ENGINN VEIT HVAÐ ÁTT HEFUR...
Birtist í 24 stundum 31.08.08.
Það var hárrétt ábending hjá bankastóra Landsbankans, Sigurjóni Árnasyni í útvarpsviðtali, að Íslendingar hafi allar forsendur til að lifa góðu lífi haldi þeir vel á málum. Spurning er hins vegar hvernig við berum okkur að. Þar er ég bankastjóranum ekki sammála. Hann sér helst möguleika í áli.
Að trúa á eigin getu
Íslendingar eru vel menntuð þjóð sem býr yfir miklum sköpunarkrafti, við erum ekki þjökuð af skrifræðis- og reglugerðarhugsun úr hófi fram (þótt marga dreymi um það illu heilli að koma okkur kyrfilegar undir tilskipanaveldið í Brüssel). Íslendingum vaxa hlutirnir almennt séð ekki í augum; tilfinningin er sú að flestu sé hægt að redda. Þessi hugsun er dýrmæt. Þann dag sem við gerðumst sérfræðingar í að ná í pening úr öllum sjóðunum í Evrópusambandinu og hættum að stóla á okkur sjálf, þá mun fara að halla undan fæti hjá landanum. Betra er að hafa minni sjóðsaðgang en þeim mun meiri trú á sjálfan sig og vilja til að standa sig.
Bankastjóra fatast flugið
Aftur að álinu. Bankastjóri Landsbankans orðaði það svo að álframleiðsla snerist um að flytja út orku. Nú væri góður prís á orku í heiminum og um að gera að grípa tækifærið. Virkja án afláts og selja álframleiðendum orkuna. Svo var að skilja að þetta væri tækifæri sem mætti ekki ganga okkur úr greipum. Kannski kæmi það ekki aftur. Þarna hygg ég að Sigurjóni bankastjóra fatist flugið heldur betur. Í fyrsta lagi erum við að fá mjög lágt verð fyrir orkuna. Í öðru lagi mun orkuvandinn í heiminum aukast fremur en hitt og af þeim sökum erum við ekki að missa af neinu tækifæri núna. Í þriðja lagi væri heppilegra að láta íslensk atvinnufyrirtæki og heimili að sjálfsögðu fá orkuna á gjafaprísum í stað þess að láta fjölþjóðlega álrisa njóta vildarkjara. Það væri betra fyrir íslenskt atvinnulíf. Við skulum ekki gleyma því að virðisaukinn fyrir íslenskt þjóðarbú af álframleiðslu í eigu erlendra fjárfesta er miklu minni en af nánast öllum innlendum avinnurekstri!
Metum Þjórsá að verðleikum
Síðast tel ég svo upp það sem mestu máli skiptir. Að umbreyta orku í ál er ekki gert okkur að kostnaðarlausu. Fórnin er ekki smá. Fórnað er náttúruperlum Íslands. Sigríður frá Brattholti bjargaði Gullfossi á sínum tíma; kvaðst fremur fórna lífi sínu en láta eyðileggja Gullfoss. Ekki vil ég mannfórnir. En það er engu að síður okkar kynslóðar að bjarga Þjórsá og Jökulánum í Skagafirði frá skammsýnum og virkjunaróðum stjórnvöldum.
Herhvöt Sigurjóns bankastjóra og félaga nú síðast gengur út á að víla ekki fyrir okkur að virkja á kostnað náttúrunnar. Ég hef rætt við fjöldann allan af fólki sem ferðast hefur um landið okkar í sumar, bæði innlent fólk og erlent , frá sér numið af hrifningu. Gullfoss þótti glæsilegur og ógleymanlegt að upplifa flúðasiglingar í Jökulánum í Skagafirði, Þjórsá tignarleg.
Náttúruperlum fórnað fyrir einnota dós
Nú er spurningin hvort viljum við heldur, a) varðveita náttúruperlur Íslands fyrir komandi kynslóðir að njóta, b) fórna þeim fyrir vafasama skammtímahagsmuni (innspýtingu í efnahagslífið rétt á meðan verið er að virkja og reisa álverksmiðjurnar) og taka þannig þátt í framleiðslu „hreinnar orku" til að niðurgreiða einnota kókdósir og álbakka undir kjötið á grillið. Ég held þeir kosti tíkall stykkið. Ekki mikið. Enda orkan ódýr. Náttúruperlur á gjafaprís.
Ætlum við að fara svona með náttúru Íslands? Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður