Ekki allir að gera það gott
Í frétt í sænska blaðinu Aftonbladet sl. þriðjudag (11/11) segir að raforkuframleiðendur í Svíþjóð geri það gott. Raforkuframleiðendur í Svíþjóð eru ekki lengur sænskir nema að litlum hluta. Þrír stórir framleiðendur eru í landinu, Vattenfall (í sænskri eigu), Sydkraft ( í þýskri eigu) og Fortun ( í finnskri eigu). En þótt þessi fyrirtæki séu að gera það gott er ekki þar með sagt að sænskir neytendur séu ánægðir. Í frétt í Aftonbladet segir að horfurnar á komandi ári séu slæmar og ekki betri en á síðasta ári þegar raforkuverðið rauk upp úr öllu valdi. Ástæðan var sú að "einkavæddir" raforkuframleiðendur eru gjarnir á að láta stjórnast af gróðavon en ekki fyrirhyggju. Þannig hefur það sýnt sig að þeir hafa ekki gert ráð fyrir varaforða eins og raforkuveiturnar jafnan gerðu þegar þær voru í almannaeigu, og þegar raforkuna þraut, var ekki um annað að ræða en kaupa raforku dýrum dómum frá öðrum ríkjum í Evrópu.
Í frétt Aftonbladet segir einnig frá því að fyrrnefnd stórfyrirtæki haldi áfram að kaupa upp smáfyrirtækin: Nú sé Sydkraft að kaupa fyrirtækið Graninge.
Þróunin er sem sagt samkvæmt vel þekktu mynstri: Einkavæðing>fákeppni>gróði stýrir för>engin samfélagsleg ábyrgð>uppsprengt verð.
Í fyrrnefndri grein í Aftonbladet er vitnað í sænsku verkalýðssamtökin SEKO (Facket för Service och Kommunikation) þar sem fram kemur að kjör starfsmanna hafi rýrnað eftir að raforkugeirinn var einkavæddur. Heimasíða Seko er: www.seko.se
Óskandi væri að það takist að setja nýtt forrit í íslensku ríkisstjórnina áður en hún veldur meira tjóni en þegar er orðið, að þessu sinni í raforkugeiranum og drykkjarvatninu, en sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin verið að daðra við þá hugsun að heimila einkavæðingu á drykkjarvatni.