Fara í efni

EKKI GOTT HJÁ GEIR

Birtist í Fréttablaðinu 17.09.07.
Ekki hefur farið leynt, að hafin er fundaröð um utanríkismál á vegum ríkisstjórnarinnar og háskólanna í landinu. Ég taldi fyrir mitt leyti að nú væri að hefjast margboðuð umræða um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu á nýrri öld. Ríkisstjórnin hefur til þessa farið sínu fram– og án samráðs – en við hljótum að bera þá von í brjósti að staðið verði við loforð um lýðræðislega umræðu um stefnumótun á sviði utanríkismála. Af nógu er að taka. Innihaldsríkrar umræðu er m.a. þörf um samninga á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, málefni sem snúa að Evrópusambandinu, áherslur okkar á vettvangi Alþjþóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, stefnuna í mannréttinda- og umhverfismálum að ógleymdum öryggismálunum í breyttum heimi. Ég gekk því fullur eftirvæntingar inn á fyrsta fundinn í margauglýstri fundaröð, í Hátíðarsal Háskóa Íslands, en þar áttu bæði að vera með innlegg, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Sitthvað athyglisvert kom fram í erindum á fundinum og nefni ég þar sérstaklega erindi Bjargar Thorarensen um Öryggisráð SÞ. Á heildina litið var það þó einkum hinn stofnananlegi rammi alþjóðastjórnmála sem var til umfjöllunar á fundinum en ekki hin brennandi álitamál. Eftir erindin gafst færi á að bera fram fyrirspurnir. Ég beindi fyrirspurnum til forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Þegar ég bar fram fyrirspurn mína hafði forsætisráðherra staðið upp og gekk ásamt föruneyti með talsverðum tilþrifum í átt til dyra. Ég vakti athygli hans á að ég óskaði eftir því að heyra mat hans á breyttum áherslum innan NATÓ og hvað það gæti þýtt fyrir Íslendinga. Forsætisráðherra sagði að hann myndi án efa eiga eftir að eiga orðastað við mig um þetta á þingi og strunsaði út. Utanríkisráðherra sat eftir, vék að fyrirspurn minni en svaraði henni ekki. Það var þó skömminni skárra en hjá forsæráðherra. Hjá Geir var þetta ekki gott. Getur verið að engin alvara sé á bak við fyrirheitin um opna umræðu um utanríkismál?