Fara í efni

ENIKAVÆÐINGIN FREISTAR


Fyrir nokkrum dögum var útvarpsviðtal við Ástu Dís Óladóttur, forstöðukonu nýrrar deildar háskólans að Bifröst, sem mun sérhæfa sig í stjórnun innan heilbrigðisþjónustu. Hvers vegna skyldi þetta nám eiga að freista fólks? Jú, umhverfið í heilbrigðismálum er að breytast sagði forstöðukonan og á eftir að breytast miklu meira. Enginn þurfti að velkjast í vafa um að þar átti hún við að einkavæðingin væri nú að hefja innreið sína í heilbrigðisþjónustuna fyrir alvöru: "Heilsan er orðin meiri markaðsvara...yngra fólk er byrjað að fjárfesta í heilsu..."
Fólk er farið að hugsa meira um þessi mál en áður, líkt og gerst hefur með öryggismálin sagði Ásta Dís ennfremur: "Öryggismál eru orðin neysluvara." Sitthvað fleira í þessa veru var sagt í þessu viðtali í morgunútvarpi RÚV 11. okt. sl. Þar var til dæmis staðhæft að einkarekstur myndi stuðla að nýsköpun í heilbrigðisþjónustunni.

Vafasamar fullyrðingar

Hér er heldur betur talað tungu markaðshyggjunnar. Ég leyfi mér að efast stórlega um staðhæfingar Ástu Dísar Óladóttur. Þannig er ljóst að þótt hún sé vongóð um að heilbrigðisþjónustan verði öll meira og minna einkarekin innan skamms, þá má hún vita að meirihluti þjóðarinnar er því andvígur samkvæmt skoðanakönnunum, þannig að við skulum ekkert gefa okkur neitt í þessu efni. Í annan stað eru það rannsóknir í læknavísindum – yfirleitt á vegum hins opnbera eða studdar af skattfé, sem tryggt hafa framfarir á þessu sviði. Það er einnig véfengjanlegt að fólk hugsi meira um þessi mál nú en áður. Baráttufólk fyrir velferðarríkinu á tuttugustu öldinni hugsaði um fátt meira en leiðir til að tryggja góðar almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu – ekki fyrir sig sjálft sem "fjárfestingu" heldur sem ávinning og lífsgæði fyrir samfélagið allt.

Fjármálaþjónusta fyrir konur?

Það er ekki bara Háskólinn að Bifröst sem veðjar á einkavædda heilbrigðisþjónustu. Þannig sló Viðskiptablaðið því upp í stórfrétt þriðjudaginn 16. október, að stofnað hefði verið fjármálafyrirtækið Auður, sem muni bjóða upp á fjármálaþjónustu "þar sem konur verða í fyrirrúmi." Forsvarskonur fyrirtækisins, Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir, sögðust ætla að "bjóða upp á fjárfestingarþjónustu með annars konar áherslum og gildum. Það má segja að við sjáum í aðra röndina vaxandi fjár- og mannauð kvenna og í hina röndina fjármálaumhverfi sem ekki beinir sjónum mikið í þessa átt. Auður ætlar að brúa þetta bil." Fyrirtækinu er ætlað að fjárfesta "góðri langtímaarðsemi." En hvar skyldu nú tækifærin fyrir langtímagróða helst vera að finna? Þau eru, samkvæmt eigendum Auðar, ekki síst  "á sviði heilbrigðisþjónustu og mennta. Þetta eru ört vaxandi þjónustugreinar sem að mestu leyti hafa verið í höndum hins opinbera, en fyrirsjáanlegt er að einkarekstur muni aukast til að mæta auknum kröfum og þörfum nútímasamfélags."

Óþarfa milliliðir

Ég spyr, er það krafa og þörf nútúmasamfélags að fjárfestar geri sér menntun ungviðisins og  bágborið heilsufar fólks að féþúfu? Endurspeglar þetta einhver sérstök kvenleg gildi?
Hvers vegna reynir þetta fólk ekki sjálft að finna upp eitthvað nýtt í stað þess að troða sér inn í starfsemi sem samfélagið hefur komið sér upp og hefur gengið ágætlega að þróa svo fremi sem fjármunir eru fyrir hendi? "Frumkvöðlarnir" segja að áfram eigi skattborgarinn að borga – þeir ætli hins vegar að tryggja fjárfestum hlutdeild í framlagi hins opinbera í "góðri langtímarðsemi" einsog það heitir. Í mínum huga er einfaldlega verið að búa til óþarfa milliliði.