Fara í efni

EFTRIRLIT MEÐ KYNFERÐISBROTAMÖNNUM

DV
DV

Birtist í DV 06.06.12.
Reglulega kemur upp umræða um mögulegt eftirlit með kynferðisbrotamönnum eftir að afplánun dóms lýkur. Í umræðunni vegast á ólík sjónarmið. Annars vegar hin hefðbundnu grunngildi réttarríkisins: Einstaklingur brýtur af sér, hlýtur dóm og að aflokinni refsingu er viðkomandi frjáls til að hefja nýtt líf. Hins vegar það sjónarmið að standi almenningi hætta af einstaklingi sem dæmdur hefur verið, geti verið ástæða til að halda honum frá samfélaginu lengur en kveðið er á um í refsidómi eða hafa eftirlit með honum. Hið síðara er nú í almennri umræðu hér á landi vegna einstaklinga sem brotið hafa alvarlega gegn börnum. Ég hef sagt að hér þurfum við að fara fram af yfirvegun; af virðingu fyrir réttarríkinu en jafnframt gera það sem unnt er til að vernda börn fyrir ofbeldismönnum.

Lagafrumvarp í burðarliðnum

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir þeim möguleika að láta brotamann sæta frekari öryggisráðstöfunum að refsingu lokinni ef telja má af glæp hans og andlegu ástandi að hann „muni drýgja afbrot af vana eða í atvinnuskyni og sé því hættulegur umhverfi sínu". Þetta er hægt að gera með refsidómi eða með sérstöku máli sem ákæruvaldið höfðar. Í reynd hefur þetta lagaákvæði ekki nýst einsog að var stefnt. Tilraunir til að beita því gegn sakhæfum brotamönnum sem fremja ítrekað mjög alvarleg brot hafa ekki skilað árangri. Því eru það eingöngu ósakhæfir brotamenn sem hafa verið vistaðir á stofnunum í ótilgreindan tíma.
Í Innanríkisráðuneytinu eru nú í undirbúningi lagabreytingar til að unnt verði að láta kynferðisafbrotamenn með barnagirnd á háu stigi sæta öryggisráðstöfunum eftir afplánun refsidóma.   Frumvarpsgerð er á lokastigi og drög verða sett á vef innanríkisráðuneytisins til umsagnar áður en langt um líður. Stefni ég að því  að leggja frumvarpið fram á haustþingi.

Alltaf með dómi

Verði þetta frumvarp að lögum aukast möguleikar á eftirliti með hættulegum glæpamönnum eftir að afplánun lýkur en grundvallarforsenda er að mínu mati sú að slíkt ákvarðist með dómi. Það tel ég einu færu leiðina, enda getur það vegið að mannréttindum að vista menn án dóms eða að hafa eftirlit með þeim án þeirrar vitneskju eftir að þeir hafa tekið út sína refsingu. Gegn öðru hef ég viljað gjalda varhug. En með þessari nálgun gæti ákæruvaldið höfðað sérstakt mál fyrir lok afplánunar í tilfellum þar sem maður var dæmdur í fangelsi fyrir alvarlega glæpi , ekki síst gróf ofbeldis- eða kynferðisbrot, eða tilraun til slíkra brota, ef líklegt er talið, í ljósi sakarferlis og andlegs ástands viðkomandi, að hann muni endurtaka brot sín eftir að afplánun lýkur.

Rafrænt eftirlit

Ekki væri þó alltaf horft til þess að vista menn á meðferðarstofnun eða í fangelsi. Aðrar öryggisrástafanir koma til greina svo sem rafrænt eftirlit. Brotamaðurinn gæti þá hafið líf í samfélaginu að nýju en með þeim skilyrðum að hann sé ekki í grennd við mögulegan brotaþola. En í einhverjum tilfellum, t.d. þar sem um er að ræða ítrekuð brot gegn börnum, getur verið ástæða til að vista menn í fangelsi eða á annarri stofnun. Til að þetta gangi eftir þurfa vistunarúrræði að vera fyrir hendi, bæði innan heilbrigðiskerfisins og fangelsiskerfisins. Nú horfir til betri vegar í fangelsismálum eftir að samþykkt hefur verið að reisa nýtt fangelsi en það breytir ekki því að við höfum fjarri því náð nógu langt í að efla meðferðarúrræði fyrir fanga og fyrrum fanga.

Kynferðislegt ofbeldi er ein alvarlegasta ógn sem steðjar að börnum og hana á að taka alvarlega. Sú ógn getur tekið á sig margar myndir. Ofbeldið getur verið framið af ókunnugum eða kunnugum, ættmenni eða óskyldum. Það getur átt sér stað innan fjölskyldu - í innsta hring barnsins - eða á öðrum vettvangi, s.s. í félagsstarfi eða í vinahópnum. Á hverju ári hlaupa kynferðisofbeldistilvik ekki aðeins á tugum, heldur hundruðum. Aðeins hluti þessara mála ratar til barnaverndaryfirvalda og/eða lögreglu og aðeins hluti af þeim málum endar með dómi. Síðan má reikna með að hluti þeirra einstaklinga sem hlýtur dóm greinist með barnagirnd og sé líklegur til síbrotastarfsemi. Þessi löggjöf kæmi til með að ná til þeirra og gæti þannig minnkað líkur á að þeir brjóti aftur af sér. Það er mikilvægt.

Verndum börnin

Hið samfélagslega viðfangsefni er eftir sem áður miklu víðtækara og snýr að því að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum og að skapa farveg fyrir börn til að segja frá ef þau verða fyrir ofbeldi þannig að hægt sé að láta þá sem slíkt fremja sæta ábyrgð. Ofbeldi á ekki að líðast og aldrei gegn börnum. Okkar er að grípa til allra ráðstafana gegn því.