ENN KÆRIR ÁRNI
Árni Guðmundsson, æskulýðs- og tómstundafulltrúi og formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, hefur enn eina ferðina skrifað ríkissaksóknara bréf til að vekja athygli á áfengisauglýsingum en þær eru sem kunnugt er bannaðar lögum samkvæmt. Nýlega komst Héraðsdómur Reykjavíkur að því að auglýsingar af þessu tagi stæðust lög. Bjórsalar skjóta sér yfirleitt framhjá banninu með því að hafa einhvers staðar agnarsmátt letur þar sem segir að bjórinn sem auglýstur er sé ekki til sölu. Á þetta einblína dómstólar.
Að undanförnu hefur það hins vegar þráfaldlega gerst að auglýsingar eru ekki auðkenndar með þessum hætti og verður það að flokkast undir óendanlegan vesaldóm dómsmálayfirvalda að láta þetta framferði óátalið. Þá verður það að segjast að virðing fólks fyrir dómstólunum vex ekki af sýknudómum á þessu sviði. Enginn virðist hafa manndóm í sér til að axla ábyrgð. Fjölmiðlarnir, þar með talið Ríkisútvarpið, auglýsa þvert á lögin, að ekki sé minnst á anda laganna. Þessir fjölmiðlar telja sig greinilega hafa meiri skyldur við eigin pyngju en gangvart áhorfendum og lesendum, að ógleymdum landslögunum.
Ég virði sjónarmið þeirra sem vilja breyta lögunum og heimila auglýsingar. Ég er einfaldlega ósammála þeim. Hina virði ég ekki sem hafa lögin að engu.
Meðfylgjandi er bréf Árna Guðmundssonar.
Ágæti ríkissaksóknari
Tel það borgaralega skyldu mína að vekja athygli yðar á meðfylgjandi heilsíðu áfengisauglýsingu frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar sem birtist í tímaritinu Birtu 25. mars á síðu 57. Vek einnig athygli embættisins á að í Fréttablaðinu ( m.a. á forsíðu og baksíðu blaðsins 25.mars) auglýsir fyrirtækið HÓB Faxe bjór eins og skilmerkilega kemur fram á mynd í auglýsingunni Faxe -Danish lager beer Samkvæmt íslenskum lögum og út frá velferðar sjónarmiðum um vernd barna og ungmenna eiga þau rétt til þess að vera laus við áreiti af þessum toga. Í þeim tilfellum sem hér eru tíunduð er um einlægan brotavilja og ásetning að ræða. Sem foreldri og almennur borgari í þessu landi geri ég kröfu um að sú vernd sem lög um bann við áfengisauglýsingum á að veita börnum og unglingum sé virt. Svo er ekki og því er nauðsynlegt fyrir yður að grípa til þeirra úrræða sem embættið hefur gangvart lögbrotum.
Virðingarfyllst,
Árni Guðmundsson