EKKI VÆRI LÚÐVÍK KOMINN Á HNÉN
Ég hef hlustað á talsmenn ríkisstjórnarinnar reyna að skýra hvers vegna hún hefur lyppast niður gagnvart yfirgangi Breta sem beittu hryðjuverkalögum við að koma íslenska bankakerfinu á hliðina þegar það mátti minnst við. Nú er orðið ljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að láta reyna á lögmæti þessara hryðjuverkalaga Breta og segir forsætisráherrann sýnt að við myndum tapa málsókn á hendur bresku ríkisstjórninni! Þá sé um að gera að gefast upp!!!
En það má ríkisstjórnin vita að málið snýst ekki einvörðungu um að tapa eða vinna málaferli heldur að sýna fram á trú okkar á eigin málstað. Það út af fyrir sig myndi styrkja okkur í samningum um lánskjör Icesave-lánanna.
Það var alltaf vitað að málið væri ekki einvörðungu réttarfarslegs efnis heldur hápólitískt. Hvers vegna skyldu Bretar ekki hafa beitt Bandaríkjamenn hryðjuverkalögum þegar þeir skelltu á nefið á þeim við lokun Lehman Brothers með fjöldauppsögnum í London og milljarðaflutningi vestur um haf? Það var vegna þess að Gordan Brown hafði ekki sömu burði til að kúga stórveldið og hann taldi sig hafa gagnvart smáþjóðinni á Íslandi. Þetta hafði ekkert með lögmæti að gera heldur trú á málstað og vald. Sá sem trúir á málstað sinn öðlast vald. Það skildu landhelgiskempurnar okkar.
Lúðvík Jósepsson kemur upp í hugann. Hann var einn fremsti foringi okkar í landhelgisstríðunum. Hann var málsvari til að reiða sig á vegna þess hve mikill baráttumaður hann var. Í nýútkomnu blaði Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Kópavogi, Kópi, vík ég að baráttu Lúðvíks. Ber hans framgöngu saman við linkuna í núverandi ríkisstjórn: „Spurningin snýst um úthald og staðfestu. Ef við hefðum haft sama fólk í brúnni á tímum landhelgisstríðanna og nú þá hefðum við tapað þeim öllum. Heldur einhver að Lúðvík Jósepsson hefði bara tekið ofan hattinn og hneigt sig í auðmýkt? Ég held ekki."
Lúðvík Jósepsson væri við núverandi aðstæður í bullandi sókn en ekki kominn á hnén, einsog núverandi ríkisstjórn er, gagnvart yfirgangi Breta og annarra ríkja Evrópusambandsins sem véla nú um það sín á milli hve fast þau eigi að herða að okkur vaxtaskrúfuna.
Hér má nálgast umrætt viðtal í Kópi: