EKKI SKERÐA LÍFEYRISRÉTTINDIN!
Mestu ávinningar kjarabaráttu undangenginna áratuga voru á sviði lífeyrismála. Samtök opinberra starfsmanna stóðust áhlaup á kerfið 1986 og sömdu um tvíþætt kerfi, gamalt og nýtt. Grundvallarreglan í þessari breytingu var sú, að nýja kerfið yrði jafnverðmætt og hið gamla.
Á vinnumarkaði hefur löngum verið lögð áhersla á jöfnun lífeyrisréttinda. Hins vegar hefur verið deilt um það hvort samræma eigi upp á við eða niður á við.
Ljóst er að spjótin standa nú á opinberum starfsmönnum um að selja frá sér lífeyrisréttindi, að vísu ekki frá sjálfum sér, heldur nýráðnum starfsmönnum, í skiptum fyrir launaskriðstryggingu. Þetta tilboð stóð einnig til boða á síðari hluta níunda áratugar síðstu aldar en var hafnað sem betur fer í tengslum við svokallaða þjóðarsáttarsamninga árið 1990. Um þetta deildu þá ASÍ og BSRB. Þegar upp var staðið högnuðust félagar í ASÍ á einurð og stðafestu BSRB!
Varðandi launaskriðið þá eru það hagsmunir beggja vegna borðs að hafa þar fyrirkomulag sem virkar. Launamaðurinn vill sanngjörn laun, eigi síðri en þau sem bjóðast á almennum markaði, atvinnurekandinn verður fyrir sitt leyti að geta boðið kjör sem duga í samkeppni um gott fólk. En besta gulrótin í því samhengi hafa reynst vera réttindin. Og þá ekki síst lífeyrisréttindin.
Vonandi standa menn vörð um þau.
Í vikunni var rætt um breyttan lífeyrisaldur í alannatryggingakerfinu á Alþingi. Augljóst er að þær breytingar sem þar eru boðaðar ganga út frá hækkun lífeyrisaldurs í lífeyrissjóðakerfinu eigi síður en í almannatryggingum.
Kerfið býður upp á sveigjanleika um töku lífeyris gagnstætt því sem stundum er haldið fram. Tilfærlsa aldursmarka lýtur þess vegna ekki að starfslokum heldur hvort rýra eigi kjör lífeyrisþega umfram það sem nú er.
Ég færði rök fyrir afstöðu minni á Alþingi í vikunni: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20160908T134657&horfa=1