Fara í efni

EINAR ÖGMUNDSSON ALLUR: GEKK HVERGI SPORLAUST YFIR JÖRÐ

Í dag var borinn til grafar Einar Ögmundsson, frændi minn og náinn vinur. Útför hans var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík og var prestur séra Þórir Stephensen en hann var þremenningur við Einar að frændsemi og var með þeim vinátta. Séra Þóri mæltist einstaklega vel og flutti hann einhverja sterkustu ræðu sem ég hef heyrt flutta við slíka athöfn. Var þetta almennt mál manna. Hinn pólitíski litur séra Þóris Stephensens er ekki rauður heldur blár eins og þeir vita sem til þekkja. En vini sínum – skoðunum hans og hugsjónum -  var hann trúr. Þess vegna var ræðan undir áhrifum hinna rauðu baráttufána hins unga Einars Ögmundssonar.

Við athöfnina voru lesin ljóð Jóhannesar úr Kötlum og óður Huldu til lands og þjóðar um okkar fagra föðurland sunginn:

"...
Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur líti dáð á ný.
Hver draumur rætist verkum í,
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.
..."

Einar Ögmundsson gekk hvergi sporlaust yfir jörð. Á þessa leið komst séra Þórir  að orði og rakti sögu Einars Ögmundssonar á vettvangi verkalýðsbaráttunnar, þar sem hann hafði verið einn af stofnendum Þróttar, félags vörubifreiðastjóra, gegnt þar formennsku í hálfan annan áratug, verið í forsvari fyrir Landssamband vörubifreiðastjóra í enn lengri tíma og í miðstjórn ASÍ, þar sem hann var lengi vel gjaldkeri og frumkvöðull að ýmsum framfarasporum á sviði lífeyrismála, bankamála, ferðamála og margvíslegra réttindamála. Það voru orð að sönnu, að hvergi gekk hann sporlaust yfir!

Einar Ögmundsson var enginn öreigi sagði séra Þórir, en hann átti viðkvæmt hjarta, sem fann til vegna öreiganna, leið vegna allra þeirra sem minni máttar eru í lífinu. Hann hafi fundið, að vegna þeirra hafi hann viljað ganga undir rauðum fánum og helga líf sitt og félagsmálabaráttu því að bæta þeirra hag. Það hafi verið hugsjón hans, að sem flestir sæju óréttlætið og þráðu að útrýma því. Þess vegna hafi þau verið eins og komin frá hans dýpstu hjartarótum lokaorð Morgunsöngs, ljóðs Jóhannesar úr Kötlum,
"...
Já, fram, já fram, unz bróðir með bróður rís til dáða
og bylting dagsins logar
í auga sérhvers manns."

Séra Þórir lagði sinn skilning í ást Einars Ögmundssonar á morgunroðanum úr austri og sagði að Einar gengi nú mót hinu eilífa austri, sem táknaði upprisu og páskasól um leið og hann vitnaði enn í Morgunsól Jóhannesar úr Kötlum, vinar Einars Ögmundssonar:

"Nú blakta rauðir fánar í mjúkum morgunblænum
og menn rísa af svefni
og horfa í austurveg.
Það bjarmar yfir tindum, það sindrar yfir sænum,
- nú syngjum við um lífið,
um frelsið – þú og ég.
Við fögnum himni bláum, við fögnum skógi grænum,
því fagurt en nú loftið
og jörðin yndisleg."

Í dag birtust margar minningargreinar í Morgunblaðinu eftir ættingja og vini, samferðamenn í verklýðsbaráttunni og nefni ég þar Grétar Þorsteinsson, forseta Alþýðusambands Íslands. Ég lýk þessu endurminningarbroti á glefsu úr minningargrein Björns Jónassonar, bróður míns um Einar því hún er mjög sönn mannlýsing.

"Nú er hann farinn, hann móðurbróðir minn góður. Hann var öflugur maður, baráttumaður, sigurvegari. Einar var alltaf klár á því að lífið er það sem maður gerir úr því sjálfur. En honum fannst jafn augljóst að þeir sem ekki hefðu afl og getu á við þá sterkustu, ættu tilkall til hlutdeildar í lífsins gæðum.
Einar Ögmundsson hafði til að bera ríkan metnað en snobb var honum framandi. Hann var afar stoltur maður en hroki var ekki til í hans skapi. Einsog oft gerist voru hans helstu kostir, stundum fótakefli. Heiðarleiki hans varð honum ekki alltaf að gagni, hann gat bara ekkert að honum gert. Hann lét aldrei myndast nein uppistöðulón óánægju, hann sagði alltaf það sem honum fannst. Hann virkaði þess vegna ef til vill á suma sem hann væri hrjúfur, sérstaklega á þá sem ekki þekktu hann...Einar afsannaði rækilega þá kenningu að ekki væri hægt að vera samtímis athafnamaður og félagshyggjumaður. Hann var félagshyggjumaður í öllu sínu lífi. Honum fannst hann ávallt bera ábyrgð á samferðamönnum sínum, kannski af því að hann var svo sterkur sjálfur og kraftmikill. Þegar ég unglingurinn var að fara í mínar fyrstu utanferðir og átti ekki mikið skotsilfur, þá kallaði Einar ævinlega á mig. Það vantaði skyndilega að vinna fyrir hann verk ýmis konar; það þurfti að mála ýtuna hans eða útrétta í bænum fyrir hann. Og þegar upp var staðið kom í ljós að launin voru langt yfir taxta. Og ef ekki vannst tími til að vinna, þá gaukaði hann alltaf einhverju að mér þrátt fyrir það. Alvöru góðverk eru þau sem enginn veit um. Eins var um góðverkin hans, það vissi aldrei neinn af þeim og ég held að honum hafi sjálfum ekki fundist hann vera að vinna nein góðverk. Hann var það sem kallað er stundum raungóður, eða góður í verkum sínum. Hann gat verið hastur, en elska hans var alltaf ekta. Hann hafði skýrar skoðanir og lét þær óspart í ljósi og án fyrirvara en það skipti hann aldrei neinu máli hvort vinir hans hefðu aðrar skoðanir. Þeir voru alveg jafn góðir fyrir það.
Hann fyrirleit óheiðarleika og leiddist dáðleysi, eða öllu heldur skildi það ekki. Honum var heiðarleiki og  framkvæmdasemi í blóð borin. Með brotthvarfi hans og hans kynslóðar, hverfur af þjóðfélagsvettvanginum sérstök tegund félagshyggjumanna: Hinn föðurlegi félagshyggjumaður, sem lítur á allt þjóðfélagið sem fjölskyldu, sem þarf að vernda, gera kröfur til og afla tekna fyrir..."

Í ljósi þessara hugrenninga þótti mér við hæfi að í minningarorðum séra Þóris skyldi hann vitna í Grím Thomsen um karlmennsku og drenglund Einars Ögmundssonar.

"Táp og fjör og frískir menn,
finnast hér á landi enn,
þéttir á velli og þéttir í lund,
þrautgóðir á raunastund."