Fara í efni

ÉG VIL BERA AF MÉR SAKIR

Fróðlegt hefur verið í dag að fylgjast með umræðu í fjölmiðlum um nýtilkomna afsögn menntamálaráðherra. Fróðlegt, aðallega vegna þess hvernig sjá hefur mátt inn í iður stjórnmála og fjölmiðla landsins. Ekki hefur mér sýnst þar vera sérlega frýnilegt um að litast. Ekki hefur heldur verið eftir miklu að slægjast í umræðu um þetta ”risastóra fréttamál” sem fólk vilji ”auðvitað heyra sem mest af”, svo vitnað sé í ummæli frá í dag einkennandi fyrir tóninn í umræðu stjórnmálamanna og fjölmiðlunga.

Hafi einhver efasemdir um mikilvægi þessa máls og réttmæti fréttflutningsins um það þá eru fréttamenn RÚV fljótir að minna á að ráðherrann hafi sagt af sér áður en fréttir af hinu þrjátíu ára gamla prívatmáli fóru í loftið. Afsögnin hafi einfaldlega fært okkur heim sanninn um hve alvarlegt málið hafi verið í huga ráherrans sjálfs!

Ætli sannleikurinn sé ekki sá að ráðherrann, eiginkonan og móðirin, hafi vitað að í farvatninu væru ofsóknir á hendur henni og fjölskyldu hennar sem hún hafi viljað reyna að afstýra. Henni var jú sagt að fréttirnar væru í vinnslu.

Í gærkvöldi birti ég hér á síðunni örpistil um málið þar sem ég vildi taka upp hanskann fyrir Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir þá svívirðilegu aðför sem að henni hefur verið gerð.

Í umræðu fjölmiðlamanna í dag fékk þessi viðleitni mín ekki háa einkunn þótt öðru máli gegni annars staðar þar sem ég hef séð og heyrt til. Fjölmiðlafólki þótti afstaða mín bera vott um ”meðvirkni” með ráðherra og ríkisstjórn; ég og aðrir tilgreindir menn vildu einfaldlega „að þetta ríkisstjórnarsamstarf gengi upp.”

Það er hér sem er að því komið að ég beri af mér sakir því af þessu er ég algerlega saklaus. Helst vildi ég kosningar sem fyrst þó ekki væri nema til að fá nýja stjórnarandstöðu sem hvorki hlakkaði yfir ógæfu fólks né nýtti sér erfiðleika þess sjálfri sér til framdráttar.

--------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/