Fara í efni

EKKI STIGMÖGNUN AÐ FÆRA ÚKRAÍNUSTRÍÐIÐ TIL RÚSSLANDS MEÐ NATÓ-VOPNUM?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð, utanríkisráðherra, segir það ekki vera stigmögnun á stríðinu í Úkraínu að beita NATÓ vopnum innan landamæra Rússlands. Á sama tíma er rætt um að senda hermenn frá NATÓ ríkjum til Úkraínu.

Ég hvet fólk til að hlusta á utanríkisráðherra Íslands tjá sig um þetta í fréttum Sjónvarpsins, svo og Stoltenberg framkvæmdastjóra NATÓ : https://www.ruv.is/frettir/erlent/2024-05-30-beiting-vestraenna-vopna-a-russland-raedd-414182

Þetta eru glæfralegar yfirlýsingar, reyndar ekki nýjar af nálinni því undanfarin ár hafa Íslendingar búið við stigmögnun í glæfralegum bjánaskap íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar, fyrrverandi og núverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherrar, hver á fætur öðrum, hafa þar verið eindregnir talsmenn hernaðarhyggju eins og margoft hefur verið bent á í skrifum á þessari heimasíðu. Þegar fram hafa komið tillögur um að ljúka stríðinu með samningum hafa íslensk stjórnvöld ALLTAF stillt sér upp með þeim sem enga tilslökun vilja – ekkert annað en fullnaðarsigur óháð því hvað slíkt kostar í mannslífum og eyðileggingu. Þetta hefur verið stefna Íslands, því miður.

Nú spyr ég, er enginn á Alþingi Íslendinga sem ætlar að rísa upp og mótmæla þessari vitfirrtu þjónkun við hernaðarhyggjuna?

------------------------------------------------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.