Fara í efni

ENDURNÝJUN OG KRAFTUR Í VG !


Að undanförnu hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð efnt til funda víðs vegar um landið með fulltrúum af framboðslistum flokksins. Frummælendur á fundunum hafa verið frambjóðendur í öðru og þriðja sæti listanna. Einn slíkur fundur var haldinn í gær í Hafnarfirði. Þar töluðu Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (sem skipar 2. sæti VG í Suðvesturkjördæmi), Gestur Svavarsson (sem skipar 3. sæti VG í Suðvesturkjördæmi og Ragnheiður Eiríksdóttir (sem skipar 3. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi). Erindi þeirra voru frábær.
Guðfríður Lilja lagði út af þeirri hugsun að stjórnmál ættu að ganga út á það að gera lífið bærilegra fyrir alla þegna samfélagsins. Samfélag jafnaðar sem færi vel með umhverfi sitt, samfélag sem byði öllum góð kjör, virti lýðræði og frelsi allra, jafnt karla sem kvenna, væri betri og jákvæðari íverustaður fyrir okkur öll en samfélag ójafnaðar.
Gestur Svavarsson var á svipuðum nótum og lagði áherslu á að fjarlægja þröskulda og hindranir í samfélaginu sem gerðu það að verkum að þegnunum væri mismunað. Við yrðum að kappkosta að búa öllum góð lífsskilyrði og að allir ættu að hafa áþekk tækifæri til þess að lifa góðu og innihaldsríku lífi. Verkefni stjórnmálanna væri að sjá til þess. Gestur höfðaði til samfélagslegrar ábyrgðar. Það kæmi okkur öllum við ef fólk í öðrum byggðarlögum en okkar eigin byggi við bág kjör eða sætti kynbundnu ofbeldi. Ábyrgðin væri samfélagsins alls.
Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða) lagði einnig ríka áherslu á jöfnuð í samfélaginu og mikilvægi þess að við beittum okkur í þágu jafnaðar. Hún sagði að sem ung stúlka hefði hún aldrei getað hugsað sér að viðurkenna og taka því þegjandi að samfélagið mismunaði fólki og nú hefði hún gert alvöru úr því að taka þátt í pólitískri baráttu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í þessa veru. Það væri hægt að skapa réttlátara samfélag en við höfum nú. Fyrir því yrði hins vegar að berjast. Undir þetta skal tekið.

Það sem lifir með mér eftir þennan fund er sá mikli endurnýjunarkraftur sem býr í Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Það er uppörvandi að hlusta á nýtt fólk – það á við einstaklinga á öllum aldri – sem eru að kveða sér hljóðs í pólitískri sveit Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Það er tilbreyting að hlusta á hinar nýju raddir, kröftugar og baráttuglaðar. Sá sem á hlýðir fyllist von um betri tíð.