EKKI ATVINNUREKSTUR HELDUR GLÆPASTARFSEMI
Ég hef á því fullan skilning að eigendur íbúða geti þurft að biðja leigjendur að víkja úr húsnæðinu þegar þeir þurfa sjálfir á því að halda til eigin nota. Slíkar aðstæður geta líka komið upp þar sem land hefur verið leigt undir sumarbústaði. Þá hef ég skilning á því að leigu þurfi endrum og eins að hækka í samræmi við verðlagsþróun eða einhverjar tilteknar aðstæður.
Ekkert af þessu á þó við þegar aðfarirnar gegn sumarbústaðafólki í Skorradal og reyndar víðar á landinu eru annars vegar. Þar hafa óprúttnir viðskiptamenn greinilega fest kaup á byggðu sumarbústaðalandi beinlínis með það fyrir augum að féfletta fólkið í byggðunum. Eftir að þessir aðilar hafa komið til sögunnar er fólkinu stillt upp við vegg. Kauptu landið undir bústaðnum eða farðu! Ég veit dæmi þess að fjölskyldu var gert að greiða tíu milljónir fyrir fjórðung úr hektara. Ég þekki líka fjölmörg dæmi þess að leigan hafi verið hækkuð í einu vetfangi um rúman helming.
Árum saman hefur verið beðið eftir lagasetningu til að verja fólk gegn ofbeldi af þessu tagi. Ráðherrar hafa lofað – en aðallega upp í ermina á sér. Hver er skýringin? Hvað dvelur orminn langa? Hvers vegna er lagafrumvarpi ekki hraðað í gegnum Alþingi? Slíkt frumvarp yrði án efa stutt af öllu því strangheiðarlega fólki til sveita sem hefur atvinnu af því að leigja land undir orlofsbyggðir og veita íbúum þar þjónustu. Það mál sem hér er hreyft við snýst hins vegar ekki um atvinnurekstur heldur glæpastarfsemi. Hvers vegna er hún ekki stöðvuð með lögum? Hvað dvelur ríkisstjórnina? Hvað dvelur félagsmálaráðuneytið sem sér um þennan málaflokk?