ENGAR GLERPERLUR TAKK – VIÐ VILJUM SUNDLAUG!
Ragnar Ólafsson veltir vöngum yfir því í bréfi til síðunnar hvort Vopnfirðingar séu stórir upp á sig. Því hlýtur hver og einn að svara fyrir sitt leyti. Samkvæmt fréttum vilja þeir, eða margir þeirra, að auðkýfingurinn Ratcliffe, sem er að þræða jarðir á norð-austurhorni landsins upp á eignaband sitt, gefi sér sundlaug.
Engar glerperlur takk eins og værukærir frumbyggjar létu sér nægja öldum saman þegar nýlenduherrarnir tóku yfir land og auðlindir, svo vísað sé í bréf Ragnars.
Nú er náttúrlega tvennt í þessu.
Í fyrsta lagi er ekkert við það að athuga að þau sem hafa fjármagn á hendi láti af þessari sömu hendi rakna til samfélagsins. Þess eru mörg virðingarverð dæmi, m.a. að færa heimabyggð sinni mannvirki. Virðingin fer hins vegar þverrandi þegar sá grunur fer að læðast að manni að verið sé að kaupa velvild, koma sér í mjúkinn. Það er allt annars eðlis og síður en svo virðingarvert.
Í öðru lagi þá þarf ekki að vorkenna þessum tiltekna manni, ríkasta manni Bretlands að sögn, að punga út fyrir einni sundlaug. Þeir peningar koma frá fjárfestingum hans fyrir morgunkaffið á degi hverjum.
Það sem er náttúrlega umhugsunarefni, og þá kannski jafnframt áhyggjuefni, er hve langt margir landar eru reiðubúnir að ganga til að fá notið brauðmolanna af borðum nýrrar landeigendastéttar. Þar er áhyggjuefnið ekki hin nýja eigendastétt heldur auðkeyptir undirsátar hennar.