EKIÐ INNANDYRA Á MILLI ÍSAFJARÐAR OG BOLUNGARVÍKUR!
26.09.2010
Það var áhrifamikil stund að vera við opnun á Bolungarvíkurgöngum um helgina. Mikið fjölmenni var við athöfnina og endurspeglaði það þá samstöðu sem verið hefur með íbúunum um að gera þessar samgöngubætur að veruleika. Þar með er Óshlíðin úr sögunni sem helsta samgönguæð á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur en hún hefur verið torleiði hið versta á vetrum þótt hún væri kærkomin samgöngubót þegar hún var opnuð um miðja síðustu öld. Fróðlegt var að skoða stórmerkilega ljósmyndasýningu Lárusar Benediktssonar, formanns Sjómanna- og verkalýðsfélags Bolungarvíkur, sem sýndi söguna í myndum allar götur frá því farið var að pjakka í Óshlíðina og gera um hana akveg á fimmta áratug síðustu aldar. Það er umhugsunarvert að elsta núlifandi kynslóð man þá tíð að fara um Óslíðina í fjöruborðinu enda þá engan veg að finna. Hér eftir verður ekið á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur „nánast innandyra" einsog bæjarstjórinn í Bolungarvík komst að orði í mín eyru.
Elísas Jónatansson bæjarstjóri í Bolungarvík, ásamt bæjarstjóranum á
Ísafirði og bæjarfulltrúum þaðan.
Forseti Íslands var viðstaddur athöfnina sem hófst við svokallað Skarfasker þar sem afhjúpaður var minningarskjöldur um þá sem týnt hafa lífi í Óshlíðinni. Á skildinum er áhrifaríkt ljóð eftir Njörð P. Njarðvík. Síðan var athöfn í Náttúrustofu Vestfjarða þar sem gestir voru fræddir um sitthvað jarðfræðilegs efnis og síðan voru göngin opnuð eftir að lúðrasveit heimamanna hafði fært okkur heim sanninn um að tónlistin lifir góðu lífi á Vestfjörðum. Prestur blessaði göngin og síðan var klippt á borða. Kristján L. Möller var að sjálfsögðu mættur að minni ósk enda hefur hann haldið utan um málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Alþingis á framkvæmdatímnaum. Þarna var einnig Sturla Böðvarsson, sem var samgönguráðherrann sem tók ákvörðun um að ráðist yrði í gangnagerðina á árinu 2005.
Vegamálastjóri ásamt núverandi og fyrrverandi samgönguráðherra.
Mikil samkoma var í íþróttahúsi Bolungarvíkur að opnun lokinni. Þar voru haldnar ræður og sungið. „Þetta er stór stund fyrir okkur sem eigum rætur fyrir vestan," sagði forsetinn. Stundin var tilfinningahlaðin. Þarna voru þingmenn allra flokka og allt litrófið úr sveitarstjórnarpólitíkinni. Öll komin upp úr flokkspólitískum hjólförum. Öll á einu máli.
Á svæðinu voru mættir tveir öldungar sem tekið höfðu þátt í Óshlíðar-pjakkinu á fimmta áratugnum. Ég óskaði þeim til hamingju með daginn. Þeir tóku kveðju minni vel. Annar þeirra, Sigurður Sveinsson, sagði að nú væri ekki eftir neinu að bíða: „Nú ferð þú í að gera Dýrafjarðargöng".