Eins og rófa fylgir hundi
Hlutskipti Íslendinga á vettvangi utanríkismála er ekki beysið þessa dagana. Okkar ríkisstjórn er engu betri en sú breska. Færa má fyrir því rök að sú breska hafi þó efni á að tala digurbarkalega. Hún sendir þó sína menn í dauðann. Íslendingar eru aðeins tilbúnir að senda annarra þjóða drengi í dauðann. Íslenska ríkisstjórnin segist vera mikið gefin fyrir að verja frelsið og mannúðina. Þetta segir sama fólk og gefur skotleyfi á íraska alþýðu, varnarlausar konur, karla og börn. Þegar grannt er skoðað er þetta allt gert í þágu bandarískra og breskra olíu- og hernaðarhagsmuna. Þessi vesæla fylgispekt íslenskra stjórnvalda við erlent stórveldi er ekki af illvilja sprottin heldur vanþekkingu, leti og undirgefni.
Það er ekki á hverjum degi að fréttastofa RÚV talar eins skýrt og hún gerði um helgina. Fyrir okkur flest voru ekki flutt nein ný sannindi. En manni bregður engu að síður alltaf þegar hið sanna er sagt um Írak. Í kvöldfréttum RÚV var sagt að vopnaeftirlitsmenn krefðust að fá fyrir því óyggjandi sannanir að Íraksstjórn hefði eyðilagt allan miltisbrandinn og efnavopnin sem Bandaríkin létu þeim í té á níunda áratugnum! Í sama fréttatíma var greint frá því að talsmönnum Bandaríkjastjórnar væri heitt í hamsi, nú skyldi óvinurinn Saddam Hussein eyðileggja vopnin sem vinurinn Saddam Hussein notaði gegn Íran og eigin þjóð á níunda áratugnum. Þá var Saddam "góður skúrkur" eins og Henry Kissinger fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna kallaði hann. Svona er lífið skrítið og fullt af mótsögnum og tvískinnungi. Það er vissulega tvískinnungur sem birtist þegar þess er krafist að Írakar eyðileggi þegar í stað eldflaugar sínar og þegar þeir hefjast handa um einmitt þetta þá skuli Bandaríkjastjórn leyfa sér að segja að hún muni eftir sem áður skipta um stjórn með hervaldi! Er þetta hægt? Það finnst íslensku ríkisstjórninni. Hún fer að öllum skipunum frá Washington. Það er eins fyrirsjáanlegt að hún fylgi George Bush og rófa fylgir hundi.