EKKI LÍKAÐI ÖLLUM SAMTAL OKKAR GUNNARS SMÁRA UM KVÓTAKERFIÐ
Síðastliðinn sunnudag ræddi ég við Gunnar Smára Egilsson um ýmsar hliðar kvótakerfisins og framvinduna frá því við hrintum átakinu Kvótann heim af stokkunum í Þjóðmenningarhúsinu í byrjun árs.
Gunnar Smári var skýr og afdráttarlaus að vanda og sama reyndi ég að vera þegar ég rakti hvernig fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða, sem kveður á um sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni, kom til sögunnar. Þá var fjallað um mikilvægi þess að festa auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
Frá því er skemmst að segja að þátturinn hóf sig til flugs og fékk mikla dreifingu og áhorf. En eftir fimm hundruð “deilingar” og þrettán þúsund heimsóknir lokaði Facebook á þáttinn – skýringarlaust. Greinilegt að einhverjum hafði ekki líkað það sem þarna kom fram eins málefnalegt og ég fullyrði að það hafi verið. En kannski er það einmitt það sem einhverjir óttast: málefnalega en gagnrýna umræðu um kvótakerfið.
Youtube brást okkur hins vegar ekki og er slóðin aðgengileg á https://kvotannheim.is/
Eftir útstrokunina var þátturinn aftur settur á facebook og verður fróðelgt að sjá hvort ritskoðarar hugsa sér aftur til hreyfings.
En umhugsunarvert hlýtur þetta að vera öllum þeim sem annt er um hið frjálsa orð – tjáningarfrelsið.