EFLUM VG
Í morgun birtist könnun Fréttablaðsins sem gefur til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn fengi rétt undir helming atkvæða í Reykjavík. Ekki er ég trúaður á að þetta eigi við rök að styðjast. Erfitt á ég með að ímynda mér að nær helmingur borgarbúa vilji afhenda borgina Sjálfstæðisflokknum til ráðstöfunar næstu fjögur árin. Við skulum minnast þess að þetta er sami stjórnmálaflokkur og stýrir landinu í samvinnu með Framsókn; sami flokkur og selt hefur og gefið verðmætar almannaeignir, keyrt upp verðlagið á raforku með rándýrum miðstýrðum ákvörðunum og aukið kjaramisréttið í þjóðfélaginu. Vilja menn þessar áherslur inn í Ráðhúsið? Og hver skyldi helst vera mótvægi við þessa stefnu? Það er tvímælalaust Vinstrihreyfingin grænt framboð. Nú ríður á að hefja lokasókn kosningabaráttunnar. VG þarf að fá þrjá menn kjörna í Reykjavík. Þetta er raunhæfur möguleiki sem verður að ganga eftir því ef ekki nýtur aðhalds frá Vinstrihreyfingunni grænu framboði við stjórnvölinn í Reykjavík munu áherslur breytast mjög til hins verra. Alls staðar á landinu þarf að tryggja VG góða kosningu. Þetta skynja margir enda er flokkurinn í mikilli sókn um allt land.
Í grein sem fomaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, birtir hér á síðunni í dag minnir hann á að Vinstrihreyfingin – grænt framboð bjóði fram V-lista á 13 stöðum á landinu, en í sveitarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum hafi þeir verið 8 talsins. “Auk þess eiga félagar okkar”, segir Steingrímur ennfremur, “víða hlut að blönduðum framboðslistum s.s. í Borgarbyggð, Grundarfirði, Stykkishólmi, á Ísafirði, Ólafsfirði/Siglufirði, á Héraði, Álftanesi og Seltjarnarnesi. Vinstri græn bjóða nú fram V-lista í Reykjavík, á Akranesi, í Dalabyggð, Skagafirði, á Dalvík, Akureyri, í sameinuðu sveitarfélagi Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps, í Árborg, Hveragerði, Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Mosfellsbæ. Á öllum þessum stöðum er mikill kraftur og baráttugleði við völd og ljóst að flokkurinn hefur styrkt sig verulega á landsvísu á þessu kjörtímabili.”
Þetta eru mikil og góð þróun og henni þarf að fylgja eftir af staðfestu og krafti. Ég er sannfærður um að ef á að takast að rífa samfélagið upp úr misréttishjólförunum, og beina þróuninni inn í heillavænlegri farveg, verður að efla Vinstrihreyfinguna grænt framboð.