Fara í efni

EKKI Í MÍNU NAFNI!

Dróna-stríð
Dróna-stríð


Þá hefur það tekist, að smala aðildarríkjum NATÓ og Evrópusambandsins í stríðsfylkingu í Mið-Austurlöndum. Ísland er þar með á báti samkvæmt yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu í dag. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að framlag Íslendinga verði matur. http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/8247

Það þýðir að aðrir sjá um sprengjurnar og ungmennin til að deyja þegar þar að kemur. Það er ömurlegt að hlusta á Íslendinga stæra sig af því að vera  herlaus þjóð sem þó er alltaf tilbúin að fórna annarra þjóða ungmennum þegar verja þarf auðlindahagsmuni vestræns kapítalisma. Við þekkjum þetta orðið: „Við erum bara að gefa mat, aðrir sjá um hernaðinn!"  

Er rétt að gera hvað sem er til að fá klapp á kollinn frá NATÓ , BNA og ESB?
Er hægt að verða smærri?

Fyrir nokkrum mánuðum var reynt að safna liði til stuðnings loftárása á Sýrland. Þá átti að bombardera stjórnarher Assads. Þá studdu Vesturlönd andstæðinga Sýrlandsstjórnar, þeirra á meðal voru ISIS. Nató ríkið Tyrkland styður enn ISIS, beint og óbeint.

En almenningur vildi engar árásir. Þar til ISIS fór að skera menn á háls frammi fyrir sjónvarpsvélum. Þá snerist allt. Allir voru nú til í krossför. Gegn ISIS.

Hvergi er minnst á sams konar villimennsku og ISIS gerist sekt um. Til dæmis líflát í miðborg Ryadh, höfðuborg Saudi Arabíu,  „almenningi til skemmtunar"  eins og einhvers staðar mátti sjá villimennskunni lýst. Algengast er að aflífa Saudi Araba með því að höggva höfðuðið af með sverði. Glæpirnir eru alls konar. Í ágúst síðastliðnum fór fram aftaka á „galdramanni".

Í helgarblaði DV 26. september birtist frábært viðtal Jóns Bjarka Magnússonar við John Pilger, hinn magnaða stríðsfréttaritara til áratuga. Hann fjallaði um lygar stórveldanna  sem hann hafði lært að þekkja á langri starfsævi. Ég ráðlegg öllum að reyna að nálgast þetta viðtal. Hér er slóð á hluta þess: http://www.dv.is/frettir/2014/9/26/hid-dulda-strid-er-sannleikurinn/

Sannast sagna hélt ég að einhvern tímann kæmi að því að blekkingaleiknum linnti og heimurinn lærði af mistökum liðinnar tíðar. En munum að  mistökin eru ekki herveldanna. Þau eru ekki að feilreikna sig. Þau eru nú sem fyrr að verja hagsmuni. Mistökin eru okkar, almennings, að láta blekkjast af lygum þeirra. 

Skyldu íslensku matargefendurnir vera tilbúnir að styðja sjálfstæði Kúrda? Þeirra sem ISIS er nú að myrða
í Sýrlandi og sem  Tyrkir áður myrtu  í Austur-Tyrklandi ? Og þar áður Saddam Hussein í Írak. Alltaf með þegjandi samþykki okkar heimshluta.

Mér segir hugur um að um sjálfstæði Kúrda  muni ekki heyrast eitt orð úr Stjórnarráði Íslands. Menn vita sem er að þá hætta menn  að fá klapp á kollinn.

Ég hef stundum fjallað um skyldu umheimsins að verja saklaust fólk gegn hernaðarofbeldi ef viðkomandi ríki eru ófær um það. Þá umræðu þarf að taka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eins og Kofi  Annan, fyrrverandi aðalritari SÞ lagði upp með. Þar yrðu hinar Sameinuðu þjóðir gerandinn en ekki hagsmuna- og hernaðarbandalög.  

Tilefni þessa litla pistils er ósköp einfalt. Mig langar til að segja að hlutdeild Íslands í árásarstríði í Mið-Austurlöndum verður ekki í mínu nafni.
Fórnarlömb dróna