Fara í efni

ÉG HELD MEÐ SKOTUM

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 21.09.14.
Um og upp úr tvítugu bjó ég í Edinborg, höfuðborg Skotlands. Þar stundaði ég nám og þar stofnaði ég til heimilis. Allar götur síðan hefur mér verið hlýtt til Skota og Skotlands  - óháð því hvort landið er hluti af Stóra-Bretlandi eða hefði orðið sjálfstætt ríki, þá telst ég til Skotlandsvina: Ég held með Skotum.

Reyndar ber ég hlýjar tilfinningar til Breta almennt  -  að því marki sem slíkar alhæfingar um lönd og þjóðir  hafa einhverja þýðingu. Sennilega hafa þær það þó á einhvern rómantískan hátt. Það finnur maður innra með sér  þegar maður  treður gamalkunnar slóðir og tínir upp gamla vinaþræði.

Menn veltu vöngum yfir því hvað breyst hefði ef Skotar hefðu kosið sjálfstæði og til hefði orðið „nýtt smáríki í Norðvestur-Evrópu"  eins og kennarar við Háskóla Íslands í stjórnmálafræði komust að orði í blaðagrein. Greinarhöfundar vildu augljóslega vera óhlutdrægir en voru þó vinsamlegir í garð skoskrar sjálfstæðisbaráttu ólíkt því sem mér þótti tónninn hjá einum helsta talsmanni sambandssinna,  Alistair Darling, fyrrum fjármálaráðherra Breta. Í sjónvarpseinvígi við Alex Salmond, leiðtoga Skoska þjóðarflokksins, sagði hann að Skotar gætu ekki verið sjálfstæðir, hætt væri við að fyrir þeim færi eins og Íslendingum, þeir gætu ekki fundið fótum sínum forráð vegna smæðar sinnar.  Margir kunna að minnast þess að Darling þessi leit svo á að Íslendingar væru ekki smærri en svo að þeir gætu greitt Bretum Icesave með ærnum vöxtm.

Það vel þekki ég til Skotlands og Skota að allt tal um þá sem smáa og vesæla hafi farið öfugt ofan í þá marga. Reyndar hef ég aldrei áttað mig alveg á smáríkjahugsuninni jafnvel þegar hún er sett fram í vinsamlegu samhengi.  Nær erum við Íslendingar þó að flokkast til smáríkis en Skotland með sínum 5,3 milljónum íbúa. Í Danmörku búa 5,7 milljónir, í Noregi 5,1 og Finnlandi 5,5. Og áfram mætti telja „smáríkin".

Vandi heimsins liggur ekki í því að vera smár. Miklu fremur í því að vera  stór og ofmetnast í ljósi stærðar sinnar. Þetta var reyndar ein af röksemdum skoskra sjálfstæðissinna, að tími væri kominn til að losa sig undan ábyrgð og tilkostnaði við að tilheyra ríki sem þráði það að vera stórveldi á heimsvísu með öllum þeim tilkostnaði sem það hefur í för með sér, og geta þess í stað farið að beina kröftum að friðsamlegum samskiptaháttum við aðrar þjóðir.

Mér segir svo hugur að runnið hafi tvær grímur á marga Skota sem gjarnan vildu sjálfstæði þegar í ljós kom hve mjótt yrði á munum. Það hafi orðið til þess að þeir hafi sagt nei við sjálfstæði sem þeir hefðu tekið opnum örmum ef fyrir því hefði verið afgerandi meirihluti.

En þetta er enginn endapunktur. Skotar munu halda áfram göngu sinni í átt til aukins sjálfræðis. Mörgum hefur eflaust orðið opinberun að sjá inn í sálarlíf bresku valda- og fjármálaelítunnar, sem hamraði á smæðinni og vanmetakennd almennings í  baráttunni  gegn sjálfstæði Skotlands.