EIGNARHALD, RITSTJÓRNARSTEFNA OG RÍKISÚTVARPIÐ
Birtist í Morgunblaðinu 20.01.06.
Hópur manna ákveður að stofna fjölmiðil sem á að sinna skrifum um alþjóðapólitík. Ráðnir eru blaðamenn til að sinna þessu verkefni. Nú gerist það að blaðamennirnir fá áhuga á innlendum stjórnmálum og verður sá áhugi þess smám saman valdandi að blaðið, sem upphaflega var stofnað til að segja frá atburðum, stefnum og straumum á alþjóðvettvangi sinnir nær einvörðungu skrifum um innlend málefni. Það segir sig sjálft að eigendur blaðsins væru í fullum rétti að segja ritstjórninni upp störfum bætti hún ekki ráð sitt og starfaði samkvæmt þeim línum sem lagðar voru af eigendum blaðsins. Auðvitað mætti taka mörg dæmi sem væru enn augljósari um hve fráleitt það væri að gera eigendur fjölmiðils að engu.
Þegar hins vegar kemur að því að virða frelsi ritstjórnar til að sinna sínum störfum án áreitis frá eigendum er allt annað uppi á teningnum. Í alvöru fjölmiðli reynir eigandinn ekki að stýra ritstjórninni og á ekki og má ekki gera það.
Eignarréttur veitir ekki rétt til afskipta af ritstjórn
Þetta er kjarninn í nýlegum ritstjórnarpistli Guðmundar Magnússonar í Fréttablaðinu og er ég honum mjög sammála. Guðmundur vill að línurnar séu skýrar: „Eigendur fjölmiðla ættu jafnan að setja yfirmönnum á ritstjórnum erindisbréf þar sem skýrt væri kveðið á um hvers konar fjölmiðil þeir ættu að reka og hvaða meginstefnu hann ætti að fylgja. Þeir ættu hins vegar ekki að hafa afskipti af ritstjórnum miðlanna og vinnubrögðum þeirra meðan þær halda sig innan þeirra marka sem erindisbréfin mæla fyrir um. Þannig verður sjálfstæði ritstjórna, sem allir eru sammála um að sé mikilvægt og eftirsóknarvert, best tryggt.“
Nú má spinna þessa hugsun áfram í ýmsar áttir. Það má til dæmis spyrja hvað sé réttlætanlegt að gerist við eigendaskipti á fjölmiðli. Með nýjum eigendum koma hugsanlega ný viðhorf og þá væntanlega ný erindisbréf, eða hvað? Hvað ef það hefði gerst sem okkur er sagt að hafi verið á næsta leiti, að Björgólfsfeðgar keyptu DV til að leggja blaðið niður og þar með fjölmiðil sem var þeim óþægur ljár í þúfu? Ekki er þetta þægileg tilhugsun en hana þarf að ræða. Og hver er réttur eigandans til að gagnrýna ritstjórn sem hann telur ekki sinna því hlutverki sem hún var ráðin til að sinna?
Þessar spurningar eru ekki auðveldar viðfangs. Nálgun Guðmundar Magnússonar er hins vegar rétt. Hún býður ekki upp á vélræn svör. Margt hlýtur að verða matskennt og kallar á góða dómgreind. Hér skiptir opin umræða sköpum! Þar reynir á starfsmenn og eigendur. Starfsmenn þurfa að standa sína faglegu og lýðræðislegu vakt og eigendur að gæta að því að misnota ekki eignarhald sitt. Þetta getur verið erfitt að tryggja.
Ekki hægt að reka fólk í kyrrþey á Ríkisútvarpi - ennþá
Þess vegna er víða – í mörgum Evrópuríkjum - litið til ríkisútvarps sem kjölfestu í þessum heimi fjölmiðlunar. Þar er þjóðin eigandinn. Hún eða fulltrúar hennar setja lagarammann – „erindisbréfið“ – og síðan er reynt að tryggja eftirlit og aðhald. Það er meðal annars gert með því að tryggja að stofnunin sé opin og allt sem þar gerist öllum ljóst. Þegar fréttastjóri er rekinn er það opinbert mál, ekki felumál eins og gerst hefur á öðrum fjölmiðlum, nýlegt dæmi af Stöð tvö kemur upp í hugann.
Slíkt hefði vart getað gerst á Ríkisútvarpinu einfaldlega vegna þess að það heyrir undir upplýsingalög og stjórnsýslulög, en báðir þessir lagabálkar opna stofnunina gagnvart almenningi, svo og aðgangur í gegnum útvarpsráð. Einn alvarlegur veikleiki er á núverandi stjórnsýslu RÚV. Eftirlitsaðilinn gagnvart RÚV er pólitískt kjörið útvarpsráð sem endurspeglar meirihlutann á Alþingi og þar með ríkjandi stjórnarmeirihluta hverju sinni. Í lagafrumvarpi, sem ég er fyrsti flutningsmaður að er lagt til að útvarpsráð verði skipað fulltrúum allra flokka á Alþingi – endurspegli þannig viðhorf fremur en völd – auk fulltrúa frá öðrum aðilum, samtökum listamanna, neytenda og sveitarfélaga.
Lokað kerfi og pólitísk tök á RÚV
En hvað skyldi ríkisstjórnin hafa á takteinum hvað RÚV áhrærir? Hún ætlar að breyta skipulagsforminu á þá lund að stofnunin verði tekin undan upplýsingalögum og stjórnsýslulögum til að auðvelda að reka og ráða samkvæmt duttlungum stjórnenda hverju sinni og gera þeim kleift að pukrast með málefni stofnunarinnar. Í ofanálag geirneglir stjórnarfrumvarpið pólitískt meirihlutavald yfir stofnuninni – endurspeglun á stjórnarmeirihlutann hverju sinni! Það er ekki að undra að þeim fjölgi sem leggjast gegn frumvarpi menntamálaráðherra um hlutafélagavæðingu RÚV. Þeir sem leggjast gegn því er sama fólkið og hefur lesið frumvarpið og jafnframt kynnt sér aðra valkosti sem bjóðast til að bæta rekstrarskilyrði Ríkisútvarpsins. Það segir sína sögu.