Fara í efni

ENGIN ÞJÓÐARSÁTT ÁN BÆNDA

Sumir telja það vera allra meina bót að opna fyrir innflutning á landbúnaðarvöru í því skyni að lækka verðlag. Þeir hinir sömu gefa þá jafnvel lítið fyrir hagsmuni íslenskra bænda – og íslenskra neytenda vildi ég einnig sagt hafa. Staðreyndin er nefnilega sú að íslensk landbúnaðarvara er hollustufæði, sem ekki verður framleitt ef ekki eru til staðar framleiðendur, íslenskir bændur. Þetta gefur augaleið. Þess vegna má ekki einblína á verðlagið eitt heldur þarf að ráðast í allar breytingar með hagsmuni íslenskrar landbúnaðarframleiðslu í heild sinni í huga. Engir bændur: engin íslensk landbúnaðarvara.
Bændum hefur fækkað um 30 – 40% á undanförnum hálfum öðrum áratug. Hagræðing hefur verið mikil og ör í íslenskum landbúnaði. Hún má ekki verða of ör því þá göngum við of nærri íslenskum framleiðendum. Þá er hætt við því að hagræðingin snúist upp í andhverfu sína. Um þetta fjöllum við m.a. í yfirlýsingu sem við Elín Björg Jónsdóttir, fulltrúi BSRB í landbúnaðarnefnd forsætisráðherra, birtum í dag á heimasíðu BSRB, sbr. HÉR.