Fara í efni

ELDFIMT ÁSTAND


Ljóst er að mótmælin í landinu eru að aukast. Krafan um að ríkisstjórnin fari frá að magnast. Viljinn til að fá kosningar að verða víðtækari. Skaphitinn að æsast innra með fólki. Gagnvart hrokafullri og veruleikafirrtri ríkisstjórn er þetta hættulegur kokteill. Við slíkar aðstæður er hlutskipti lögreglunnar erfitt og við þessar aðstæður getur skapast hætta á ofbeldi - á báða bóga.

Ummæli sem ég heyrði af í dag voru mér til hugarhægðar enda held ég að þau hafi að sumu leyti verið spegill á ástandið.

1)  Samræða unglinga í strætó: „Ætlar þú að taka þátt í mótmælunum við Alþingishúsið í dag? Nei, en pabbi ætlar og amma!

2)  89 ára gömul amma fréttir af því að dóttursonur hafi verið tekinn höndum við Alþingishúsið: „Nú fer ég að hugsa mér til hreyfings. Hvenær verður næst mótmælt?"

3) Sagt við lögreglumann við Alþingishúsið: „Ykkar hlutskipti er ekki auðvelt. Þrátt fyrir undantekningarnar í ykkar röðum hefur ykkur tekist að halda ró ykkar. Svar: Það má heldur ekki gerast að fólk fari að líta á okkur sem andstæðinginn. Við erum hluti af þjóðinni eins og hver annar. Ekki gleyma því"

Mikið rétt!. Gleymum þessu ekki. Mótmælendur verða að hafa hugfast að allur þorri lögreglumanna  vill sýna varfærni og stillingu. Lögreglumenn þurfa að sama skapi að hafa hugfast að innra með mótmælendum brennur mjög réttlát reiði og að miðað við aðstæður eru mótmælin mjög friðsöm.