EKKI GRÆT ÉG BREXIT!
Margir leitast nú við að skýra niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi.
Sigur þjóðrembu, segja einhverjir, andstaða við flóttamenn segja aðrir, andstaða hægri manna við margvíslega félagsmálalöggjöf sem runnin er undan rifjum Evrópusambandsins, segja enn aðrir.
Eflaust skýra þessir þættir afstöðu einhverra þeirra sem kusu Bretland út úr Evrópusambandinu.
Svo eru það skýringar úr gagnstæðri átt, nefnilega andstaða við sívaxandi miðstýringu innan Evrópusambandsins og markaðshyggju sem aðildarríkjunum er þröngvað til að undirgangast. Þá er nefnd þjónkun við fjármálakerfi og peningavald og andstaða við stofnanaveldið almennt.
Sjálfur hefði ég kosið með útgöngu á síðari forsendunum.
Ég tel að tími sé kominn til að setja niður hælana gegn langvarandi og sífellt ágengari markaðshyggju Evrópusambandsins.
Ef Evrópusambandið hefði borið gæfu til að þróast sem lausbeislaðra tollabandalag, nær gömlu Efta hugmyndinni og síðan lagt rækt við mannréttindaþáttinn á vettvangi Evrópuráðsins þá værum við á betra róli. Auðvitað eiga Íslendingar erindi í náið samstarf Evrópuríkja á ýmsum sviðum. Öðru máli gegnir um fyrirskipanir um hvernig við skipuleggjum innviði okkar. Slíkar kvaðir eru hluti af EES pakkanum. Því miður.
Þarna liggur gagnrýni mín á Evrópusambandið og hefur alltaf legið.
Eftir að horfa á ESB hluta Evrópu jafnt og þétt undirgangast markaðsvæðingu innviða sinna og eftir að hafa horft upp á framkomu Evrópusambandsins gagnvart Íslandi í kjölfar bankahrunsins og síðar gagnvart grískum almenningi sem var þvingaður til að lúta í duftið svo þýskt og franskt fjármálakerfi fengi allt sitt á þurrt og síðan fyrirskipað að undirgangast lífskjaraskerðingu og hefja sölu þjóðareigna - þá get ég ekki sagt annað en að ekki græt ég Brexit.