EINKAVÆÐINGARVÍTIN ERU TIL AÐ VARAST
08.09.2008
Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld var birt viðtal, sem Bogi Ágústsson, fréttamógúll á RÚV, tók við Allyson M. Pollock, prófessor við háskólann í Edinborg. Jafnframt því að gegna stöðu prófessors, veitir Pollock forstöðu stofnun sem rannsakar skipulag heilbrigðisþjónustunnar (Centre for International Public Health Policy).
Í viðtalinu fjallaði Allyson M. Pollock um sams konar breytingar á heilbrigðisþjónustunni og eru fólgnar í frumvarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, um nýja Sjúkratrygginga- og innkaupastofnun. Það frumvarp er til þriðju umræðu á Alþingi á morgun. Það var vel til fundið hjá fréttastofu Sjónvarps að sýna viðtalið nú þegar það kemur til umræðu á þingi.
Viðtalið er áminning til þingmanna um að heilbrigðiskerfið er fjöregg sem meðhöndla skal af varúð. Allyson M. Pollock telur að samsvarandi breytingar og nú á að ráðast í hér á landi hafi reynst illa í Bretlandi. Mér heyrðist í fréttum að ungir jafnaðarmenn hafi mótmælt frumvarpinu. Gott hjá þeim. Vítin eru til að varast þau. Kannski eru þeir ekki yngri en svo að þeir muni Thatcher? Hvað með Ágúst Ólaf, varaformann Samfylkingarinnar? Hann er hrifin af einkavæddum heilbrigðiskerfum. Hvað veldur? Er hann kannski ekki ungur lengur? Eða ekki jafnaðarmaður? Hann styður frumvarpið. Eins og Samfylkingin á þingi gerir gervöll. Svona er lífið. Þegar það lit sínum glatar. Og menn gefa meira fyrir ráðherrastóla en fagrar hugsjónir ungs jafnaðarfólks.
Ég mun birta þessa frétt orðrétta eftir að hún hverfur af fréttavef RÚV. Ég skil ekki hvers vegna fréttastofan getir ekki látið fréttir vera aðgengilegar lengur en gert er.Hér er slóð á fréttina: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4398043/10