EKKI SVO GÓÐIR HÁLSAR
11.11.2011
Gárungarnir segja að ég hafi ávarpað stórfund á Patreksfirði á dögun með þessum orðum, góðir hálsar. Þá hafi fundarmenn gengið af fundi í mótmælaskyni. Sagan er ágæt þótt hún kunni að vera örlítið ónákvæm því hún er á margan hátt upplýsandi.
Íbúar á sunnanverðum Vestjörðum andmæltu tillögum mínum um að sett yrði í forgang að stórbæta fjallavegina um Hjallaháls og Ódrjúgsháls í stað þess að leggja veg um Teigsskóg eða leita annarra lausna á láglendi. Fjallaleiðin þótti mér - og þykir enn fýsilegasti kostur, ef menn á annað borð setja í forgang að hraða úrbótum eins mikið og verða má og ná árangri með sem minnstum kostnaði! Benti ég á að Vegagerðinni hefði tekist bærilega í glímunni við fjallvegi víða á landinu og minnti á Bólstaðahlíðarbrekku, Bröttubrekku og fleiri vegi sem liggja hærra en fyrrnefndir hálsar á Vestfjörðum. En hvað um það, þetta vilja íbúarnir ekki. Alls ekki! Það fékk ég að vita hjá sveitarstjórnarmönnum á samráðsfundum síðsumars og síðan á fjölmennum íbúafundum í Bjarkarlundi og á Patreksfirði.
Á sama tíma fékk ég að vita að umhverfisverndarfólk myndi ekki sætta sig við veg um Teigsskóg í Þorskafirði sem margir hafa viljað fara. Um skeið var ég í hópi þeirra sem taldi þennan kost vænlegri en marga aðra. En ég lét sannfærast um að ekki væri hyggilegt að halda þessari leið til streitu. Það myndi skapa mikið og langvarandi ósætti.
Semsagt, Teigsskógur og hálsaleiðin eru út af borðinu. Það er afdráttarlaust af minni hálfu eftir samráðsferlið í sumar og haust.
Hvað er þá til ráða? Jú, að kanna hvort hægt er að ná fram markmiðum heimamanna og náttúruverndarfólks með öðrum hætti en að fara hina góðu hálsa, þ.e. að gera láglendisveg með jarðgöngum í gegnum Hjallahálsinn eða þverun fjarða - en síðari kostinn er ég óneitanlega hræddur við. En skoðum málið. Nákvæmlega það verður nú gert.
Allt þetta kom fram í umræðu á Alþingi í vikunni sem Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og sveitarstjóri á Tálknafirði, hafði frumkvæði að.
Umræðuna má sjá hér: