Ekki svo að skilja að forseti Alþingis hafi á því einhvern sérstakan áhuga að skikka mig í slíkt próf. Aldrei hefur verið ýjað að slíku af hálfu forseta þingsins. En mér dettur þessi samlíking í hug vegna þess að hann fer með fyrirsvar í stjórn þingsins. Stjórnendur Álversins í Straumsvík láta alla sína starfsmenn undirrita plagg þar sem þeir fallast á að gangast undir læknisskoðun hvenær sem stjórnendum fyrirtækisins þóknast. Markmiðið er sagt vera að uppræta notkun vímuefna á vinnustað. Þessi aðferðafræði til að uppræta vímuefni og yfirleitt til að hafa áhrif á fólk til góðrar breytni, er hins vegar kolröng. Og afleiðingin er aukið duttlungavald stjórnenda á vinnustað. Um þetta er fjallað nánar á vefsíðu BSRB. Þar er að finna textann sem krafist er af starfsmönnum álversins að undirrita, rætt við Kristinn Tómasson, yfirlækni hjá Vinnueftirliti ríkisins auk þess sem þar er að finna leiðara um málefnið.