Fara í efni

EIGUM SNOWDEN SKULD AÐ GJALDA

DV -
DV -

Birtist í DV 24.06.13.
Samkvæmt skoðanakönnunum telur meirihluti Bandaríkjamanna  að Edward Snowden hafi gert rétt í því að upplýsa fjölmiðla - upphaflega Washington Post og Guardian - um njósnir á vegum Þjóðaröryggisstofnunar  Bandaríkjanna, NSA, og Alríkislögreglunnar, FBI, á notendum internetsins. Leynileg njósnaáætlun, svokölluð PRISM áætlun, hafi gengið út á að samkeyra upplýsingar um fólk bæði frá símafyrirtækjum og netfyrirtækjum (s.s. Google, Yahoo, Facebook, Skype, Youtube, Microsoft og svo framvegis).
Nánast samstundis eftir að þessar upplýsingar komu fram í dagsljósið var Snowden, sem starfað hafði að verkefnum innan þessarar áætlunar,  úthrópaður sem  svikari og  þjóðníðingur, svo vitnað sé til orða John Boehners leiðtoga Repúblikana í fulltrúadeild þingsins. Sem betur fer hefur fjöldi þingmanna risið upp til varnar Snowden og herma fjölmiðlar að hver sem örlög hans verða þá sé eitt víst að nánar verður fylgst með heimildum yfirvalda til að fylgjast með þegnunum. Og sem áður segir eru þeir í minnihluta sem gagnrýna hann á meðal almennings í Bandaríkjunum.
Úr varð að Snowden flúði til Hong Kong en fregnir hafa borist frá honum um að hann gæti hugsað sér að fá landvistarleyfi á Íslandi. Ég tel að Alþingi eigi að vera opið fyrir þessu og þegar í stað taka málið til umræðu á slíkum grundvelli í Allsherjarnefnd þingsins.

Grafa undan réttindum annarra

Einnig þarf Utanríkismálanefnd að fylgjast grannt með þessu máli. Ekki er úr vegi að horfa til Evrópusambandsins hvað þetta mál varðar. Þannig lítur Evrópusambandið svo á að hér sé ekki á ferðinni neitt einkamál Bandaríkjamanna. Þetta kom berlega fram í bréfi sem  Viviane Reding, dómsmálastjóri ESB, sendi  Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Þar krafðist hún upplýsinga um net- og símanjósnir Bandaríkjamanna. Í bréfinu mun hafa komið fram að svar Holders gæti haft áhrif á samskipti Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Hér væri  á það að líta að netheimurinn er alþjóðlegur og ef bandarísk lög ganga lengra en lög annarra ríkja til að afla upplýsinga og jafnvel njósna um einstaklinga þá græfi það undan réttindum í viðkomandi löndum - ekki aðeins í Bandaríkjunum.

Kemur okkur öllum við.

 Auðvitað á þetta einnig við um okkur eins og reyndar öll þau sem skipta við umrædd fyrirtæki á netinu. Velflest nýtum við okkur þjónustu þeirra fyrirtækja sem eru umsvifamest á netinu og þar með eigum við á hættu að liggja undir smásjá bandarískra yfirvalda.
Þetta minnir okkur á að netinu, sem býður upp á gríðarlega möguleika fyrir upplýsinga-  og lýðræðissamfélagið, má hæglega snúa upp í andhverfu sína þar sem ríkið og stórfyrirtæki safna upplýsingum um okkur og grafa þannig undan friðhelgi einstaklingsins og  lýðræðinu. Út á þá braut hafa bandarísk yfirvöld haldið.

Manning og Snowden

Það á ekki af bandarískum yfirvöldum að ganga enda kannski ekki við öðru að búast þegar samviskan er slæm. Þannig eru aðstandendur Wikileaks hundeltir  fyrir að hafa miðlað upplýsingum sem komu bandarískum hermálayfirvöldum illa, til dæmis myndböndin af árásum úr lofti í Bagdad sumarið 2007 og tveimur árum síðar í Afganistan. Auk þess lak Manning miklu magni af leyniplöggum.
Auðvitað urðu forsvarsmenn hersins og utanríkisþjónustunnar bandarísku æfir en heimurinn sýndi þessum upplýsingum áhuga og hygg ég að flest fólk hafi talið þær eiga erindi til okkar. Þau sem ekki hefðu viljað vita af ofbeldsverkum bandarískra hermanna í Írak myndu sennilega fara leynt með þá afstöðu sína og segir það sína sögu.
Yfirvöld í Bandaríkjunum reyna nú allt hvað þau geta til að dæma sendiboða slíkra upplýsinga til þagnar. Um það snúast réttarhöldin yfir Bradley Manning í Bandaríkjunum um þessar mundir en það var hann sem kom upplýsingum á framfæri við Wikileaks eins og frægt varð, sem síðan miðlaði efninu áfram.

Í skjól á Íslandi

Í vetur var rifjað upp á Alþingi og í fjölmiðlum þegar bandarískir lögreglumenn frá FBI, bandarísku alríkislögreglunni, komu hingað til lands í ágúst 2011 til að reyna að tæla íslensk lögregluyfirvöld til samstarfs í aðförinni að Wikileaks. Þeim var gert ljóst að þeir hefðu ekki heimild til að athafna sig hér á landi með þeim hætti sem þeir hugðu, enda lá ekki fyrir heimild til þess eða beiðni þar um.
Hitt er svo annað mál að ekki hefðu þeir fengið heimild hjá Innanríkisráðuneytinu á þeim tíma til að athafna sig hér á landi í tengslum við tilraunir að snara Wikileaks.
Í mínum huga voru  hvorki  Wikileaks og Bradley Manning né nú Edward Snowden siðferðilega sek. Þvert á móti hafa þessir aðilar unnið mannréttindum gagn og eiga þakkir skilið. Og fyrir vikið eigum við öll þeim skuld að gjalda. Nú þarf að taka um það ákvörðun hvort sú skuld verður ekki best endurgoldin með landvistarleyfi á Íslandi.