleika og það var einnig til góðs og til framfara þegar hluthafar, stórir og smáir, fengu vettvang til þess að beita aðhaldi á hluthafafundum.

En ef ekki stendur til að selja neina hluti og ekkert aðhald er frá hluthöfum, hvað er þá unnið? Með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins erum við að verða vitni að loddaraleik af verstu tegund sem BSRB hefur mótmælt harðlega. Við sættum okkur ekki við þá réttindaskerðingu sem félagar okkar verða fyrir við hlutafélagavæðinguna og ég spyr þjóðina hvort sátt verði um lögþvingaðan nefskatt til stofnunar sem færð er undan forræði hennar með þessum hætti?

Ég byrjaði á því að spyrja hvers vegna við tengjum almannaþjónustuna og eflingu hennar lýðræðinu. Með þessu vilja samtökin leggja áherslu á mikilvægi almannaþjónustunnar, ekki aðeins sem grundvöllinn að velferðarsamfélaginu heldur einnig lýðræðinu í landinu.
Undanfarin ár hafa einkennst af mikilli markaðs- og einkavæðingu, ekki aðeins hér á landi heldur víðs vegar um okkar heimshluta. Hér á landi hefur fjármálakerfið, símaþjónustan og ýmis önnur starfsemi þegar verið tekin úr höndum hins opinbera að öllu leyti og ýmsir þættir heilbrigðisþjónustunnar lúta í vaxandi mæli markaðslögmálum. Með því að færa undirstöðuþætti almannaþjónustunnar undan handarjaðri almennings eru völdin færð til nýrra eigenda, handhafa fjármagnsins. Þess vegna dregur einkavæðingin úr áhrifum almennings en eykur að sama skapi tök fjármálamanna á þjóðlífinu. Vilji menn hins vegar kröftugt lýðræðisþjóðfélag þá gefur auga leið að þeir hinir sömu verða að standa vörð um almannaþjónustuna. Ekki nóg með það: Hana þarf að stórefla. Þetta leggur BSRB áherslu á með kjörorði sínu. Um þetta er víðtæk samstaða innan BSRB þótt mismunandi skoðanir séu að sjálfsögðu á því, í stórum þverpólitískum samtökum, hvar draga eigi línurnar á milli opinberrar þjónustu og einkareksturs. Þar er ekki til neinn Stórisannleikur. Þann sannleika þarf einfaldlega að finna á hverjum tíma og það gerist aðeins með rökræðu þar sem allir kostir og gallar eru brotnir til mergjar. 

Fyrir 100 árum síðan, þegar Þorsteinn Erlingsson, skáld, og fleiri menn létu sig dreyma um framtíðina, þá var draumsýnin það þjóðfélag sem okkur hefur tekist að skapa. Það kristallast í þeim verkum sem félagar í okkar samtökum um allt land vinna dag hvern. Það er vinnan við uppeldi, umönnun, almannatryggingar og félagsleg störf, sem einkennir það þjóðfélag sem einungis var óræð draumsýn fyrir 100 árum en er orðin að raunveruleika núna. Draumur Þorsteins Erlingssonar og margra annarra um að allir hjálpist að við að gæta náunga síns, að lyfta undir þegar á þarf að halda, sá draumur er ekki bara veruleiki dagsins í dag heldur sjálfsagður hlutur. Manneskjan er félagsvera, hún þarf á samfélagi að halda, samfélagi sem er fúst til hjálpar, sýnir samúð, tillitsemi. þannig kemst hún best af, þannig líður henni best.

En það voru ekki allir sammála Þorsteini Erlingssyni. Þeir voru margir sem vildu alls ekki að í sína buddu yrði seilst til að hjálpa sjúkum og mennta fátæk börn. Það var hart barist gegn almannatryggingum og í sumum löndum tókst aldrei að koma þeim á. Sú manngerð sem sér ofsjónum yfir að vera gert skylt að leggja til samfélagsins er enn við hestaheilsu og áhrif sjónarmiða græðginnar aukast nú hratt. Græðgin er ávallt bæði snauð og naum. Hana vantar alltaf meira þótt hún hafi nóg. Hinum gráðuga nægir ekki milljarður og heldur ekki tveir. Græðgin er ekki bara óendanlega fátæk, hún er siðlaus og sjónlaus. Og græðgin er áreiðanlega ekki dyggð eins og heimspekingur nokkur hélt fram í blaðagrein fyrir skömmu.

Okkur er sagt að græðgin gefi af sér peninga. Að hinir gráðugu einstaklingar séu eins og vakrir gæðingar sem geysast um og skapi auð í hverju spori. Og við hin skulum sitja á baki og njóta þess að vera á harðastökki og finna þaninn vöðva gæðingsins hnyklast undir okkur. En sé líkingin um gæðinginn rétt, sem ég hef miklar efasemdir um, þá spyr ég: Hverjum dettur í hug að fara á bak hesti án þess að setja í hann beisli. Hverjum dettur í hug að láta taumlaust náttúruafl ráða ferðinni. Og ef þetta er fyrir okkur gert erum það þá ekki við sem eigum að setja stefnuna? Og varla viljum við ríða berbakt. Við viljum leggja upp í ótemjuna mél skynseminnar og hnakk samúðar og tillitssemi.

Þetta nefni ég vegna þess að draumsýn Þorsteins Erlingssonar, sem varð að veruleika, með þrotlausri baráttu alla 20. öldina, á nú undir högg að sækja. Og nú er svo komið að við verðum að spyrja: Hvað viljum við nú? Hver er okkar draumsýn? Eigum við öll að efla með okkur græðgi og deyfa siðferðið og skeiða af stað? Hver er okkar sýn á framtíðina?  Á ekki okkar draumsýn að vera að efla samhjálpina? Við höfum séð hversu gífurlega hagsmuni við höfum af samhjálpinni, þó hún sé fjárvana. Hversu mikið gætum við ekki notið betur ef betur væri við hana gert og betur að henni búið? Almenningur er löngu búinn að átta sig á þeirri gífurlegu verðmætasköpun sem liggur í þeim samfélagslega vefnaði sem störf almannaþjónustunnar skila á hverjum degi. En utandyra má heyra óhljóð græðginnar, frýsið í ótemjunni, sem vill geta keypt og verslað með störfin, með sjúklinga, með aldraða, með ungviðið. Hún vill allt inn í bókhaldið. En þegar hún spyr hvað það kosti að baða gamla konu, þá er okkar svar að það fari eftir lífsviðhorfi þess sem á heldur. Það fari eftir því hvað okkur finnst að það eigi að kosta.

Það þarf að reka gæðinga græðginnar út á gaddinn, þar sem þeir geta sannað gildi sitt í vindi og veðrum. Þeir munu áreiðanlega leita til okkar, verði þeir sárfættir eða svangir. Fésýslumenn, sem hafa sýnt ótrúlegt trúnaðarleysi við samfélag sitt, taka til sín meira heldur en þeir þurfa til þúsund ára og greiða lægri skatta en aðrir. Viljum við við fá þessum mönnum það hlutverk að standa með skeiðklukkuna á meðan gamla konan er böðuð og börnunum kennt að lesa?

Auðvitað munt þú, sannleikurinn, sigra og auðvitað vitum við og trúum með Þorsteini Erlingssyni að sigurinn þinn/að síðustu vegina jafni. En það fæst ekkert án fyrirhafnar, enginn árangur er þrautalaus. Við höfum byggt upp velferð, knúin af hugsjónaeldi aldamótakynslóðanna. Samfélag okkar hefur vaxið hratt einsog blóm sem sprettur úr frjóum jarðvegi. Nú er hætta á að verið sé að raska þessum vexti, þessum árangri; í stað þess að efla hann er verið að eyðileggja jurtina, slíta af henni blöðin, á meðan við ornum okkur enn við hugsjónir manna á borð við Þorstein Erlingsson.

Allra augu eru á okkur þessa dagana. Þá er að nýta tækifærið og tala um okkar hugmyndir, okkar draumsýn. Við höfum staðið okkar vakt með sóma. En það er líka skylda okkar að sjá fram í tímann og marka stefnuna. Við megum ekki láta berast með straumnum hugsunarlaust. Við verðum að beita okkur, ekki bara fyrir okkar eigin hagsmunum, heldur einnig – og ekkert síður - hagsmunum þeirra sem við erum að þjóna og berum umhyggju fyrir.

Allra augu er á okkur, vegna þess að allir vita að víglína græðginnar færist í átt til okkar. Hin óendanlega fátækt hennar sér ofsjónum yfir því að vera ekki búin að ná undir sig rekstri á sjúklingum, börnum og öldruðum. Við þurfum að blása í glæður þeirra hugsjóna, sem sköpuðu grundvöll þess þjóðfélags sem við búum við í dag. Enn þá.

Við þurfum að skera upp herör, blása til orustu, þar sem vígorðin eru: Eflum samhjálpina og tryggjum lýðræðið. Samhjálpin er augljóslega það sem mestan arðinn veitir og byggir okkur best upp. Nú þarf að efla hana hundraðfalt, setja meiri fjármuni í hana og styrkja hana á alla lund. Við höfum allt sem þarf, menntað og hæft fólk, byggingar á heimsmælikvarða, öll þau kerfi og tæki sem hugsast getur: Nú er að uppskera. Nú er að efla og byggja. Næstu ár verða ár sóknar fyrir samhjálpina, fyrir samveru, fyrir samúð og fyrir samstöðu.

Ég segi 41. þing BSRB sett.