ÉG STAL ÞVÍ FYRST
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20/21.04.24.
Mér kom nýlega upp í hugann saga sem vinkona mín sagði mér fyrir um fjörutíu árum. Hún var flugfreyja. Einhverju sinni var hún send með sérstöku teymi til þess að þjálfa áhafnir hjá flugfélagi í landi þar sem mútur viðgengust – voru nánast taldar eðlilegar, varla orð á gerandi.
Nema hvað, í fræðsluprógramminu var verðandi flugfreyjum kennt að selja varning eins og tíðkast í lengri flugferðum, sælgæti, tóbak og áfengi og annan smávarning. Í lok fyrsta flugsins á námskeiðinu hrósaði kennarinn hópnum fyrir vel unnin störf og sagði að nú væri komið að uppgjöri. Flugfreyjunum verðandi bæri að afhenda peningana sem fengist hefðu í sölunni og sýna reikningsyfirlit.
Við þetta gaus upp mikil reiði – sem hópnum öllum þótti greinilega vera réttlát reiði. Þetta skyldi aldrei verða! Og þegar námskeiðshaldarinn rétti fram hendur sínar og krafðist þess að fá peningana sem ein flugfreyjan hafði í fórum sínum, sagði sú samanbitnum vörum: „I stole it first,“ ég stal því fyrst.
Á dögunum var stolið peningum, einum þrjátíu milljónum, frá öryggisvörðum sem fóru á milli spilakassasala að safna saman kassafénu. Ekki er mér ljóst til hvaða þjóðþrifastarfsemi peningarnir áttu að renna, sá þó einhvers staðar að talskona Háskóla Íslands, sem nærir sig reglulega á peningum úr spilakössum, sagði að það væri bót í máli að allir væru tryggðir í bak og fyrir, þannig að þetta væri ekki tapað fé.
Sem kunnugt er hefur mörgum þótt það vera álitamál hvort fjárhættuspilakassar séu með öllu löglegir. Ósiðlegir eru þeir í það minnsta, því með kössunum er haft fé af fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna, enda nefnt spilafíklar. Ef svo er, þá er ekki fjarri lagi að segja að spilafíklarnir séu þeir sem stolið var af fyrst. Löngu síðar í ferlinu voru þjófarnir sem stálu frá öryggisvörðunum.
En ef það voru spilafíklar sem fyrst var stolið frá, þurfa fjölmiðlar þá ekki að spyrja alla málsaðila hvort þeim þyki eðlilegt að þeir sem upphaflega var stolið frá liggi óbættir hjá garði. Hvar sé þeirra trygging ef allir voru tryggðir? Hlyti það ekki að taka til þeirra sem hafa tapað aleigunni og stundum heilsunni í fjárhættuspilum af þessu tagi?
Og hvar liggur ábyrgðin? Er það kannski ríkisstjórnin og Alþingi sem þyrfti að svara þeirri spurningu? Þetta eru þau sem setja lögin og eiga að hafa eftirlit með fjárhættuspilum. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er andvígur rekstri fjárhættuspilakassa og vill ekki fjárhættuspil á netinu. Þetta hefur komið fram í vönduðum skoðanakönnunum. Þrátt fyrir það lætur ríkisvald og löggjafi sér þetta í léttu rúmi liggja. En það mega þau vita að athafnaleysi stjórnvalda getur verið saknæmt ef það sannanlega veldur tjóni.
Þegar stofnunum, verslunum, veitingastofum og skemmtistöðum var lokað í covid-faraldrinum, gilti annað lengi vel um spilakassasalina. Þeir máttu vera opnir svo framarlega að sprittbrúsi væri við hvern kassa. Þegar spilasölunum var svo loksins lokað eftir margítrekaða beiðni frá samtökum spilafíkla var ákveðið að skattgreiðendur skyldu bæta rekstraraðilum spilasalanna tjónið með tugum milljóna króna. Með öðrum orðum, allir skyldu tryggðir.
En ekki alveg allir, ekki þeir sem stolið var frá fyrst. En sá er munurinn á flugfreyjunni okkar hér að framan og þeim öðrum sem hér hafa komið við sögu, að hún kom þó hreint til dyranna og kvað upp úr skýrt og skorinort um ránsfenginn, sem hún taldi sig eiga rétt á, I stole it first.
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.