EFTIRÁFRÉTTAMENNSKA
Í kvöldfréttatíma RÚV í dag var prýðilega unnin og upplýsandi frétt um ný lög um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur. Þessi starfsemi, sem í eðli sínu er einokunarstarfsemi, verður markaðsvædd, þ.e. gerð að hlutafélagi. Þessi lög voru samþykkt á Alþingi í gær gegn mótmælum starfsmanna, bæði þeirra sem eru í Félagi flugumferðarstjóra og Félagi flugmálastarfsmanna. Þessi félög höfðu reitt fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings. Ég hef grun um að fáir hafi kynnt sér þau. Ekki ætla ég að lasta fréttaflutning RÚV í kvöld. Hann var þvert á móti prýðilegur sem áður segir. En hvers vegna fengum við ekki slíka umfjöllun fyrr, áður en lögin eru samþykkt og allt um seinan? Í fréttatímanum var rætt við Loft Jóhannsson, formann Félags flugumferðarstjóra. Hann var greinargóður að vanda. Hann gagnrýndi að hlutafélagi skuli nú falið að annast milliríkjasamninga fyrir hönd ríkisins; hann spurði hvort til stæði að hið nýja hlutafélag, sem kemur til með að annast rekstur flugvallanna á Íslandi, fái heimild til gjaldtöku, og þá hver komi til með að borga, farþegar eða ríkið? Þessum spurningum er ósvarað. Svörin lágu ekki fyrir á þingi þegar frumvarpið var samþykkt. Það er hins vegar ekkert nýtt – því miður. Meirihlutinn samþykkir það sem ráðherrar afhenda þeim til afgreiðslu án þess að leggja sjálfstætt mat á viðkomandi mál. Og því miður er það ekkert nýtt heldur að þá fyrst spyrji fréttamenn spurninga þegar það er um seinan. Er þetta ekki eitthvað sem þarf að hugleiða – er þetta ekki nokkuð sem þarf að breyta og lagfæra?