Fara í efni

EIGA PENINGAMENNIRNIR AÐ STJÓRNA DANSINUM?

Í morgun fór fram nokkuð sérstök umræða á Alþingi um málefni Listdansskóla Íslands. Frá því var skýrt í sumar að skólinn yrði lagður niður með valdboði. Þetta gerðist með þeim hætti að á fyrsta fund starfsmanna eftir sumarfrí, hinn 16. ágúst síðastliðinn, birtist pólitísk aftökusveit úr menntamálaráðneytinu til að tilkynna um fyrirhugaðan dauðdaga þessarar merku stofnunar. Þetta kom sem þruma úr heiðskíru lofti enda hafði ekkert samráð verið haft við stjórnendur og aðra starfsmenn skólans. Á þessum fundi var þeim skýrt frá því að menntamálaráðherra hefði ákveðið þetta - einhliða. Um það væri ekki neitt frekar að segja. Það sem sérkennilegast var við þessi vinnubrögð í sumar og endurspeglaðist við utandagskrárumræðuna á Alþingi nú, er sú mótsögn sem í því er fólgin að ráðherra taki ákvörðun sem sögð er vera stórgóð fyrir listdansinn í landinu en á sama tíma treystir þessi sami ráðherra sér ekki til þess að ræða áform sín og ákvarðanir við starfsmenn þess skóla þar sem þessari kennslu hefur verið sinnt. Væri Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra viss um að hún hefði góðan málstað að verja,  ætti hún jafnframt að geta rætt þessi mál augliti til auglits við það fólk sem hefur starfað að þessum málum. Sá grunur læðist að manni að samviska ráðherra sé ekki sem skyldi í þessu máli.

Listdansskóli íslands á að baki sér rúmlega hálfrar aldar sögu og ef litið er til starfs skólans á undanförnum árum, hvernig hann hefur eflst og dafnað, þá stóðu flestir í þeirri trú að hann ætti bjarta framtíð fyrir sér. Annað hefur nú semsagt komið á daginn og er nöturlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli hafa ákveðið að gera þessa starfsemi háða duttlungum markaðslögmálanna og væntanlega fjárráðum barna, unglinga og foreldra, að því leyti sem þessi kennsla fer út á einkamarkað. Allt tal um að færa hana inn í almenna framhaldsskóla er vægast sagt mjög ósannfærandi.

Okkur er sagt að til standi að efla deild í listdansi við Listaháskólann en þar er vel að merkja um að ræða nám að lokinni grunn- og framhaldskólakennslu. Þeirri kennslu hefur Listdansskólinn hins vegar sinnt og má segja að í eiginlegum skilningi hafi hann verið vagga þessarar listgreinar en um 150  nemendur stunda þar nú nám á grunn- og framhaldsskólastigi. Hefur nemendum  gefist kostur á að taka 40 einingar til stúdentsprófs í skólanum. Reyndar er Listdansskólinn nú einnig viðurkenndur sem skóli á háskólastigi og hefði verið nær – alla vega að ræða þann valkost -  að efla Listdansskólann í stað þess að dreifa kröftunum.

Saga Listdansskólans segir sitt um hversu snar þáttur listdansinn er í leiklistar- og menningarlífinu almennt. Framan af var saga skólans samofin sögu Þjóðleikhússins og var skólinn nátengdur því þar til fyrir 15 árum að leiðir þessara stofnana skildu. Ástæðan var sú að Listdansskólinn var þá orðin öflug stofnun sem byggði á sterkri hefð.

Fyrir þessa hefð gefur ríkisstjórnin greinilega  lítið og er nú tilbúin að fórna  þessari menningarstofnun á altari einkavæðingarinnar. Vakna af þessu tilefni spurningar um hvað búi þarna að baki.

Eflaust á að koma til sögunnar einhvers konar þjónustusamningaleið af því tagi  sem nú er í tísku og er til þess farin að rýra réttindi starfsfólks, færa niður lífeyrisréttinn og önnur réttindi sem ríkisstjórninni finnast of kostnaðarsöm fyrir starfsmenn almannaþjónustunnar – það er að segja fyrir alla aðra en ráðherra og þingmenn.

Mikil kerfishugsun kom fram í máli menntamálaráðherra við umræðuna í dag. Listdans á að kenna eins og hverja aðra aukagrein í framhaldsskólum, sagði hún, auk þess sem gera mætti einhvers konar sérsamninga.  Nái þetta fram að ganga verður eftir sem áður eflaust stundaður einhver listdans í landinu en starfsemin mun hvíla á veikari grunni og yrði að verulegu leyti rekin á öðrum forsendum en hingað til. Er það kannski Björgólfur Guðmundsson stjórnarformaður Landsbankans og félagar úr heimi stórkapitalsins, sem eiga að sjá um þetta líka? Til sanns vegar má færa að peningar fjármálastofnana og annarra stórfyrirtækja, séu peningar landsmanna. Landsmenn fá hins vegar engu um það ráðið hvernig þeim er ráðstafað. Á markaði er þessum fjármunum stýrt á forsendum peningavaldsins. Þetta er enn eitt dæmið um að völd og áhrif eru færð frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum til þeirra sem ráða lögum og lofum á markaðstorginu. Ég held hins vegar að þjóðin sé búin að fá sig fullsadda á því að horfa á peningamennina bjóða listamönnum þjóðarinnar upp í dans.