Fara í efni

ÉG KAUPI KALLA TOMM!

Jólin eru góður tími. Fjölskyldur koma saman, hugsunum beint inn á jákvæðar brautir, allir að vanda sig, jólakveðjur, gjafir, kertaljós, góður matur, falleg tónlist,  bóklestur.

Frá æskuárunum er bóklesturinn sú minning jólanna sem fyrst kemur upp í hugann. Lesið án afláts, sólarhringnum snúið við. Og enn er gaman að fá góðar bækur,  sjálfur fékk ég nokkrar. Er reyndar að klára síðustu bókina frá Angústúru-bókaútgáfunni, Etýður í snjó, er búinn að gleypa í mig allar áskriftarbækur útgáfunnar, skemmtilegar og vekjandi, hafa opnað glugga út í þann hluta (bókmennta)heimsins sem ég hafði aldrei séð inn í.

Hef verið að fletta frábærri Flóru Íslands og síðan afar ljúfri bók Ragnars Helga Ólafssonar, Í bókasafni föður míns. Faðirinn er Ólafur Ragnarsson, heitinn, fyrrum bókaútgefandi. Ragnar Helgi staldrar víða við í hillum föður síns og er skemmtilegt að fylgja honum. Síst af öllu vildi ég gleyma að nefna Ómar Ragnarsson og nýja bók hans, Hjarta landsins. Bókinni fylgir hljómdiskur með lögum og ljóðum eftir Ómar. Þessa laga- ljóða- og myndabók fékk ég með fallegri kveðju frá höfundi, sem ég met mikils. Ég held reyndar að Íslandi finnist þessi bókartitill hæfa þessum höfundi enda standi hann nærri hjarta þess!

Svo er það tónlistin. Ég vil jólalög og jólasálma á jólum. Þannig má anda að sér ilmi þeirra. Búinn að spila Ave Maríur Diddú út í eitt, jólaplötu Karlakórs Reykjavíkur og Aðventuplötuna hans, Kór Áskirkju að syngja íslensk ættjarðarlög, Það er óskalag íslenskt, þá er það hljómdiskurinn með lögum Sigvalda Kaldalóns og að sjálfsögðu Bach, Mozart og Hayden og fleiri og fleiri. Og svo náttúrlega Kalli Tomm.

Kalli Tomm hefur verið eins konar jólastef hjá mér þessi jólin því nokkrum sinnum er ég búinn að spila Örlagagaldur og nýjustu plötu hans, Oddaflug. Svo við snúum enskum frasa uppá íslensku, þá kaupi ég Kalla Tomm! Gerði það í eiginlegri merkingu en einnig óeiginlegri enda textarnir og lögin góð og flutnigurinn með ágætum enda úrvalsfólk á ferðinni! Mitt uppáhald er Kyrrþeyrinn andar, lag eftir Kalla Tomm, texti eftir Bjarka Bjarnason; “hálendið hrjúfa/ er hjarta okkar lands …” Takk Kalli, Bjarki og þið öll hin sem sömduð lögin og textana og fluttuð okkur tónlistina.

Verð reyndar að minnast á aðra skemmtilega plötu sem mér áskotnaðist úr færandi hendi góðs vinar á aðfangadagsmorgun, Waltz for better times, með finnsk/íslenska harmoníkkuleikaranum Matti Kalio og félögum. Snjallir og skemmtilegir músíkantar, fjörug plata.

Gleðileg jól er víst óhætt að segja enn – strangt til tekið fram á þrettándann. Þangað til á að vara sæluvíma  jólanna.

Svo fer sólin að rísa.