"ÉG BARA BENDI Á SKÝRSLU RÍKISENDURSKOÐUNAR"
Valgerður Sverrisdóttir skýldi sér á bak við skýrslu Ríkisendurskoðunar þegar hún sat fyrir svörum í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í kvöld vegna gagnrýni á hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að einkavæðingu ríkiseigna – einkum bankanna. Talað hefur verið um að ríkisbönkunum hafi verið rænt og flokkspólitískir hagsmunir hafi verið hafðir að leiðarljósi þegar þeir voru seldir eða gefnir, eins margir kjósa að kalla það, þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru afhentir nýjum eigendum með viðhöfn í Þjóðmenningarhúsinu í árslok 2002.
Valgerður bankamálaráðherra átti ekki mörg svör ríkisstjórninni til málsbóta í sjónvarpsþættinum þótt ekki verði sagt að hart hafi verið að henni sótt af hálfu háttprúðra þáttastjórnenda. En eitt taldi hún þó vera ríkisstjórninni haldreipi og það var umrædd skýrsla Ríkisendurskoðunar sem út kom haustið 2003 að beiðni þingflokks VG. Þessi skýrsla var afskaplega rýr í roðinu og fyrir þá sem vilja vita var hún ganrýnd af hálfu þingflokks VG sem taldi Ríkisendurskoðun ekki hafa risið undir hlutverki sínu að þessu sinni. Í umræðu um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar í þinginu í janúar á þessu ári sagði ég að nálgun stofnunarinnar gagnvart viðfangsefninu í umræddri skýrslu hefði verið þröng og einskorðast við þau markmið sem ríkisstjórnin hefði lagt til grundvallar en ekki tekið mið af gagnrýni sem fram hefði komið innan þings og utan á einkavæðinguna og framkvæmd hennar. Sjónarhornið hefði með öðrum orðum verið afar þröngt.
Skýrslan er því ekki nýtileg sem grundvöllur til að byggja á gagnrýna umfjöllun um einkavæðingu ríkisbankanna eins og fjárlaganefnd Alþingis hyggst nú gera. Þá liggur í augum uppi að skýrsla Ríkisendurskoðunar er haldlítil vörn fyrir ríkisstjórnina þótt Valgerður bankamálaráðherra þætti góð með sig þegar hún vísaði allri gagnrýni viðmælenda sinna á bug í Kastljósþættinum í kvöld með þeim einfalda hætti að segja: "Ég bara bendi á skýrslu Ríkisendurskoðunar".