EINTAL JÓHÖNNU KRISTÍNAR
Fyrr í mánuðinum var opnuð yfirlitssýning á verkum Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur í Listasafni Íslands. Mun hún standa fram yfir áramótin, til 26. janúar.
Samhliða sýngunni, sem ber heitið Eintal, er gefin út bók um listakonuna og er hún prýdd myndum af verkum hennar ásamt upplýsingum og skýringum.
Við opnun sýningarinnar kom greinilega fram að Knútur Bruun, sem listamenn og listunnendur þekkja af mikilli atorku og brennandi áhuga á myndlistinni um áratugaskeið, hefur verið primus motor að bæði sýningu og útgáfu bókar. Listasafn Íslands á einnig heiður skilinn fyrir hve vel er staðið að þessari sýningu.
Í upphafi bókar er að finna nokkur aðfararorð frá Knúti Bruun þar sem hann segir á meðal annars um Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur: “Á örstuttum listferli hennar urðu til verk full af andlegu þreki og fádæma sjaldgæfu listfengi … Þessi bók sem nú kemur fyrir augu lesenda og skoðenda segir fra stórmerkri ungri konu sem hefur skilið eftir sig varanleg spor í íslenskri myndlist. Myndverk hennar eiga heima meðal eðalverka þjóðarinnar og lyfta menningu hennar á hærra plan.
Með ævi hennar sannast hið fornkveðna: “Ars longa vita brevis est.””
Þarna skrifar kunnáttumaður gagnstætt þeim sem skrifar þennan pistil. Ég minnist þess hins vegar að þegar ég var fréttamaður Sjónvarpsins í Kaupmannahöfn, á árunum 1986-88, var einhvern tímann haldin sýning á verkum Jóhönnu Kristínar. Þegar ég var að skoða sýninguna, sem ég hreifst mjög af, og undirbúa frétt um hana sá ég mann nokkurn sem virti fyrir sér verkin af miklum áhuga, nánst áfergju. Við tókum tal saman. Á daginn kom að hann var listfræðingur. Hann sagði við mig, sannaðu til, þessi listakona á eftir að ná langt. Hún er mjög óvenjuleg - sérstök!
En lífið er stutt, “vita brevis est”, og líf Jóhönnu Kristínar varð mjög stutt því hún féll frá um aldur fram árið 1991, aðeins 37 ára gömul.
Í bókinni um Jóhönnu Krsitínu, sem Dimma gefur út á hinn vandaðasta hátt, ritar Harpa Þórsdóttir, forstöðukona Listasafns Íslands, formála þar sem farið er lofsamlegum orðum um listakonuna og Ásdís Ólafsdóttir skrifar litríka og fróðlega yfirlitsgrein.
Síðan eru frábærar hugleiðingar Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, “Í gegnum mig” um listköpun Jóhönnu Kristínar. Hugleiðingar sínar setur Oddný Eir upp sem eins konar hughrifsmyndir, lifandi myndir, engar stillimyndir þar. Dæmi: “Mamma fór með mig inn í salinn. Ég sá bara svart daður við þunglyndi. Hún sagði: Sérðu lífið í þeim? Það er eitthvað sérstakt í þeim. Þá horfði ég aftur á þær, olíumyndirnar, konurnar, og ég tengdist þeim. Eins og ýtt hefðu verið á rofa og eitthvað opnaðist í mér gagnvart myndlistinni. Furðuleg umskipti. Við stöldruðum við, dvöldum dágóða stund með lifandi verum, gengum með þeim í gegnum sorg, angist, brjálsemi, kátínu og gleði. Mamma sagði hana hafa helgað sig listinni.”
Nú vill svo til að ég veit að mamman í þessari frásögn er einnig myndlistarkona, Guðrún Kristjánsdóttir, sem er mér ekki ókunn - er samvistum við verk hennar daglega á stofuvegg. Hafði því sérstaklega gaman af því að fylgja þeim mæðgum á myndlistarsýningu í frásögn Oddnýjar Eirar! Hins vegar sá ég ekki þessar hughrifsmyndir Oddnýjar fyrr en ég fór að skoða bókina góðu, kominn heim að opnun aflokinni. Nú þarf ég að fara aftur á sýninguna með hughrif Oddnýjar Eirar í farteskinu.
Listin er langlíf, “ars longa” eins og Knútur Bruun minnir réttilega á. Þar vil ég bæta við að því aðeins verður listin langlíf, lifi lengi með okkur, að henn sé komið á framfæri. Sjálfur á Knútur Bruun lof skilið fyrir einmitt þetta, eldmóð sinn og kraft sem í góðu samstarfi við Listasafn Íslands hefur skilað frábærri sýningu og útgáfu vandaðrar bókar.
Leyfi ég mér að hvetja fólk til að skoða sýninguna, verða vitni að Eintali Jóhönnu Kristínar, sem óðum er að snúast upp í samtal þjóðarinnar við ástsælan listamann sinn.