EKKI FLÝJA LOFORÐIN!!!
05.05.2013
Enginn getur svarað því afdráttarlaust hvað fyrir kjósendum vakti í nýafstöðnum þingkosningum. Enginn þekkir hug kjósandans nema hann sjálfur. Engu að síður er ekkert óeðlilegt við það að menn komi með tilgátur um hvað vakað hafi fyrir kjósendum almennt. Þetta gerir Kristján þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks á meðal annarra.
Eftir honum er haft að kjósendur hafi hafnað vinstri pólitík ríkisstjórnarflokkanna (http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/05/05/vidraedur-b-og-d-rokrett-framhald-kjosendur-hofnudu-politik-vinstri-flokkanna/ ).
Nú er það svo að handhafi hægri stefnu á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn fékk stuðning rétt rúmlega fjórðungs kjósenda. Framsóknarflokkurinn fékk svipað fylgi en sá flokkur skilgreinir sig á miðjunni þótt landsmenn þekki bæði hægri og vinstri spor þess flokks á dansgólfi íslenskra stjórnmála í tímans rás. Samtals fengu þessir flokkar um helming atkvæða en þess ber að geta að Framsóknarflokkurinn segir (réttilega) að hann sé sprottinn af félagslegri rót.
Aðrir flokkar skilgreina sig á félagshyggjuvæng stjórnmálanna nema þá Píratar sem ég myndi flokka til hægri vegna þeirrar lotningar sem þeir bera fyrir markaðsöflunum.
En þetta breytir því ekki að stjórnarflokkarnir guldu afhroð í kosningunum en stjórnarandstaðan jók fylgi sitt.
Og er þar komið að minni tilgátu um hvers vegna það gerðist.
Fólk hreifst af kosningaloforðum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Framsókn lofaði að færa höfuðstól lána niður um 20% og afnema tekjutengingar í almannatryggingakerfinu með hraði ( allir flokkar vilja draga úr þessum tengingum, en Framsókn lofaði að gera þetta með hraði) og síðan lofaði Framsókn að bæta almannaþjónustuna, heilbrigðiskerfið, löggæsluna og menntakerfið.
Sjálfstæðisflokkurinn lofaði verulegum skattalækkunum og öflugra velferðarkerfi. Neitaði í kosningabaráttunni að útfæra hvernig þetta skyldi gert en kjósendum hefur eflaust þótt þetta hljóma vel.
Ástæðan fyrir velgengni B og D ætla ég að hafi verið kosningaloforð um niðurfærslu lána, bætta samfélagsþjónustu , stórbætt kjör aldraðra og öryrkja og lægri skatta. Þess vegna fengu þessir flokkar fylgi.
Ekki flýja loforð ykkar Kristján Þór! Ekki byrja strax að undirbúa svikin. Þið voru kosin vegna hinna miklu loforða sem þið gáfuð kjósendum.