ENGINN FLUGVÖLLUR - EKKERT SAMKOMULAG
Birtist í Morgunblaðinu 30.5.13
Nýlega undirritaði ég, sem innanríkisráðherra, samkomulag við borgaryfirvöld í Reykjavík um aðskiljanlega þætti sem snúa að Reykjavíkurflugvelli. Af hálfu borgarinnar var það sagt vera grundvallaratriði að fá tiltekið svæði nærri flugvellinum undir byggingar og að til þess þyrfti að loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni.
Á þetta gat ríkið fallist að því gefnu að áður hefði verið frá því gengið að flugbraut í Keflavík gæti sinnt neyðartilfellum sem þessi braut nú þjónar. Ekki yrði þó gefin heimild til lokunar brautarinnar fyrr en ýmsum öðrum skilyrðum hefði verið fullnægt. Þar var ný flugstöð grundvallaratriði en hún yrði hins vegar ekki reist nema viðskiptaáætlun lægi fyrir. Niðurstaða hennar yrði hvorki fugl né fiskur ef flugvöllurinn með samsvarandi nýtingarhlutfalli og er í dag ætti sér ekki von um einhverja lífdaga inn í framtíðina. Annars væri fjárfestingin til lítils.
Nú bregður svo við eftir að samkomulagið er undirritað að gengur á með tíðum yfirlýsingum af hálfu borgarinnar um að senn séu dagar flugvallar í Reykjavík taldir. Ef svo er mun engin flugstöð rísa sem svo aftur þýðir að fyrrnefnt samkomulag kemst ekki til framkvæmda. Það hefur alla tíð verið viðurkennt að skipulagsvaldið er hjá borginni en það er jafnaugljóst að ríkið á hluta af flugvallarlandinu og það er ríkið sem er ábyrgt fyrir flugsamgöngum í landinu. Ráðherra ber að fylgja samgönguáætlun samkvæmt samþykktum Alþingis. Og flugsamgöngur í landinu koma öllum landsmönnum við.
Þetta þýðir að við verðum að hugsa þessi mál á landsvísu og langt fram í tímann. Það þýðir að yfirlýsing í fyrirsögn á borð við þá sem birtist í þriðjudagsblaði Morgunblaðsins með tilvitnunum í fulltrúa borgarinnar, að flugvöllurinn "verði farinn eftir tíu ár" gengur ekki. Hún gengur af hálfu blaðsins en ekki þeirra sem svo mæla. Niðurstaðan í þessu deilumáli yrði þá enn um sinn fyrirsögn þessa greinarkorns.